Inúítar Eskimóar Kanada Grænland,
Flag of Greenland

Flag of Canada

Flag of Russia

Flag of United States


KANADA
ESKIMÓAR / INÚÍTAR
.

.

Utanríkisrnt.

Inúítar, ásamt náskyldum aleutum, er þjóðflokkur, sem býr aðallega á heimskautssvæðum Grænlands, Alaska, Kanada og norðaustustu svæðum Síberíu.  Frekari skipting hinna mismunandi hópa þeirra fer eftir tungumálinu og mállýzkum þess, s.s. inúítar, Yupik og alutiit.  Allt frá 16. öld hafa Evrópumenn og aðrir kallað þetta fólk eskimóa, en þetta nafn á uppruna í montagnais, sem er algonquantunga.  Fyrrum var álitið að nafnið þýddi „sá, sem borðar hrátt kjöt”, sem er nú talið rangtúlkun.  Merking nafnsins er ekki enn þá ljós, en talið að það eigi skylt við snjóþrúgur.  Heimskautsbúar Grænlands og Kanada kjósa að láta nefna sig inúíta en í Alaska eskimóa.

Elzta þekkta menning inúíta, sem er kennd við aleuta, er í kringum 3000 ára.  Á síðari hluta 20. aldar var fjöldi eskimóa u.þ.b. 117.000, 51.000 á Grænlandi og í Danmörku, 43.000 í Alaska, 21.000 í Kanada og 1600 í Síberíu.

Eskimóar eru af asískum stofni og um margt ólíkir amerísku indíánunum.  Þeir eru asískari í útliti, með smærri hendur og fætur og bera önnur óljósari einkenni.  Einnig er B-blóðflokkurinn áberandi meðal eskimóa en finnst ekki í indíánunum.  Blóðflokkar eru mjög stöðugir miðað við arfgengi og því skjóta þeir stoðum undir kenningar um mismunandi uppruna indíána og eskimóa, þvert á kenningar fræðimanna fyrri tíma, sem töldu þá af sama stofni og þeir hefðu þróast í mismunandi áttir á norðurslóðum.  Tungumál eskimóa og aleuta skiptist í fjölda mállýzkna, líklega vegna þess, hve dreift þeir búa.

Hin hefðbundna menning eskimóa byggðist á líffskilyrðunum á þessum miskunnarlausu svæðum norðurhjarans, þar sem fæða úr jurtaríkinu fyrirfinnst varla og trjágróður sjaldgæfur.  Þar er aftur á móti gnægð næringar úr dýraríkinu, s.s. hreindýr, selir, rostungar, hvalir, snjóhérar, sauðnaut og hvítabirnir.  Eskimóarnir notuðu skutla til að veiða seli, bæði í gegnum vakir og með kajökum.  Til hvalveiða notuðu þeir stærri báta, sem eru kallaðir umiakar.  Í Kanada veiddu þeir aðallega hreindýr og önnur landdýr á sumrin með bogum og örvum.  Helzta samgöngutæki þeirra var hundasleðinn og fatnaðurinn var gerður úr húðum hreindýra, sem veittu góða vörn gegn gífurlegum kuldanum.  Þeir bjuggu aðallega í snjóhúsum, iglu, eða húsum úr grjóti, torfi og viði eða hvalbeini á veturna.  Á sumrin bjuggu margir þeirra í skinntjöldum.  Kjarni þjóðfélags þeirra var fjölskyldan og þeir voru andatrúar.

Lífshættir eskimóa breyttust mjög á 20. öldinni vegna aukinna tengsla við hina svonefndu siðmenningu.  Víðast hafa vélknúin ökutæki, aðallega snjósleðar, tekið við hlutverki hundasleðanna og rifflar komið í stað skutlanna við veiðar.  Nú knýja utanborðsmótorar bátana áfram og fatnaðurinn er keyptur í verzlunum.  Breytingar eru vissulega víðtækari en þessi lýsing gefur til kynna og peningar voru óþekktir meðal eskimóa fyrrum.  Margir þeirra hafa hætt hirðingja- og veiðilífi og flutzt til borga og bæja til að stunda fiskveiðar og vinnslu, vinna í námum og við olíuvinnslu.  Víða í Kanada hafa þeir stofnað samvinnufélög um viðskipti með listmuni sína, fisk og fyrirtæki í ferðaþjónustu.

Eskimóa-aleutmálin eru töluð í Grænlandi, Alaska og Austur-Síberíu.  Aleut er ein greinin, sem lifir í tveimur mállýzkum.  Eskimóamálið skiptist í yupik, sem er talað í Síberíu og Suðvestur-Alaska, og inúít, sem er talað í Norður-Alaska, Kanada og Grænlandi.  Hver þessara greina skiptist í nokkrar mállýzkur.  Eskimóa- og aleutmálin eru skyld og verulega aðgreind.  Þau eiga engin skyld mál, sem vitað er um.  Aleutmálið er mjög víkjandi og orðið fátítt.  Það er einungis talað á Aleuteyjum og á Pribilofeyjum í Beringhafi, þar sem aleutar settust að í kringum 1800.

Hljóðkerfi þessarar málafjölskyldu er tiltölulega einfalt.  Yupik hefur fjögur greinileg sérhljóð en inúít og aleut aðeins þrjú.  Samhljóð eru 13 – 27, allt eftir mállýzkum.  Beygingakerfi eskimómálsins er flókið, fjöldi viðskeyta er mikill en forskeyti er aðeins eitt og engin samsett orð.  Orðmyndir aleut eru einfaldari en orðskipunin fjölbreyttari.  Viðskeytunum fylgja oft breytingar í stofni orðanna, sem þau tengjast.  Fjöldi ávarpsorða er áberandi, allt að 30, í vesturmállýzkum aleuta og eskimóa.  Möguleikar til myndunar afleiðsluorða er ótæmandi og fjöldi orðstofna er tiltölulega lítill.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM