Kanada land og náttúra,
Flag of Canada


KANADA
LAND og NÁTTÚRA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landslag og lega.  Það er hægt að líkja Kanada við gríðarmikla lægð, sem er rúmlega 5300 km í þvermál.  Cordillerafjöllin eru í vestri, Appalacianfjöll í suðaustri, fjöll norður Labrador og Baffineyjar í norðaustri og Innuitianfjöll í norðri mynda umgerðina.  Hudsonflói er u.þ.b. fyrir miðju og er dýpsti hluti lægðarinnar.  Vesturrimi lægðarinnar er hærri og tröllauknari en austurriminn.  Hluta hans, norðaustast og syðst, vantar.  Meginlínurnar í landslaginu teygjast langt inn í BNA og tengja landslag norðan og sunnan landamæranna.  Kanadamenn urðu að brjótast milli stranda heimshafanna og efla samgöngur á milli þeirra til að skapa þjóðskipulagið, sem þeir búa við.  Norðurhluti landsins er enn þá meðal strjálbýlustu svæða jarðar.  Það má skipta landinu í nokkur landfræðileg svæði, s.s. Kanadaflekann, miðslétturnar, Mikluvatnasvæðið – St. Lawrence-láglendið, Appalachiasvæðið, Vestur-Cordillerafjöllin og heimskautseyjarnar

Loftslag og veðurfar.  Loftslagið er mjög breytilegt vegna breiddar landsins frá suðri til norðurs.  Meðfram Kyrrahafinu ríkir svipað loftslag og í Englandi með tlsverðri úrkomu og tempruðum hita sumar og vetur.  Í norðurhlutanum (2/3 hlutar landsins) ríkir svipað loftslag og í Norður-Skandínavíu, langir og mjög kaldir vetur og stutt og svöl sumur.  Um sunnanvert miðbikið og á innsléttunum eru vetur mjög kaldir, sumrin heit og úrkoma tiltölulega lítil.  Í Ontaríó og Quebec eru sumrin heit og rök og vetur kaldir og snjóþungir, líkt og í hluta Miðvesturríkja BNA.  Meðalhiti kaldasta mánaðarins er alls staðir neðan frostmarks nema vesturströndin.

Köldustu landshlutarnir eru fjærst sjó.  Lægsti skráði hiti, -63°C, mældist í Snag í Yukon.  Þessi sömu svæði eru líka hlýjust á sumrin.  Í Vancouver á vesturströndinni er meðahiti janúarmánaðar 3°C og í júlí 18°C.  Í Regina á sléttunum eru hitastig sömu mánaða –18°C og +19°C.  Daglegar hitafarsbreytingar eru minni við ströndina en inni í landi.  Hæsti skráður hiti mældist 46°C í Gleichen í Suður-Alberta.

Rakir loftmassar frá Kyrrahafinu og fjalllendið við ströndina valda gríðarlegri úrkomu.  Víða meðfram ströndum Brezku Kólumbíu er meðalúrkoman yfir 2500 mm.  Minna rignir á sumrin vegna þess, að ferill lægða liggur norðar og nær sjaldan til suðurhlutans.  Meðalársúrkoma í Vancouver er 1033 mm.

Á innsléttunum, heimskautssvæðunum og í jaðri þeirra er meðalúrkoman óvíða meiri en 480 mm og fer alveg niður í 50 mm í Eureka á Ellesmereeyju.  Fjöllin á vesturströndinni þurrka loftið, sem streymir yfir þau og vestanvindar eru ríkjandi.  Þar er úrkoman meiri vor og sumur en á veturna.

Í Ontaríó og Quebec rignir Meira en á innsléttunum vegna þess að loftmassarnir taka í sig raka frá vötnunum miklu, Hudsonflóa, Atlantshafi og Mexíkóflóa.  Meðalúrkoman í Toronto er 800 mm og í Montreal 1020 mm.  Veturnir eru ekki eins kaldir og á innsléttunum og loftið því rakara, þannig að vetrarsnjókoman er jöfn að vatnsmagni og sumarregnið.  Atlantshafshlutinn er vætusamari en miðhlutinn.  Lægðir valda mestum hluta úrkomunnar, sem er að meðaltali meiri en 120 mm og er nokkuð jöfn allt árið.  Lítið er um þrumuveður og Appalachianfjöllin eru of lág til að valda mikilli úrkomu.  Ríkjandi vestanáttin dregur verulega úr úrkomunni á austurströndinni, þannig að hún er minni þar en á vesturströndinni.

Snjókoman á veturna er öðruvísi en rigningin á sumrin.  Norðanlands og á innsléttunum snjóar lítið vegna kuldans og þurrs lofts.  Þar snjóar í smáskömmtum og snjórinn lemst saman í stöðugum vindinum.  Lítið snjóar á vestur- og austurströndunum vegna hitaáhrifa hafanna en snjóalög þykkna upp frá austurströndinni og ná hámarki í Klettafjöllunum (>600 mm) og við St. Lawrenceflóa.  Innar í landinu dregur aftur úr snjónum vegna þurrs lofts.  Frostrigningar er að vænta af og til á veturna alls staðar í landinu.

Gróður og dýralíf.  Flóra og fána landsins fer aðallega eftir jarðvegi, landslagi og loftslagi viðkomandi staða.  Náttúrufræðingar hafa skipt landinu í svæði innan framangreinds ramma en mörkin á milli þeirra eru óvíða glögg.  Lítið er eftir af náttúrulegri flóru á byggðum svæðum í suðurhluta landsins.

Á túndrum heimskautssvæðanna og ofan trjálínu í Vestur-Cordillerafjöllum þrífst svipaður gróður.  Á túndrunum eru vetur langir og strangir, sumrin stutt og úrkoma lítil.  Þar er lítill eða enginn jarðvegur og fábreytt gróðursamfélög, lítil og afarviðkvæm fyrir aðsteðjandi áhrifum.  Tjón á einum fárra þátta flórunnar og fánunnar getur valdið ofyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir aðra þætti.  Sífrerinn er viðkvæmur fyrir þungaumferð og olíumengun og slys hafa áhrif á afkomu inúíta, sem fiska og veiða á svæðunum.  Túndruflóran er nokkuð fjölbreytt miðað við aðstæður.  Grýttar eyðimerkur eru víðast gróðursnauðar en mosar og fléttur finna sér samt víða hæli, einkum kringum stóra kletta og stórgrýti og víða vaxa harðgerðar plöntur í sprungum og þar sem skjól og raka er að finna.  Fléttum vaxnar túndrur er einkum að finna á svæðum, sem eru þurrari og hafa betra afrennsli en sumar slétturnar.  Ýmsar tegundir mosa þrífast víða og sumar eru svo ríkjandi, að heilu svæðin virðast vera snævi þakin eftir að snjóa hefur leyst.  Víða vaxa dvergrunnar, sums staðir berjarunnar, í mosa- og fléttubreiðunum.

Einkennisdýr túndranna eru heimskautsrefur og ísbjörn, sem nærist aðallega á sel, sauðnaut, hreindýr og læmingi, sem þrífst á gróðri túndrunnar.  Heimskautsúlfurinn og hvíti refurinn éta síðan læmingjana.  Fáar fuglategundir eru heilsársíbúar, aðeins snæuglan og rjúpan.  Fjöldi farfugla á sér varplendur á túndrunum, þ.m.t. snjógæs og kanadagæs.

Skóglendi eru mörg og stór í Kanada.  Nyrzt eru barrtré, sem mynda næststærsta, órofna skóglendi jarðar af þeirri gerð.  Sambærilegt skóglendi í Rússlandi er stærra.  Fjöldi trjátegunda er takmarkaður vegna skamms vaxtartíma á hverju ári.  Meðal algengustu tegundanna eru svartgreni og björk.  Víðast á þessum slóðum eru skógarnir ill- eða óaðgengilegir til nýtingar, þannig að lítið er tekið til borðviðar og trjádeigsframleiðslu.

Norðan barrtrjáabeltisins er ýmiss konar blandgróður þar til túndrutegundirnar taka við.  Þar eru trén smávaxin og lítt fallin til arðbærrar nýtingar.  Þetta millisvæði er líka bundið í sífrera og náttúra þess afarviðkvæm fyrir raski.

Sunnan barrskógabeltisins eru tvö millibelti.  Á innsléttunum blandast asparskógur (m.a. blæösp) og graslendi.  Ýmsar tegundir aspa vaxa þar í lægðum og dalverpum, þar sem stytzt er í vatn.  Austan landamæra Manitoba og Ontaríó er blandskógarbelti (barr- og lauftré), sem teygist inn á láglendi vantanna miklu og St. Lawrence og til Appalachiafjalla.  Þar vaxa m.a. furutré, sedrusviður og þöll.  Meðal lauftrjánna eru hlynur, beyki, eik og eski.

