Aden Jemen,
Flag of Yemen


ADEN
JEMEN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Aden eða Adan er stór hafnarborg í Suður-Jemen við Rauðahaf.  Hún er viðskiptaleg höfuðborg landsins.  Borgin er yzt á Arabíuskaga, á tveimur eldbrunnum höfðum, sem rísa allt að 300 m yfir sjó.  Eystri höfðinn er kallaður Aden og hinn vestari Litla-Aden.  Lega borgarinnar við mynni Rauðahafs hefur gert hana að einni annríkustu eldsneytishöfn í heimi.  Flest skip, sem sigla um Súesskurðinn koma þar við til að taka eldsneyti.  Þar fer líka fram mikil umskipun.  Í Litlu-Aden er stór olíuhreinsunarstöð.  Hún og höfnin eru stærstu vinnuveitendur borgarinnar.  Millilandaflugvöllur borgarinnar er í Khawr Maksar.

Egyptar réðu þarna ríkjum frá 3. öld f.Kr. og stunduðu verzlun þar til borgin varð rómversk nýlenda 24 f.Kr.  Síðan komu Eþíópar og Persar til sögunnar og á 7. öld varð hún hluti af Jemen.  Tyrkir tóku borgina 1538 og hún var sett undir soldáninn í Lahei 1728.  Eftir að Bretar lögðu borgina undir sig 1839 var henni stjórnað frá Indlandi og árið 1937 varð hún að krúnunýlendu, sem náði yfir næsta nágrenni hennar og eyjarnar Kuria Muria og Perim.  Árið 1850 fékk hún stöðu fríhafnar og strandsvæðin í kringum hana voru innlimuð árin 1881 og 1888.  Í heimsstyrjöldinni síðari var þar mikilvæg herstöð bandamanna.

Árið 1956 jókst spenna milli Jemen og Bretlands vegna verndarsvæðisins Aden.  Verkalýðsfélög og þjóðernissinnar í nýlendunni voru að mestu hliðhollir Jemen og verkföll og óeirðir voru ávöxtur beitingar brezks hervalds við landamærin.  Uppreisnarmenn voru mótfallnir tilkynningu Breta 20. ágúst 1962 um samruna nýlendunnar og Sádi-Arabíu en hún gekk í gildi í janúar 1963.  Næstu árin einkenndust af skæruliðaárásum til að hrekja Breta frá Suður-Arabíu.  Þegar sambandsríkið fékk sjálfstæði 30. nóvember 1967, varð Aden höfuðborg hins nýja ríkis, sem hét Alþýðulýðveldið Jemen á árunum 1970-90.  Árið 1990 sameinaðist það Arabalýðveldinu Jemen.   Í apríl 1994 brauzt út borgarastyrjöld milli sameinuðu ríkjanna (YAR og PDRY).  Henni lauk, þegar YAR náði Aden á sitt vald í júlí eftir að hún hafði orðið fyrir miklu tjóni.  Áætlaður íbúafjöldi 1987 var 417.000.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM