Vancouvereyja,
úti fyrir Kyrrahafsströnd Suðvestur-Brezku Kólumbíu í Kanada, alls
31.285 km², er stærsta eyjan vestan landsins.
Milli hennar og Kanada eru sundin Georgia, Johnstone og Queen
Charlotte og milli hennar og BNA er Juan de Fucasundið.
Eyjan er að meðaltali 80 km breið og allt að 460 km löng og
er í raun og veru hæsti hluti sokkins fjalllendis.
Hún er greypt dölum, mjög skógi vaxin, fjalllend og nær allt
að 2100 m hæð yfir sjó.
Vesturströndin er vogskorin.
Strathcona Provincial þjóðgarðurinn nær yfir u.þ.b. 219 km²
svæði á miðri eyjunni, Pacific Rim þjóðgarðurinn, 500 km², er
í þremur hlutum meðfram vesturströndinni og Cape Scott þjóðgarðurinn
(151 km²) er á norðvesturhorninu.James
Cook (1778), skipstjóri, kom fyrstur Evrópumanna til eyjarinnar og
George Vancouver kannaði hana 1792.
Hún var í eigu Hudsonflóafélagsins til 1849, þegar hún varð
að brezkri krúnunýlendu.
Árið 1866 var hún sameinuð nýlendunni Brezku Kólumbíu, sem
varð hérað í Kanada árið 1871.
Þá varð aðalborg eyjarinnar, Victoria, að höfuðborg héraðsins.
Helztu atvinnuvegir íbúa eyjarinnar eru skógarhögg og
timburvinnsla, fiskveiðar, námugröftur (kol, járn, kopar), landbúnaður
(mjólkurbú, ávextir og grænmeti) og ferðaþjónusta.
Helztu þéttbýlisstaðir eru aðallega meðfram austurströndinni,
Victoria, Duncan, Nanaimo, Port Alberni, Courtenay, North Cowichan, Port
Hardy og Campell River.
Samgöngum við eyjuna er haldið uppi með ferjum og flugi, bæði
frá meginlandi Kanada og BNA.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1991 var 571.493. |