San’a’
(Sanaa eða Sana) er höfuðborg Jemen við vesturhlíðar Nugum-fjalls
í rúmlega 2200 m hæð yfir sjó.
Hún hefur löngum verið aðalmiðstöð efnahags, stjórnmála
og trúarbragða Hálanda Jemens.
Nafn borgarinnar þýðir „víggirtur staður”.
San’a’
er meðal elztu borga, sem hafa verið í samfelldri byggð í heiminum,
þótt ókunnugt sé um stofnun hennar.
Samkvæmt þjóðsögunni stofnaði einn sonur Nóa, Shem,
borgina.
Hún stendur á svæði, þar sem Ghumdan-virkið stóð á forsögulegum
tíma, líklega á 2. til 1. öld f.Kr.
San’a’ var miðstöð kristinna manna og gyðinga áður en
‘Ali, fjórði kalífinn, tengdasonur Múhammeðs, innleiddi islam.
Saga borgarinnar sem miðstöð múslima einkennist af samkeppni
milli hinna rangtrúuðu Zaydi leiðtoga (imams) og keppinauta annarra
fjölskyldna.
Konungsríki Zaydi með höfuðborgina Sa’dah í norðri stóð
yfir með mörgum hléum frá 9. öld til 1962.
Á 12.-15. öld dró mjög úr velsæld borgarinnar, þegar hver
sigurvegarinn á fætur öðrum gerði aðrar borgir að höfuðborg
sinni.
Á valdaárum ‘Abd al-Wahhab ibn Tahir af Tahirid-ættinni
snemma á 16. öld var borgin prýdd mörgum fögrum moskum og islömskum
skólum (madaris).
San’a’
var undir stjórn Ottómana frá miðri 16. öld í orði kveðnu en þar
réðu í rauninni imamar frá því snemma á 17. öld til 1872, þegar
Ottómönum tókst að ná borginni á sitt vald og halda henni.
Átök milli imamana og Ottómananna héldu áfram til 1911, þegar
hinir fyrrnefndu fengu full yfirráð með samningi.
San’a’ varð höfuðborg sjálfstæðs Jemens eftir ósigur
Ottómana í fyrri heimsstyrjöldinni.
Í valdatíð imamsins Ahmads (1948-62) var Ta’izz gerð að höfuðborg
en San’a’ fékk aftur hlutverkið eftir byltinguna 1962 og stofnun
Arabalýðveldisins Jemens.
Byltingin hrakti Zaydi imamann brott og olli pólitískum og
menningarlegum breytingum í borginni en leiddi jafnframt til
borgarastyrjaldar, sem stóð í 8 ár.
Árið 1990 varð San’a’ að höfuðborg hins sameinaða ríkis
eftir að Arabalýðveldið Jemen (Norður-Jemen) og Alþýðulýðveldið
Jemen (Aden; Suður-Jemen) sameinuðust.
Mikill
borgarmúr, 6-9 m hár með fjölda hliða, umlykur gömlu borgina.
Byggingarfræðilega séð er Jemenhliðið (Bab al-Yaman), líka
kallað Frelsishliðið eftir byltinguna 1962, athyglisverðast.
Í gömlu San’a’ eru 106 moskur, 12 baðhús (hammams) og
6500 hús, sem voru öll byggð fyrir 11. öld.
Margra hæða háhýsi úr dökku blágrýti og múrsteini eru
skreytt flóknum múrbrúnum og fagurlega útskornum gluggum.
Athyglisverðasta moskan er al-Jami’ al-Kabir (Mikla moskan).
Í henni heilagt skríni, sem Zaydi sýndu mesta lotningu.
Gömlu markaðarnir (sugs) byrja við Jemenhliðið og eru í röðum
norður fyrir Miklu moskuna.
Þetta svæði er kallað Sug al-Milh (Saltmarkaðurinn) en er í
rauninni fjöldi smámarkaða, sem selja alls konar vörur.
Norðvestan gömlu borgarinnar er fyrrum sumarhöll imamanna á
bröttum hamri fyrir ofan Wadi Dharr.
Í garðaúthverfinu Rawdah, beint norðan San’a’, er falleg
moska í márískum stíl.
Qa’ al-Yahud (gyðingahverfið) er víggirt hverfi í
vesturhluta borgarinnar.
Þar iðkuðu menn löngum gamlar iðngreinar, s.s. gull-,
silfur- og málmsmíði og útsaum.
Næstum allir gyðingar borgarinnar fluttust til Ísrael á árunum
1949-50 og skildu handiðnað borgarinnar eftir í rústum.
Einangrun
borgarinnar var rofin með opnun þjóðvegarins til hafnarinnar í
al-hudaydah í suðvestri árið 1961.
Kínverjar kostuðu gerð hans.
Annar góður þjóðvegur liggur til Ta’izz, sem er tengd gömlu
höfninni í Mocha (Al-Mukha), sem er lítið notu nú orðið.
Millilandaflugvöllur San’a’ er við ar-Raeabah í næsta nágrenni
borgarinnar.
San’a’
er héraðsverzlunarborg en nútímaiðnaður hefur haldið innreið sína
fyrir erlendar fjárfestingar og aðstoð.
Þar eru nú mikilvægar baðmullarverksmiðjur, sem kínverjar
byggðu 1966.
Margir íbúar borgarinnar eru embættismenn.
Fjöldi húsa og opinberra bygginga innan og utan borgar
skemmdust í borgarastyrjöldinni 1962-70.
San’a’-háskóli var stofnaður 1970.
Síðla
á 20. öld fjölgaði íbúum borgarinnar gífurlega úr 35.000 snemma
á sjöunda áratugnum í rúmlega 400.000 um miðjan níunda áratuginn.
Í Stór-San’a’ bjuggu næstum 1 milljón manna um miðjan tíunda
áratuginn.
Borgin hefur þanizt út í allar áttir og u.þ.b. 10% íbúanna
búa í gömlu borginni, sem var vanrækt þar til UNESCO og ríkisstjórn
landsins gripu til verndunarráðstafana og viðgerða.
Árið 1986 var múrgirta borgin komin á heimsminjalistann.
Áætlaður íbúafjöldi Stór-San’a’ árið 1995 var 972
þúsund. |