Toronto Ontario Kanada,
Flag of Canada


TORONTO
KANADA

.

.

Utanríkisrnt.

SENDIRÁÐ og RÆÐISMENN

 

Toronto er höfuðborg Ontaríófylkis í Suðaustur-Kanada.  Hún er fólksflest borga landsins og mikilvægust á sviðum fjármála og viðskipta ásamt því að vera í því héraði landsins, þar sem velmegun er mest.  Borgin er mikilvæg, alþjóðleg viðskiptamiðstöð á norðurströnd Ontaríóvatns, sem myndar hluta landamæranna að BNA.  Hún á greiðan aðgang að skipaleiðum út á Atlantshafið um St. Lawrence leiðina og til margra iðnaðarborga í BNA um Vötnin miklu.  Á síðari hluta 20. aldar stækkaði borgin gríðarlega.  Hún breyttist úr ljóta andarunganum í fallegan svan.

Lega borgarinnar.  Borgarlandið er að mestu marflatt en u.þ.b. 6 km frá vatninu hækkar það um 12 m upp á gömlu strandlengju vatnsins (jökulvatnsins Iroquois).  Göturnar mynda að mestur ferningslaga svæði, sem eru brotin upp með götum, sem fylgja landslaginu meðfram vatninu.  Viðskiptahverfin eru við Bloor-, Yonge- og Queengötur.  Fjármálahverfið, með fjölda banka og tryggingarfyrirtækja, er nærri King- og Baygötum sunnan gamla ráðhússins (1899).

Yfir byggingunum meðfram vatninu gnæfa margar háar byggingar, s.s. CN-turninn (fjarskipta- og útsýnisturn; 550 m hár) og Toronto-Dominion miðstöðin, Scotia Plaza, Canada Trust turninn, Manulife miðstöðin, verslunardómshúsið og First Canadian Place (Montrealbanki), sem eru allar hærri en 50 hæðir.  Meðal annarra áberandi bygginga eru Ráðhúsið (1965), Eaton miðstöðin (stór verzlanaklasi), hið gyllta Royal Bank Plaza, Metropolitan Torontobókasafnið, Vísindamiðstöð Ontaríó og Roy Thomson tónlistahöllin, sem er kunn fyrir góðan hljómburð.  Samgöngukerfi borgarinnar neðanjarðar er mikið um sig, bæði fyrir lestir og bílaumferð.  Það liggur að helztu verzlunum, veitingastöðum og leikhúsum.  Mikið var og er reist af íbúðarhúsnæði og fjölnota byggingum og gömul, vernduð hús eru endurbyggð fyrir búsetu, sem hefur hleypt nýju lífi í kjarna borgarinnar.

Strandlengja borgarinnar er aðskilin miðborginni með járnbrautarsporum og hraðbraut.  Ferjur flytja fólk og vörur til og frá Torontoeyjunum, sem eru í tæplega kílómetra fjarlægð.  Þar eru smábáta- og snekkjuhafnir og klúbbar, lítill flugvöllur, afþreyingarsvæði og tæki og íbúðabyggð.

Norðan aðalviðskiptahverfanna er skemmtilegt Yorkville-Cumberland verzlunarhverfi.  Sunnan þeirra eru Queen’s almenningsgarðurinn, byggingar Ontaríóþings og Torontoháskólinn.  Þetta er allstórt og grænt svæði með trjám og grasflötum, eitt af mörgum slíkum í borginni.  Rosedale er eitthvert mest aðlaðandi íbúðahverfi borgarinnar með bugðóttum, trjágirtum götum í grennd við miðbæinn, sem státar af mörgum fallegum götum og húsum.

Loftslagið er tiltölulega milt vegna nálægðar Ontaríóvatns, þótt hiti fari oft niður fyrir núllið á veturna.  Mikil snjókoma er sjaldgæf.  Hitinn í júlí og ágúst er að meðaltali 30°C og rakastig talsvert hátt.

Á fimmta og sjötta áratugnum óx Toronto mest allra norður-amersískra borga.  Þangað lá þungur straumur evrópskra innflytjenda, sem breytti svipmóti borgarinnar.  Lungi borgarbúa var af brezku bergi brotinn og mótmælendatrúar áður en þetta gerðist en hlutifallið breyttist í kringum 1961, þegar þeir voru orðnir að minnihluta.  Á áttunda og snemma á níunda áratugnum bættust við innflytjendur frá Vestur-Indíum og Asíu.

Lega borgainnar er mjög hagstæð til viðskipta og samgangna.  Um hana liggja greiðar leiði til helztu iðnaðarsvæða í BNA og um Vötnin miklu, sem greiða leið alla leið út á Atlantshafið.  Þessi velmegunarborg framleiðir mikið til útflutnings, sem byggist á góðu aðgengi að margs konar hráefni, timbri, vatni, landbúnaði, og raforku.  Kauphöllin í borginni er meðal hinna virtustu og stærstu í heimi.

Ontaríófylki


Icelandair flýgur til
Toronto borgar.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM