Kalemegdan kastalinn
hefur lengi verið öxull sögu borgarinnar.
Hann stendur á hæðinni í tungunni milli fljótanna tveggja Sövu
og Dónár. Það er upplagt að hefja skoðunarferð í borginni þar og
í samnefndum garði, því að þar endurspeglast þróun borgarinnar
einna bezt. Nafn kastalans
er komið úr tyrknesku, kale = borg og megdan = svæði.
Minjar um rómverska virkið Singidunum eru litlar og koma fram
í múrarústum. Það sem
ber fyrir augu gesta eru mannvirki frá 18. öld, sem
Austurríkismenn reistu ofan á eldri múrum. Því
er talað um efri og neðri kastala.
Mörg hlið opna leið
inn í Efri-Kastalann. Þar
tekur við breið gryfja með fallbyssum og öðrum vopnum, brynreiðum
og farartækjum úr báðum heimsstyrjöldunum.
Þar er líka fallbyssubátur, sem þjóðfreslisliðarnir notuðu
á Dóná. Átthyrndur
klukkuturn (Sahat kula; 18. öld) gnæfir yfir gryfjunni.
Bezta útsýnið yfir Sövu og Dóná fæst frá pallinum fyrir
framan skrifstofu þjóðarminnismerkja landsins.
Þar er súla (13m) með bronzpalli, sem myndhöggvarinn Ivan Meštrovic
gerði 1928 til minningar um sigur Pobednik hershöfðingja á víglínunni
við Saloniki tíu árum áður.
Stjörnuathugunarstöðin
er í 15. aldar turni. Framar
eru tveir sterkbyggðir, sívalir turnar, hengibrú og fyrrum fangelsi.
Á leiðinni niður í Neðri-Kastalann er Ruzikakirkjan með
veggmyndum af guðsmóður og serbískum konungum og Petrakirkjan.
Tyrkir notuðu neðra virkið til varnar gegn árásum frá ánum
eftir 1521. Þessi hluti
virkisins var endanlega lagður í rust í síðari heimsstyrjöldinni. Prins Eugenhliðið, sem var reist árið 1719, tveimur arum
eftir að hann sigraði Tyrki, stendur enn þá á engi til minningar um
sigurinn. Nebojšaturninn,
sem var byggður á 15. öld stendur við hliðina á því.
Hann var oft notaður til að pyndinga og sem dýflissa.
Á milli virkisins og
borgarinnar er lystigarður með fjölda brjóstmynda skálda og lærðra
manna. Við aðalstíginn
stendur þakkarminnismerki um bræðralag við Frakka í fyrri
heimsstyrjöldinni. Dónármegin
er listalaufskáliinn Cvijeta Zuzoric, þar sem málarar og myndhöggvarar
halda sýningar. Dýragarður
borgarinnar er í neðri hluta garðsins.
Dómkirkja rétttrúaðra
(1837-45) með háum barokturni er á horni 7. júlígötu.
Kaffistaðurinn Spurningarmerkið, einhver frumlegasti
veitingastaður Belgrad, sem var stofnaður á meðan á byggingu dómkirkjunnar,
er andspænis kirkjunni. Þá
var staðurinn kallaður Kaffihúsið við hliðina á kirkjunni.
Prestunum líkaði ekki að svona veraldlegur staður væri
kenndur við kirkjuna, en vertinn þjóskaðist við að velja staðnum
nýtt nafn og endaði með því að kalla hann spurningarmerkið.
Höll Ljubica furstynju
er listafalleg bygging í grennd við dómkirkjuna.
Forhlið hennar ver gerð upp árið 1978.
Þetta er hrein balkanbygging frá árunum 1829-31 og þar bjó
Miloš fursti og fjölskylda hans á 19. öld.
Safn hinnar serbísku rétttrúnaðarkirkju er þarna á einu
horninu. Það er í
athyglisverðri byggingu, sem hýsir ýmsa muni kirkna og klaustra.
Knez Mihajlova, göngugatan, er aðalverzlunargata borgarinnar.
Um miðbik hennar er sýningarsalur Serbnesku vísinda- og
listaakademíanna. Við
enda hennar opnast breiðgatan Boulevard Terazije.
Í fyrstu undirgöngunum undir hana er upplýsingamiðstöð ferðamanna.
Þetta svæði var mýri og flæðiland fram á fyrri hluta 19.
aldar, en núna er þar fallegt breiðstræti með fallegum, nútímahúsum,
þ.á.m. háhýsið Albanija, hótelin Moskva, Balkan og Kasina auk gömlu-
og nýju hallarinnar, sem voru aðsetur konunga.
Nú er þar ráðhús borgarinnar og þinghús Serbíu.
Byltingarsafnið er á
jarðhæð gamals háhýsis við hliðina á byggingu flokksblaðsins
Borba við Marx-Engelstorg. Á efri hæðum safnhússins bjuggi meðlimir miðstjórnar
kommúnistaflokksins frá 1948 til 1965.
Þinghús Júgóslavíu
(Skupština) frá 1932 er stór kúpulbygging.
Framan við það er bronzverkið „Dans svörtu hestanna” frá
1939. Skammt þaðan er
Markúsarkirkjan (1932-42), eftirmynd klausturkirkjunnar í Gracanica og
á bak við hana er rússneska rétttrúnaðarkirkjan Sv. Trojice, sem rússneski
hershöfðinginn P.N. von Wrangell lét byggja.
Hús Synfóníuhljómsveitar Belgrad er skammt frá Háskólanum
og lítið eitt lengra er Lýðveldistorgið (Trg Republike).
Þar er riddarastytta Michael Obrenovic fursta eftir Enrico Pazzi
(1862). Furstinn, sem barðist
fyrir frelsun Serbíu undan oki Tyrkja, bendir í áttina til svæðis,
sem var þá undir stjórn Tyrkja.
Þjóðleikhúsið
(1868) er vinstamegin torgsins. Innréttingar
þess og sviðstækni eru að hætti Vínar.
Leikhúsið hefur verið gert upp þrisvar síðan það var
byggt, síðast árið 1965. Húsið
þjónar sem leik-, ballet- og óperuhús. **Þjóðminjasafnið er við norðanvert torgið,
Þar fæst næstum óslitið yfirlit yfir sögu menningar og
listar lýðveldisins allt frá forsögulegum tíma og í listaverkasölum
hanga verk eftir meistara eins og Tintoretto, Rubens, Claude Monet, Paul
Gauguin og Picasso.
Gröf Mústafa sjeiks
(1783) er við enda Stúdentatorgs (Studentski trg).
Það er eitt fárra merkja um veru múslima í borginni.
Gyðingasögusafnið er við 7. júlígötu, þar sem var fyrrum
gyðingahverfi og eitt hið elzta í borginni.
Safnið stofnuðu hinir fáu gyðingar, sem lifðu síðari
heimsstyrjöldina af.
Bajrakmoskan (1690) við
Gospodar-Jevremgötu (Fánamoskan) er eina eftirstandandi moskan af 100,
sem voru í borginni á tyrkneskum tímum.
Fánamerki voru gefin frá mínarettu hennar til hinna moskanna
um bænastundir. Á árunum
1717-1739, þegar Austurríkismenn réðu ríkjum, var hún kristin
kirkja.
*Freskulistasafn Þjónminjasafnsins
er við Ulica Cara Urošagötu nr. 20.
Þar eru saman komnar eftirmyndir af mikilvægustu miðaldamálverkum
klaustra og kirkna Serbíu, Makedóníu, Svartfjallalands og Bosníu-Herzegowínu.
Serbíska
leiklistarsafnið er við enda Gospodar-Jevremgötu.
Þar er rakin saga leiklistar frá upphafi til okkar daga með málverkum,
brjóstmyndum, auglýsingaspjöldum, sviðsetningum, búningum, aðgöngumiðum
og ljósmyndum. Vuk og
Dositejsafnið (1808) er í gömlu skólahúsi þarna rétt hjá.
Novi Beograd er handa
árinnar Sava. Þar eru
nokkrar áberandi byggingar og lystigarðar, sem vert er að gefa gaum.
Ráðstefnumiðstöðin (Sava Centar) státar af 12 stórum ráðstefnusölum
auk fleiri minni, blaðamannamiðstöð, pósthúsi, banka og verzlunum,
stóru veitingahúsi auk skyndibitastaða. Allt að 5000 manns geta tekið
þátt í ráðstefnum í þessari stóru höll.
*Samtíðarlistasafnið
(1960-65) er falleg bygging. Þar
eru rúmlega 3000 verk eftir júgólsavíska listamenn 20. aldar,
teikningar, höggmyndir, málverk o.fl.
Safnið er notað til kennslu á víðu sviði tengdu nýlist.
Vináttugarðurinn (25 ha) er við hliðina á safninu.
Hús fyrrum miðstjórnar ríkjasambandsins (24 hæða) er áberandi
frá safninu. Skammt frá
því er bygging (1961) Framkvæmdanefndar ríkisins.
Norðar er Stúdentahverfið.
Nágrenni Belgrad
Zemun var útvörður
Austurríkis. Á hæð í bænum eru rústir virkis frá 9. öld og
mannvirkis frá 15. öld með turni í miðju (1869).
Í bænum er fjöldi gamalla húsa og skoðunarverðra kirkna, þ.á.m.
Nikolajkirkjan, sem er að hluta til frá 745.
Topcidergarðurinn er
vinsæll útivistarstaður Belgradbúa.
Hann er í dalverpi með samnefndum læk og höll Miloš fursta,
Konak (blanda balkanskrar- og miðevrópskrar byggingarlistar; 1834).
Þar er nú serbískt safn.
Þarna er líka miðstöð ungra frumherja, íþróttamiðstöð,
golfklúbbur og tjaldstæðið Košutnjak uppi á hæðinni.
*Avalafjall (511m) er
vinsæll áfangastaður í þriggja tíma skoðunarferðum frá Belgrad
(daglega 5. maí-30. sept.).
Fjöldi annarra skoðunarferða er í boði, m.a. skíðabátaferð
á Dóná að Járnhliðinu. |