Karíbahaf Anguilla,
[Flag of the United Kingdom]


ANGUILLA
.

.

Utanríkisrnt.

Anguilla er eyja í austanverðu Karíbahafi og tilheyrir Bretlandi.  Hún er u.þ.b. 100 km norðvestan St Kitts og er nyrzt svonefndra Hléeyja eða Minni-Antilleeyja.  Flatarmál Anguilla er 91 km².  The Valley er aðalbær eyjarinnar og stjórnsýslumiðstöð.  Eyjan er flöt og umkringd sandströndum, 27 km löng og tæplega 6 km breið.  Nafnið Anguilla þýðir áll.  Umhverfis hana eru nokkrar óbyggðar smáeyjar, s.s. Dog, Scrub, Prickly Pear- og Sombreroeyjar.  Grunnur eyjarinnar er kalksteinn og kórallar.  Hæsti staður eyjarinnar er 65 m.y.s.  Jarðvegur er víðast þunnur en sums staðar í dalverpum er hann þykkari.  Þarna ríkir hitabeltisloftslag, meðalhitinn er í kringum 27°C og úrkoman er í kringum 900 mm á ári.  Stundum leggja fellibyljir leið sína yfir eyjuna á tímabilinu júlí til október.  Gróðurinn er víðast einungis runnar en á nokkrum stöðum eru ræktaðir ávextir.

Íbúarnir eru flestir af afrísku bergir brotnir.  Opinber tunga er enska og flestir eru í ensku biskupakirkjunni eða meþódistar.

Efnahagslífið.  Landbúnaður er minni háttar atvinnuvegur.  Fjármálaþjónusta og ferðaþjónusta eru aðalatvinnuvegir eyjarskeggja.  Ferðamönnum fjölgar ár frá ári og byggingariðnaður hefur blómstrað í tengslum við þá auk vinnu við samgöngubætur.  Fyrrum lifðu flestir á fiskveiðum og bæði landbúnaður og fiskveiðar hafa aukizt í tengslum við ferðaþjónustuna.  Talsvert er flutt út af fiskafurðum og humri.  Margir eyjarskeggjar vinna erlendis og senda ættingjum peninga heim.

Stjórnsýsla.  Fulltrúi brezku krúnunnar er landstjóri.  Hann hefur umsjón með utanríkis-, varnar-, öryggis- og félagsmálum.  Stjórn eyjarinnar skipa forsætisráðherra og ráðherrar hans.  Þingmenn eru kosnir í almennum kosningum og landstjórinn tilnefnir nokkra slíka í samráði við forsætisráðherrann.

Menntun er frí og skólaskylda gildir fyrir börn á aldrinum 5-14 ára.  Heilbrigðismál eru að mestu í góðu lagi, þótt nokkuð skorti á þjónustu á því sviði.  Á eyjunni er aðeins heilsugæzlustöð og aðra þjónustu verður að sækja til stærri eyjanna í grendinni.

Sagan.  Líklega kom Kólumbus auga á eyjuna í ferð sinni 1493.  Hún varð brezk nýlenda eftir að hun byggðist árið 1650 og var stjórnað með öðrum Hléeyjum undir yfirráðum Breta.  Frá 1825 var eyjunni stjórnað frá St Kitts og árið 1882 var hún sameinuð St Kitts og Nevis sem nýlenda Breta í andstöðu við íbúana.  Árið 1967 kvörtuðu eyjarskeggjar undan ofríki stjórnarinnar á St Kitt og kom sér upp eigin stjórn og lýsti yfir sjálfstæði.  Eftir að samingaviðræður runnu út í sandinn sendu Bretar herlið til að koma á lögum og reglu á ný 1969.  Herinn var kvaddur heim í september sama ár og Anguilla var sett undir beina stjórn Breta.  Eyjarskeggjar fengu nýja stjórnarskrá 1982.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM