Okinawa Japan,
Flag of Japan


OKINAWA
JAPAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

**Okinawa er kóraleyja (atoll) og sjálfstætt hérað  500 km suðvestan Kyushu.  Auk Okinawa eru margar minni eyjar í eyjaklasanum.  Austast eru Daito-eyjar og syðst Miyako- og Yaeyamaeyjar.  Þessar eyjar bera líka nafn frá T'ang-tímanum, Ryukyu-eyjar.  Naha er höfuðborg eyjanna (u.þ.b. 1600 km frá Tókíó; rúmlega 600 km frá Taipei á Taiwan).  Eftir síðari heimsstyrjöldina var hersátu Bandaríkjamenn Okinawa til 5. maí 1972.  Þar er enn þá bandarísk herstöð.

Íbúarnir eru blanda kínverja, Kóreumanna, Japana og Malasíumanna.  Á 14.öld lutu þeir yfirráðum kínverja.  Á 17. öld náðu Japanar yfirráðunum og bylgja japanskra innflytjenda reið yfir.  Árið 1871 urðu eyjarnar hluti af Kagoshimahéraði, en síðar sjálfstætt hérað, sem er hið fátækasta í landinu.


Aðaleyjan Okinawa (1253 km²) varð kunn um allan heim vegna gríðarlegrar mótspyrnu japanska varnarliðsins gegn herjum Bandaríkjamanna vorið 1945.

Hin nútímalega höfuðborg, Naha  á suðvesturhluta eyjarinnar er stjórnsýslu-, samgöngu- og menningarmiðstöð Suðureyja Japans.  Kokusai-odori-gatan liggur í gegnum miðborgina.  Þar er fjöldi stór- og smáverzlana, banka og skrifstofubygginga.  Þröngar götur aðliggjandi borgarhluta, Tsuboya, eru oft nefndar 'Svartamarkaðsgötur' vegna viðskiptahátta eftirstríðsáranna.  Þar eru áhugaverðar smáleirkerja- (t.d. Shishi-hundar) og Bembolakkmunagerðir.  Hægt er að skoða rústir Sogen-ji-hofsins, þar sem Lunchukonungarnir voru grafnir fyrir 450 árum.  Hofið var lagt í rúst í síðari heimsstyrjöld en steinhliðið, Sekimon, var endurreist árið 1955.

Norðan borgarinnar, á sjávarhömrum, er Naminouehofið, sem helgað er hinum þremur guðum, sem keisararnir eru komnir af.  Þaðan er hrífandi útsýni yfir ströndina og Keramaeyjar.  Önnur shintohof, Gokoko og Yamoti, eru sunnan borgarinnar og Kokubaárinnar.

Shuri í austurjaðri Naha var fyrrum bústaður Luchukonunganna, sem ríktu þarna frá 1422 þar til Japanar neyddu hinn síðasta til að draga sig í hlé árið 1879.  Shurikastali var gjöreyðilagður 1945.  Shurei-no-mon-hliðið og rústasvæðið tilheyra nú háskólanum.  Margir gripir, sem hafa verið grafnir upp eftir s.hst. eru til sýnis í nýju safni, sem hefur verið opnað á svæðinu.

Rúmlega 10 km sunnan Naha, á vesturströndinni, er stóri fiskibærinn Itoman.  Þar er hin víðfræga drekabátahátíð (Harei-sen) haldin.  Félagsleg uppbygging sam-félagsins í Itoman er athyglisverð vegna þess, að þar eru mæðurnar ráðandi stétt.

Vítt og breitt á suðurhluta Okinawa eru minnismerki um Japana og Bandaríkjamenn, sem féllu í innrásinni árið 1945.  Himeyuriminnismerkið ('Liljuturninn') var reist til minningar um 143 skólastúlkur og 15 kennslukonur kvennaskólans á Okinawa, sem létu lífið við hjúkrunarstörf.  Shiraume-minnismerkið (Plómublóma-turninn) er svipaðs eðlis (til minningar um 74 skólastúlkur og kennslukonur þeirra).  Fleiri minnismerki eru á suðausturhlutanum, m.a. um japönsku hershöfðingjana tvo, sem frömdu þar hefðbundið sjálfsmorð (Seppuku) eftir uppgjöfina.

Okinawa (hét áður Koza) er næststærsta borg héraðsins.  Hún er 18 km austan Naha.  Austan við veginn þangað eru rústir Nakagusukukastalans, sem var byggður árið 1454.

Quasi-þjóðgarðurinn (67 km²) er á mið- og norðurhluta vesturstrandarinnar milli Nagahamastrandar og Nagoflóa og á milli Nakijin og Hedo-höfða.  Þar eru frábærar baðstrendur og fjölbreytt afþreyingaraðstaða (Glerbotnsbátar, köfun o.fl.).  Hluti þessa náttúruverndarsvæðis er *Okinawa-strandgarðurinn (Okinawa Kaichu) með neðansjávarsafni við Fusena-höfða.

Fiskibærinn Nago, oft nefndur 'höfuðborg norðurhlutans' hefur ekki orðið fyrir teljandi áhrifum af veru bandarísks herliðs á eyjunni.

Keramaeyjar (32 km austan Naha) eru vinsælar meðal sjóstangaveiðimanna.  Samgöngur á sjó frá Okinawa.

Ishigakieyja (flug frá Naha 2 klst.) er ein Yaeyamaeyjanna.  Þar eru hvítar strendur og mikill gróður (pálmar, sykurreyr o.fl.) og lítil sem engin merki um síðari heimsstyrjöldina.  Þar eru gamlir siðir og hefðir í heiðri hafðir.

Suðvestan Ishigaki er eyjan
**Iriomote.  Þriðjungur hennar ásamt nokkrum smáeyjum er þjóðgarðurinn Iriomote.  Þar eru upprunalegir skógar með sjaldgæfum, villtum dýrum (Iriomote-villikettir og Habueiturslöngur) og kóralrif með fjölbreyttu dýralífi neðansjávar.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM