Osaka Japan,
Flag of Japan


OSAKA
JAPAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Osaka er höfuðborg Osaka-héraðs á Suður-Honshu-eyju og hafnarborg við Osaka-flóa við mynni Yodo-árinnar í grennd við Kýótó.  Eftir að útborgir hennar voru sameinaðar Osaka varð hún meðal stærstu borga landsins.  Höfnin er meðal hinna umsvifamestu í Japan og er opin stærstu hafskipum.  Flugvöllurinn er einn af lykilflugvöllum landsins.

Osaka er meðal mestu iðnaðarborga Japans og viðskiptamiðstöð.  Meðal iðnfyrirtækja eru stálver og mikið er framleitt af vélbúnaði, vefnaðarvöru, farartækjum, raftækjum, sementi og skip smíðuð.  Borgin er skorin mörgum skurðum með brúm og þar eru margir garðar (Tennoji með grasagarði).  Þarna er miðstöð dramaleiklistar og brúðuleikhús (bunraku).  Osakaháskóli var stofnaður 1931, Kansaiháskóli 1886 og Osaka borgarháskólinn 1949.  Heimssýningin var haldin í Osaka 1970.

Uppruni borgarinnar er rakinn til ársins 300 f.Kr., þegar hún hét Naniwa.  Árið 1583 gerði hershöfðinginn og stjórnvitringurinn Toyotomi Hideyoshi Osaka að höfuðborg sinni og kastalinn var byggður.  Á stjórnardögum hans blómstraði borgin sem verzlunarborg.  Osaka var opinberlega viðurkennd sem borg árið 1889.  Tveimur árum síðar týndu 10.000 manns lífi í jarðskjálfta.  Árin 1909 og 1912 skemmdist Osaka mikið í eldum.  Áætlaður íbúafjöldi 1994 var tæpar 2,5 milljónir.

Osaka er u.þ.b. 500 km vestan Tókíó og 40 km suðvestan Kíótó.  Þar búa u.þ.b. 2,6 milljónir manns.  Hún er önnur stærsta borg landsins og miðstöð iðnaðar og viðskipta og stjórnsetur vesturhluta Japans.  Borgin er mikilvægur hluti iðnaðarsvæðisins Hanshin, sem teygist alla leið til Kobeborgar.  Japanska brúðuleikhúsið (Bunraku) er upprunnið í Ósaka.

HAGNÝTAR UPPLÝSINGAR
Shinkansen-hraðlestin er álitlegur ferðamöguleiki frá Tókíó (3 klst.) vilji fólk ekki fljúga.  Lestin stanzar í Shin-Osaka-stöðinni, sem er norðan miðbæjarins, handan Yodo-árinnar.  Lestir og neðanjarðarlestir teygja sig til allra borgarhluta, en samt er þægilegra fyrir ókunnuga að taka sér leigubíl frá flugvellinum inn í borgina.  Mörg erlend flugfélög fljúga til Ósaka og stóra höfnin í Kobe er aðeins 30 km vestan Ósaka.

Það er álíka erfitt að rata í Ósaka og í Tókíó.  Jafnvel heimamenn villast í stóru verzlunar- og lestamiðstöðinni neðanjarðar í Umeda.

Það eru einkum tveir líflegir borgarhluta í Ósaka, sem áin Okawa skilur að:  Kita-ku (í norðurhlutanum milli brautarstöðvanna Osaka, Hankyu og Umeda) og Minami-ku (í suðurhlutanum við Nambabrautarstöðina).  Beztu samgöngurnar milli þeirra eru neðanjarðarlestirnar.

Í Kita-ku eru tvær stærstu stórverzlananna, Hankyu og Hanshin.  Þar að auki er þar fjöldi hótela, veitingahúsa, bara, næturklúbba og kvikmyndahúsa.  Neðanjarðar-kerfi þessa borgarhverfis er sérstakt.  Þar eru brautarstöðvar, stórverzlanir með hundruðum verzlana, veitingastaðir, barir og kaffihús á þremur hæðum.  Þarna þarf fólk a.m.k. tvær klukkustundir til að átta sig á aðstæðum.

Í hverfinu sunnan Kita-ku umlykur áin Okawa eyjuna Nakanoshima (Miðeyju), þar sem eru margar stórverzlanir, bankar og hótel.  Þar er líka alþjóðlega verzlunarmiðstöðin.

Mido-suji-gatan, girt Ginkgo-trjám liggur í suður í átt að miðborginni og tengir Kita-ku við Minami-ku.  Þar eru bæði skemmtanahverfin Sinnichimae og Dotombori og verzlunargatan Shinsaibashi-suji liggur í gegnum þau.  Þar ægir saman sérverzlunum, stórverzlunum, veitingahúsum, börum, leiktækjasölum og leikhúsum (m.a. hið fræga Shin-Kabukiza og brúðuþjóðleikhúsið Bunraku).  Gott er að miða áttirnar við skurðinn norðan Nambabrautarstöðvarinnar.

*Höllin í Ósaka
, skammt austan miðborgarinnar, er eitt áhugaverðasta mann-virki sinnar tíðar.  Þar bjó Daimyo herstjóri (shogun) og stríðsmenn (samurai) hans og réðu því, sem þeir vildu.  Toyotomi Hideyoshi lauk þessari skrautlegu byggingu árið 1586 eftir þriggja ára vinnu.  Þá var hún stærsta höllin í Japan.  Á tímum Meiji-umbótanna, sem ollu valdatapi herstjóranna, brenndu Tokugawa-hersveitirnar höllina, þegar þær hörfuðu.  Núverandi byggingar eru úr járnbentri steinsteypu frá árinu 1931.

*Shitennoji-hofið
(Shotoku prins stofnaði það árið 593; elzta hof landsins) er skammt norðan Tennoji-stöðvarinnar.  Þangað er hægt að komast með JNR-Kanjo- eða neðanjarðarlestunum.  Allar upprunalegar byggingar eru horfnar og flestar hinna núverandi voru reistar eftir síðari heimsstyrjöldina eftir upprunalegum teikningum.  Beint norðvestan Tennoji-stöðvarinnar er Tennoji-garðurinn.  Þar er Þjóðlistasafnið með afbragðslistaverkum.

UMHVERFI  ÓSAKA
Þriggja stunda lestarferð í suðurátt frá Ósaka færir fólk í faðm **Koya-san-fjallanna.  Þar eru 125 stórkostleg hof frá blómaskeiði Búddatrúarinnar á 9.öld í skógi vöxnum fjallahlíðunum.  Margir trúaðir, sem vildu láta grafa sig nærri stofnanda trúarreglu sinnar, Kobo-daishi, fengu hinztu hvílu í grafreit hofanna.  Víða er boðið upp á einfaldar vistarverur í hofunum til næturgistingar.  Austan Koya-san er hinn fagri Yoshino-Kumanoþjóðgarður.  Umhverfið er skrýtt fjöllum Yoshinosvæðisins og gljúfrum Kumanosvæðisins.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM