Jemen efnahagslífið,
Flag of Yemen


JEMEN
EFNAHAGSLÍFIÐ

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Jemen er meðal vanþróuðustu landa heims, þrátt fyrir gífurlegar framfarir síðustu tvo áratugi 20. aldar, sem koma helzt fram í nýtingu og sölu olíu og náttúrulegs gas.  Flestir Jemenar eru enn á stigi sjálfsþurftarbúskapar.  Áætlað er, að 12-15% af landsvæði fyrrum Norður-Jemen sé nýtilegt til ræktunar en aðeins 1% af fyrrum Suður-Jemen.  Fyrri helming 20. aldar tókst imömum norðurhlutans að gera landið sjálfu sér nægt með matvæli.  Ástandið nú er gjörólíkt.  Ein aðalástæðan er mikill vinnukostnaður vegna þess, að flestir vinnufærir karlmenn hafa flutzt úr landi í vinnuleit.  Peningasendingar þeirra heim ollu verðbólgu, þannig að heimaframleidd matvæli urðu dýrari en innflutt, s.s. korn frá BNA og kjöt frá Ástralíu.

Náttúruauðæfi.  Olía og náttúrulegt gas, sem fannst í grennd við Shabwah í fyrrum Suður-Jemen 1983 og nærri Ma’rib í norðurhlutanum næsta ár, eru nú veigamesta tekjulind landsins.  Frekari rannsóknir og þróunarvinna eru í höndum bandarískra, kóreskra, japanskra og annarra erlendra fyrirtækja.  Olía er flutt frá Norður-Jemen um leiðslu að Rauðahafi og svipuð leiðsla liggur frá olíusvæðunum í suðurhlutanum til Aden.

Salt er unnið úr neðanjarðarnámum nærri Salif í Tihamah og opnum námum á Adensvæðinu í suðri.  Markaðurinn fyrir salt er lítill.  Enn þá hefur ekki verið kannað hvaða önnur auðæfi kunna að vera í jörðu í landinu.  Fyrrum dugðu kola- og járnbirgðir í jörðu til að anna markaðnum fyrir ýmsa gripi úr járni og stáli (sverð og hnífar).  Kolabirgðir, brennisteinn, blý, sink, nickel, silfur, gull og e.tv. fleiri góðmálmar kunna að leynast í jörðu.

Landbúnaður.  Við aðstæðurnar, sem erfitt landslag, takmarkaður jarðvegur, óstöðugar vatnsbirgðir og mismunandi loftslag skapa, hafa þróast mjög árangursríkar aðferðir við að treina vatn og val útsæðis, sem eiga sér engan líka í heiminum og gera ótrúlega fjölbreytta uppskeru kleifa.  Venjulegur jemenskur bóndi ræktar kvikfé af staðbundnum kynjum (geitur, sauðfé og nautgripi).  Vestræn ríki hafa stutt rannsóknarverkefni, sem hafa leitt til þess, að hentug kyn nautgripa til mjólkur- og kjötframleiðslu hafa orðið til fyrir hin tempraðri svæði í norðurhlutanum.

Algengasta uppskeran er korn (hirsi, maís, hveiti, bygg, fóðurgras (sorghum)) og  fjöldi grænmetistegunda.  Ræktun ávaxta er líka mikil (mango, græðisúra, bananar, melónur, papæja og sítrusávextir, perur, ferskjur, eppli og vínber).

Verðmætustu afurðirnar eru kaffi og kvat.  Kaffi hefur verið mikilvægasta og þekktasta útflutningsafurð landsins um aldir.  Bezta kaffið er enn þá nefnt eftir borginni Mocha, sem flutti mest út af kaffi a 16.-18. öld (áður en siðmenningin kom til Suður-Ameríku, Afríku og Suðaustur-Asíu).  Kaffirunninn þrífst bezt á miðhálendinu (1360-1970m) eins og kvat.  Kvat er sígrænn runni með laufi, sem inniheldur alkalíða og virkar örfandi, þegar það er tuggið.  Framleiðsla þess og neyzla er veigamíkill þáttur í menningu landsmanna.  Batnandi fjárhagur fjölda fólks gerir fleirum kleift að neyta þeirra en áður.  Ríkisstjórnin hefur haldið uppi einhverjum áróðri gegn þessari neyzlu.  Aukin neyzla hefur valdið því, að gamlar kaffiekrur eru oft notaðar til ræktunar kvats til að mæta eftirspurninni.  Víðast er kvat samt ræktað á nýbrotnu landi, svo að það bitnar lítið á annarri uppskeru.  Hluti kvatframleiðslunnar er fluttur til Eþíópíu og Kenja.

Síðustu tvo áratugi 20. aldar naut baðmullarrækt í Tihamah í norðurhlutanum og á strandsléttunni verulegs stuðnings ríkisstjórna landanna og var veruleg en tímabundin tekjulind.  Undanfarin ár hefur heimsmarkaðsverð verið lágt samtímis talsverðum kostnaði við þróunarvinnu, þannig að þessar afurðir hafa ekki verið samkeppnishæfar.

Fiskveiðar hafa eflzt og orðið ríkari þáttur í efnahagslífinu á síðari tímum.  Fjölbreytni arðbærra tegunda fisks og krabbadýra í Rauðahafi og Adenflóa er mikil.  Fyrrum var lítið framboð af sumum þessara tegunda á heimamarkaði.  Erlend þróunaraðstoð við fiskveiðar og vinnslu (aðallega frá fyrrum Sovétríkjunum) gerði þær að veigameiri tekjulind fyrir landið.

Iðnaður.  Hinn hefðbundni handiðnaður Jemena var rómaður fyrir gæði á árum áður (vefnaður, skartgripir (gull- og silfurvíravirki), leðurvara, teppi, glervörur, sverð og hnífar og margs konar skreygingar fyrir heimili og fyrirtæki).  Nútímafyrirtæki fóru ekki að skila arði í þjóðarbúið fyrr en á níunda áratugnum að baðmullarframleiðslunni og olíuiðnaðnum undandkildum.  Olíufyrirtækið BP (British Petroleum) byggði fyrstu olíuhreinsunarstöðina í Litlu-Aden á sjötta áratugnum (þjóðnýtt 1977).  Veruleg framþróun varð í baðmullargeiranum á síðustu valdaárum Ahmad ibn Yahya (1948-62) í Norður-Jemen.

Margra ára áætlanir ríkisstjórna beggja landanna fyrir sameininguna beindust að aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu, einkum iðnaði, sem drægi úr þörfinni á innflutningi.  Nokkuð af þessari uppbyggingu hefur orðið að burðarstoðum efnahagslífsins.  Olíu- og gasiðnaðurinn hefur verið atvinnuskapandi.

Fjármál.  Sameining hins kapitalíska efnahagskerfis Norður-Jemen og hins sósíalíska í Suður-Jemen var meðal erfiðra verkefna ríkisstjórna landanna á sínum tíma.  Síðustu tvo áratugi alþýðulýðveldisins þjóðnýtti stjórn landsins næstum allt land og húsnæði, iðnað og fyrirtæki, þannig að óvíða annars staðar var miðstýring meiri í heiminum.  Stjórnarfarið í Norður-Jemen var alger andstæða.  Þar önnuðust umboðsmenn milligöngu um peningasendingar frá farandverkamönnum erlendis og fjölskyldur þeirra fengu langmestan hluta peninganna.  Þannig fór þetta fé fram hjá bankakerfinu og ríkið fékk ekki tækifæri til að skattleggja þá.  Ríkissjóður var svo rýr árum saman, að Norður-Jemenar urðu að reiða sig á fjárhagsaðstoð frá öðrum löndum (Sádi-Arabíu) til að láta enda ná saman í ríkisbúskapnum.  Helztu fjármálastofnanir landsins eru tiltölulega ungar að árum.  Þróunabankinn var stofnaður 1962 og seðlabankinn, sem annast seðlaútgáfu, var ekki stofnaður fyrr en 1971.

Viðskipti.  Verzlun var fyrrum aðaltekjulind ríkjanna á suðvesturhorni Arabíuskagans.  Í fornöld var þar umskipunaraðstaða fyrir ýmsar vörur frá Suður-Asíu og Austur-Afríku (krydd, lúxusvörur o.fl.).  Þá seldu Jemenar mikið af reykelsi, myrru og indigo.  Þessi verzlun var gífurlega arðbær og gerði hinum fornu stórveldum kleift að byggja margar borgir, hof og minnismerki, sem eru enn þá sýnileg í Jemen nútímans.  Rómverjar voru fyrstir til að ógna einokunaraðstöðu Jemena á viðskiptasviðinu.  Á 16. öld fóru Portúgalar að blanda sér í viðskiptin á eigin kaupskipum.  Þeir sigldu fyrir Horn og gerðu Rauðahafssvæðið að verulegu leyti ónauðsynlegt sem millilið viðskipta við Evrópu.

Opnun Súesskurðarins 1869 hleypti lífi í umferðina um Rauðahafið milli Asíu og Evrópu, þannig að Bretar virðast hafa verið framsýnir, þegar þeir lögðu Aden undir sig 1839.  Höfn borgarinnar varð meðal aðalhafna heimsins.  Bretar höfðu lagt mikið til uppbyggingar hennar og höfðu herstöð í grenndinni (Khor Maksar).  Höfnin var nægilega djúp og stór til að rúma stærstu hafskip.  Allt fram til 1961 fóru 75% af utanríkisviðskiptum Jemena um höfnina í Aden.  Eftir byltinguna sýndi nýja ríkisstjórnin óánægju sína með Breta með því að beina út- og innflutningnum um höfnina í Al-Hudaydah, sem var byggð upp og nútímavædd fyrir sovézkt fé.  Þessi viðskipti voru ekki veruleg fyrr en efnahagur landsins fór að blómstra á áttunda áratugnum.  Útflutningur Jemena (kaffi, baðmullarvörur, húðir og skinn) á þessum árum var þó smávægilegur að verðmæti (1%) miðað við innflutning (matvæli, neyzluvörur, vélar, farartæki, efnavörur og olíuvörur) vörutegunda, sem einangrun landsins hafði haldið frá landinu.

Hin löngu, óákveðnu landamæri að Sádi-Arabíu og losaraleg tök á föstu landamærahlutunum gerðu smyglurum auðvelt um vik, þannig að ríkissjóður varð af miklum tollatekjum.  Viðskipti Jemen við nágrannaríkin eru mjög lítil.

Samgöngur.  Fram til 1960 voru engar nútímasamgöngur til í Jemen nema í Aden.  Á síðustu árum Imamans byggðu kínverjar, Bandaríkjamenn og Sovétmenn fyrstu varanlegu vegina í norðurhlutanum.  Þessir fyrstu vegir, einn milli Al-Hudaydah og San’a’ og annar milli Mocha (Al-Mukha) og San’a’, voru verkfræðiafrek.  Þeir styttu flutningstímann milli borganna úr dögum í klukkustundir og komu af stað mikilli umferð og viðskiptum innanlands.  Síðan hafa margir troðningar í í báðum landshlutum verið gerðir að vegum með slitlagi og kröfur um svipaðar umbætur hafa komið frá fjölda einangraðra þorpa.  Nú liggja varanlegir vegir milli allra aðalborga en enn þá eru þúsundir kílómetra af troðningum og slóðum, sem eru tæplega færir farartækjum með drifi á öllum hjólum.  Bæði í norður- og suðurhlutanum eru fyrrum höfuðborgir hinna aðskildu ríkja samgöngumiðstöðvar og ekki er hægt að komast til annarra borga öðru vísi en um þær.
Síðustu ár 20. aldar byrjaði uppbygging fremur góðs kerfis almenningssamgangna með rútum, strætisvögnum og leigubílum.  Risastórir flutningabílar eru notaðir til langflestra flutninga og þeir eru oft yfirhlaðnir, þannig að umferðarslys eru ótrúlega mörg.

Allur flutningur á sjó fer um hafnirnar í Aden og Al-Hudaydah.  Eins og segir hér að framan, varð Al-Hudaydah-höfnin æ mikilvægari eftir byltinguna (1962) og hún er oft yfirfull af skipum, þrátt fyrir góðan búnað til afgreiðslu þeirra.  Hin gríðarstóra og velútbúna höfn í Aden var tíðum vannýtt á tímum kommúnistastjórnarinnar.  Líklega mun hún taka við mestum hluta inn- og útflutningi landsins í framtíðinni, ekki sízt vegna góðs og síbatnandi vegasambands borgarinnar við aðra hluta landsins.  Eldri hafnarborgir, s.s. Mocha, hafa fyllzt af sandi smám saman og eru nú aðeins nýtilegar fyrir lítil skip og báta, smyglara og strandferðir.  Jemenskt skipafélag heldur uppi fraktflutningum til hafna við Rauðahafið og austurstrandar Afríku.

Fyrir sameiningu ríkjanna átti hvort fyrir sig millilandaflugfélög.  Þau voru sameinuð og nýja félagið annast flug til margra borga á Rauðahafssvæðinu, annarra arabaríkja og Evrópskra borga.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM