Amman,
höfuðborg konungsdæmisins Jórdaníu, heitir Rabbah eða Rabbat Bene
‘ammon (Hin mikla borg sona Ammons).
Hún hét Filadelfía á egypzkum tíma.
Hún er langstærsta borg landsins og hin eina, sem er með nútímayfirbragði.
Borgin stendur í hæðóttu landslagi við ‘Ajlun-fjöll við
árfarveg Wadi ‘Amman og þverár hennar, sem flytja að hluta vatn
allt árið. Rétt norðan
árinnar er þríhyrningslöguð slétta, þar sem aðalbyggðin hefur
alltaf verið (Al-Qal-ah). Þar
hafa verið víggirt þorp frá fornöld (4000-3000 f.Kr.).
Síðar varð borgin að höfuðborg Ammoníta (semískur ættflokkur,
sem víða er getið í biblíunni).
Jóab (Samúel II, 12:26), hershöfðingi Davíðs konungs, náði
borginni á sitt vald, þegar hún náði líklega aðeins yfir sléttuna.
Davíð konungur sendi hittítann Úría í dauðann í bardaga
við borgarmúrana til að hann gæti gifzt eiginkonu hans, Batsebu
(Samuel II, 11). Þessi
atburður er líka hluti af þjóðsagnahefð múslima.
Þegar
tímar liðu, hnignaði Rabbah. Tólómeus
II, konungur Egyptalands réði borginni á árunum 285-246 f.Kr. og
kallaði hana Fíladelfíu. Þetta
nafn hélzt á rómverskum og býzantískum tímum.
Fíladelfía var „dekapolis” (höfuðborg 10 borga) á
hellenskum tíma frá 1. öld f.Kr. til 2. aldar e.Kr.
Rómverjar endurbyggður borgina og enn þá standa merki um veru
þeirra. Á uppgangstímum
islam tók arabíski hershöfðinginn Yazid ibn Abi Sufyan borgina
(635). Í kringum 1300 var hún gjörsamlega horfin, sagnfræðingum
til mikillar undrunar. Árið
1878 byggðu Ottómanatyrkir borgina flóttamönnum (kirkassíum) frá Rússlandi.
Þarna var bara lítið þorp fram yfir fyrri heimsstyrjöldina.
Eftir
stríðið varð Transjórdanía hluti yfirráðasvæðis Palestínu en
brezka stjórnin stjórnaði þessu svæði frá Vestur-Palestínu frá
1921. Hún stofnaði
konungsríkið Transjórdaníu undir yfirráðum Abdullah, sonar Husayn
ibn ‘Ali, konungs Hejaz og borgarstjóra Mekka.
Amman varð fljótlega höfuðborg hins nýja ríkis.
Nútímaþróun borgarinnar hófst á þessum tíma og jókst til
allra muna eftir að landið fékk sjálfstæði 1946 og nafnið Jórdanía.
Borgin stækkaði hratt og mikill fjöldi flóttamanna frá
Palestínu settist þar að eftir stríðið við Ísrael 1948-49.
Flóttamannavandamálið varð mjög alvarlegt eftir sexdagastríðið
1967, þegar Jórdanía missti Vesturbakkann og önnur ítök vestan Jórdanárinnar.
Palestínskir hryðjuverkamenn hleyptu borgarastyrjöldinni af
stað 1970 á götum Amman. Borgin varð fyrir miklum skemmdum en jórdanska hernum tókst
að bæla byltinguna niður.
Amman
er aðalmiðstöð viðskipta og fjármála landsins.
Konungshallirnar eru austan við borgina og þinghúsið í
vesturhlutanum. Jórdaníuháskóli
var stofnaður 1962. Aðaliðnaður
borgarinnar byggist á framleiðslu matvæla og tóbaksvinnslu, vefnaðarvöru,
pappírsvinnslu, og framleiðslu plastvöru og áláhalda. Í úthverfunum
eru verskmiðjur, sem framleiða rafhlöður og sement.
Amman er aðalsamgöngumiðja landsins.
Tveir þjóðvegir liggja til vesturs til Jerúsalem og As-Salt
í norðvestri. Aðalvegurinn
frá norðri til suðurs liggur til hafnarborgarinnar Al-Aqabah.
Rétt austan Amman er millilandaflugvöllurinn í grennd við gömlu
Hejaz-járnbrautina. Meðal
áhugaverðra staða eru rústir gamla kastalans og fornleifasafnið við
hann og velvarðveitt, rómversk hringleikahús.
Áætlaður íbúafjöldi borgarinnar árið 1989 var tæplega 1
milljón. |