Jemen landið náttúran,
Flag of Yemen


JEMEN
LANDIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Landið skiptist í fimm aðalsvæði, strandsléttuna (Tihamah) í norðurhlutanum, vesturhálendið, miðhálendið, austurhálendið og austur- og norðaustureyðimerkurnar.

Strandsléttan er 8-64 km breið.  Lág fjöll rísa 300-1070 m milli lágra hæða sléttunnar og fjalllendisins mikla, sem rís hæst í An-Nabi Shu’ayb (rúmlega 3640m).  Til austnorðausturs er það bratt niður að austurhálendinu (760-1060m), sem hallar niður að sandhæðum Rub’ al-Khali.

Regluleg úrkoma á sumum svæðum skolast til vesturs að Rauðahafi í norðurhlutanum um fimm ár (wadis) og í suðurhlutanum til suðurs til Adenflóa um þrjár aðalár.  Hin stærsta þessara þriggja er Wadi Hadramawt.  Samnefndur Dalur hennar hefur verið rómaður frá fornöld fyrir frankareykelsistrén og þar hafa nokkur borgríki risið og fallið.  Allar þessar ár og þverár þeirra skera hálendið og fjalllendið mikla í fjölda dala.  Víða er vottur eldvirkni á síðustu öldum.  Stöðug jarðhitavirkni gefur til kynna að enn þá kraumar undir niðri.  Landið er á einu virkasta sprungusvæði á Rauðahafssvæðinu og jarðskjálftar hafa riðið yfir á síðustu tímum.  Í desember 1982 olli jarðskjálfti dauða 3000 manns á Dhamar-svæðinu og lagði nokkur þorp í rúst.

Staðvindaúrkoman (monsún), sem veldur veðruninni í vesturhlíðum fjalllendisins mikla, er líka ástæðan fyrir mestu þéttbýlismynduninni á þessu svæði.  Landsmenn búa í öllum hlutum landsins, sumum þéttbýlum og öðrum strjálbýlum, allt frá sjávarmáli upp í rúmlega 3000 m yfir sjó.  Þessi hæðar- og loftslagsmunur gerir það að verkum, að fjölbreytni í landbúnaði er mikil.  Á ströndinni eru helzt ræktaðir sítrusávextir, tóbak, maís, sesam, baðmull og aðrar hitaþolnar nytjaplöntur.  Um miðbik hálendisins er aðallega ræktað hveiti, hirsi, sakkaríngras, ávextir og grænmeti.  Ofar þrífast hinir frægu kaffirunnar (Arabískt kaffi) og fleiri sérstakar nytjaplöntur.  Sums staðar eru hlíðar fjallanna stöllóttar frá rótum til hæstu tinda.  Jarðvegurinn þarna, sem hefur myndast og safnast fyrir um aldir, er mjög frjósamur,  Þessi svæði eru mjög viðkvæm fyrir flóðum.  Vanræksla og blóðug átök innanlands hafa valdið því, að þessum svæðum hefur hrakað.

Loftslagið.  Mestur hluti landsins er á mörkum tveggja veðrakerfa, norðanvinda á veturna frá Miðjarðarhafi og suðvestan staðvindanna á sumrin.  Þessi blanda veldur nokkuð afmörkuðum árstíðum og mesta úrkoman er á sumrin.  Jaðarsvæðin syðst við Adenflóa eru hitabeltissvæði vegna áhrifa fjalllendisins mikla.  Í Al-Hudaydah og Aden fer hitinn oft yfir 38°C með háu rakastigi en í San’a’ í 2400 m hæð yfir sjó er meðalhitinn á dagin um og undir 21°C og rakastigið er lágt.  Efst uppi í norðurhlíðum fjalllendisins mikla er stundum frost og snjókoma á veturna.

Í Norður-Tihamah og á strandlengjunni við Adenflóa er meðalársúrkoman oftast minni en 133 mm og sum ár mælist engin úrkoma.  Úrkoman eykst er innar dregur í landið.  Neðri hlutar hálendisins fá 380-510 mm, suðurhálendið í kringum Ta’izz fær í kringum 750 mm.  Breytilegt veðurfar er einkennandi fyrir norður- og suðurhlutana.  Norðurhlutinn hefur venjulega tvö regntímabil (marz-maí og júlí-september).  Suðurhlutinn er stundum þurr allt árið, ella rignir lítillega á sumrin.  Löng tímabil þurrka koma við og við.  Stundum hefur tæpast komið dropi úr loft í fimm ár í röð líkt og gerðist á árum borgarastyrjaldarinnar (1962-70).

Flóran.  Tegundadreifing plantna fer að mestu eftir úrkomu og hæð yfir sjó.  Það er hægt að skipta landinu í þrjú gróðurbelti í grófum dráttum:  1) Strandsléttan, þar sem þurrlendisgróður ríkir (döðlupálmar, sítrustré, bananatré og baðmull;  eforbíakaktus, akasía, tamarisk og fleiri).  Gróðurinn í þurrum árdölum austureyðimerkurinnar er svipaður.  2) Miðhálendið með ýmiss konar ræktun nytjaplantna (melónur, hnetur, vínber, korn;  eforbíakaktus, tröllatré, mórberjatré, fíkjutré og karobtré).  3) Fjalllendið inni í landi, þar sem er ræktað kaffi, kvattré og margs konar runnar og önnur tré.  Skógar voru talsverðir í landinu fram á fyrstu ár 20. aldar en nú eru tæplega 6% landsins viði vaxin.  Aðalástæða eyðingar skóganna er fjölgun íbúanna.

Fánan hefur líka orðið fyrir barðinu á íbúafjölguninni.  Hún hefur bókstaflega hrunið.  Pardusdýr, storkar, antelópur (m.a. arabíska oryxantilópan), nashyrningar og stór kattardýr þrifust líklega fram að aldamótunum 1900.  Stærsta, villta spendýrið er nú gelada-babún og meðal hinna smærri eru hyena, refur og kanína.  Fjöldi tegunda fugla og skordýra er talsverður og margar þeirra eru ekki enn þá komnar á skrá.  Líklega er tegundafjöldi fiska og vatnadýra í Rauðahafinu og Adenflóa mestur.  Þar er m.a. að finna túnfisk, hákarl, sardínur, humar og smokkfisk.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM