Umhverfis
Kanadaflekann eru stór láglendissvæði á setlögum,
s.s. heimskautssvæðið í norðri, vötnin miklu og St. Lawrenceláglendið
í suðri og suðaustri og vesturslétturnar.
Stærstu slétturnar teygjast frá Íshafinu suður að landamærunum
BNA og frá vesturbrún Kanandaflekans að undirhlíðum Klettafjalla.
Meðfram mótum flekans og sléttnanna er fjöldi stöðuvatna,
s.s. Great Bear, Great Slave og Winnipegvatn, sem eru öll stærri en
Ontaríóvatn. Manitobaláglendið
er í suðausturhlutanum, víðast lægra en 330 m yfir sjó.
Það hvílir á vatnaseti hins stóra Agassizvatns, sem var til
á ísöld, og er flatlendasti hluti innsléttnanna.
Þar eru stöðuvötnin Manitoba, Winnipegosis og Winnipeg. Frjósamur suðurhluti þessa svæðis, Rauðárdalurinn, er
þakinn svörtum leir og setjarðvegi.
Vestan
Manitobaláglendisins hækkar landið í tveimur þrepum upp á
Saskatchewansléttuna (280-680m) og Albertasléttuna (>750m).
Þessar sléttur eru hæðóttar (jökulöldur) og þaktar
framburði ísaldarjöklanna á nokkurn veginn sléttu bergi.
Þar eru líka vatnsfylltir katlar og flatbotna dalir, sem jökulsárnar
grófu og eru nú farvegir fljóta eins og Assiniboine, Sascachewan og
Qu’Appelle. Báðar þessar
sléttur eru þaktar smávötnum og tjörnum.
Kýprushæðirnar í Saskatchewan og Alberta rísa upp í 1460 m
hæð yfir sléttuna og eru því hæsti hluti landsins milli
Klettafjalla og Labrador.
Mackenzieláglendið,
þakið mýrum og ótræðiðsflóum, nær frá Albertasléttunni að Íshafinu
og myndar vatnasvið Mackenzieárinnar.
Vötnin
miklu og St. Lawrenceláglendið. Þetta
svæði nær yfir suðurskaga Ontaríó, að Huron-, Erie- og Ontaríóvatni
og jarðri Kanadaflekans. Það
teygist meðfram St. Lawrendeánni alla leið að Atlantshafinu.
Þótt svæðið sé tiltölulega lítið miðað við önnur mun
stærri, er það mikilvægt fyrir landbúnað, þróaðan iðnað og mörg
þéttbýlissvæði.
Jökullinn
hefur mótað hæðótt landslagið við vötnin miklu og St. Lawrence
og skilið eftir merki sín þar, s.s. forna vatnsbotna, setsléttur, öldur,
grjóthryggi, hvalbök og risaárfarvegi, suma fyllta seti og hryggjum
(esker). Niagarajaðarinn
í Suðvestur-Ontaríó er greinilegustu ummerkin um grunnbergið, sem
teygjast frá fossunum að Bruceskaga vestan Georgianflóa og áfram út
á Manitoulineyju. Hluti af Kanadaflekanum, Frontenac-öxullinn, rýfur láglendið
í Suðaustur-Oontaríó og myndar Þúsundeyjar handan St. Lawrenceárinnar.
Norðaustan
öxulsins teygist láglendið inn í Ottawa- og St. Lawrencedalina u.þ.b.
116 km frá Quebecborg. Á
síðustu ísöld lá þetta svæði undir sjó, Champlainhafi, sem hörfaði
og skildi eftir mjög flatt sléttlendi með Monteregianhæðunum sjö
í grennd við Montreal. Vestust
hæðanna er Mont-Royal, u.þ.b. 250 m há. |