Leifar stóru laufskóganna í Kanada er enn þá að finna syðst í landinu, á suðvestanverðum Ontaríóskaganum.  Þessi skógur er framhald laufskóganna í Karólínufylki í BNA og þar vaxa nokkrar tegundir, sem þrífast venjulega mun sunnar, s.s. túlípanatré (af magnóliuætt), mórberjatré, svört og hvít eik og nokkrar tegundir af hikkorítrjám (af valhnetuætt).

Í Cordillerafjöllunum er tegundasamfélagið allflókið vegna hæðarmunar.  Frá efstu trjálínu niður að u.þ.b. 1200 m hæð yfir sjó er mikið af engelmanngreni og hvítgreni.  Engelmanngrenið vex hærra uppi í Selkirk-, Purcell- og Monasheefjöllum og blandast rauðum sedrusviði og þöll neðar í hlíðunum.  Í þurrlendum hlíðum er douglasfura algeng.  Víðast á opnum sléttum milli fjallanna er að finna aspartegundir og gulfuru. 

Skógarnir á Kyrrahafsströndinni, þar sem brattar hlíðar taka við úrkomusömum vestanvindunum, eru hæstir og arðbærastir.  Þar er nægur raki og nógu langur vaxtartími á sumrin fyrir sígræna skóga, sem gefa af sér þéttan og góðan kjörvið til bygginga.  Þar vex mikið af furu, þöll, sedrusviði og hlyni. 

Skógarjarðvegur í Kanada er súr og leysir upp talsvert af steintegundum, sem gera skógarbotninn illa fallinn til landbúnaðar.  Sýrustigið er hæst í barrskógum en minna í bland- og laufskógum, þar sem hægt er að beita hagnýtum aðferðum til að gera jarðveginn arðbæran fyrir landbúnað.

Dýralífið samsvarar nokkurn veginn þessum mismunandi skógarbeltum.  Á jaðri heimskautssvæða eru skógarhreinar algengir og innan þeirra lifa flestar tegundir, sem kenndar eru við Kanada, s.s. bjór, gaupa, svartbjörn, þrúguhéri og fjöldi fuglategunda (skjór, Hrafn, kráka o.fl.).  Á sumrin úir og grúir af söngfuglum og öðrum farfuglum.  Sunnar er hvítgumpsdádýrið algengt í skógarjöðrum og rjóðrum.  Meðal minni spendýra eru íkornar, minkar, þvottabirnir, moskusrottur, þefdýr, kanínur og fjöldi músa- og moldvörputegunda.  Í Suður-Ontaríó var villikalkúninum útrýmt en var komið þar fyrir aftur á níunda áratugnum með bærilegum árangri.  Í Vestur-Cordillerafjöllum er fjöldi tegunda, s.s. klettafjallaféð, fjallageitur, smáelgir, múldádýr og svartbirnir.

Suðurhluti innsléttnanna er of þurr fyrir skóga og þar þrífst gras og annar sléttugróður.  Þar er talsvert af runnagróðri og kaktustegundum syðst.  Norðar, þar sem er meiri úrkoma, er grasið hávaxnara.  Nyrzt blandast graslendið æ fleiri trjátegundum, þar til skóglendið tekur við.  Mikið hefur gengið á hinar náttúrulegu grassléttur vegna ræktunar, því að jarðvegurinn er lífrænn og óvíða frjósamari í landinu.  Bezti jarðvegurinn er dökkbrúnn og leirkenndur og þar sem hann er að finna hefur verið lögð mest áherzla á hveitirækt.  Þar sem frjósemi er minni, er jarðvegurinn súrari og slík svæði henta betur til beitar.  Uppblástur er mikið vandamál á svæðum, þar sem menn hafa lagt hönd á plóg.

Meðal algengra dýrategunda á steppunum eru jarðíkornar og pokaíkornar, sem valda verulegu uppskerutjóni.  Stofnar þeirra standast rándýrin, greifingja, hauka og uglur, sem lifa á þeim, og tilraunir bænda til að fækka þeim.  Fyrstu landnemarnir á sléttunum sáu gríðarstórar hjarðir vísunda en snemma á 20. öldinni hafði veiðimönnum næstum tekizt að útrýma þeim.  Vísundar sjást núna eingöngu á friðuðum svæðum.  Eftir að þeir hurfu af sléttunum, eru múldádýr og hvasshyrndar anílópur ríkjandi.  Framræsing og langvarandi þurrkar hafa hrakið vatnafuglategundir brott eða dregið mjög úr fjölda þeirra.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM