Nikko Mashiko Japan,
Flag of Japan


NIKKO - MASHIKO
JAPAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Nikko (25.000 íb.) er í jaðri samnefnda þjóðgarðs u.þ.b. 150 km norðvestan Tokyo (JNR-lestir frá aðalbrautarstöð Tokyo eða Tobu-lestir frá Asakusa-stöð; ferðin tekur allt að 2 klst.).

Við götuna, sem liggur frá brautarstöðinni í Nikko að
**Toshogu-hofinu, eru mörg hótel og minjagripaverzlanir.  Hin heilaga, rauðmálaða brú (Shinkyo) liggur yfir ána Daiya og er einungis notuð við hátíðleg tækifæri.  Við hlið hennar er önnur brú, sem ætluð er til almennrar notkunar.  Þegar gengið er í gegnum þykkni risastórra sedrustrjáa, fram hjá Rinnoji-búddahofinu, er komið að **Toshogu-hofinu.  Her-stjórinn Iemitsu Tokugawa reisti það afa sínum, Ieyasu, til heiðurs.  Það er fagurlega skreytt húsasamstæða (gylltur og litaður útskurður með alls konar dýramyndum, s.s. öpum og sofandi köttum).  Merkasta skreytingin er hliðið Yomei-mon.  Inni í skríninu eru fagurlega skreyttar hurðir og veggskermar.

Yakushi-do-salurinn og fimm hæða goðahús, þar sem er að finna innganginn í *Futaarasan-hofið.  Það var stofnað árið 784, endurnýjað 1619 og er því elzta byggingin á hofsvæðinu.  Aðeins vestar er *Daiyuinbyo, grafhýsi Iemitsu, þriðja herstjóra Tokugawa.

*Nikko-þjóðgarðurinn (1407 km²) er fallegt fjalllendi norðan Tókíó.  Hann nær yfir borgina Nikko og jarðhitasvæðin Nasu-onsenkyo og Shiobara-onsen.  Garðurinn er kunnur fyrir vötn, fossa og skóga.  Chuzenji-vatnið fagra, 18 km vestan Nikko í 1400 m hæð yfir sjó, er umlukið hæðum. Það borgar sig að aka með rútu eða lest til Umagaeshi rétt við austurströnd vatnsins og stíga um borð í rafmagnsjárnbraut til að fara upp brattan veg til Akechidaira.  Þaðan er frábært útsýni og þó enn betra, sé haldið áfram þaðan upp á við með svifbraut.  Frá Akechidaira ekur rúta til bæjarins Chuzenji, en í grennd hans er hinn 100 m hái foss, Kegon.  Lengra til vesturs, við norðurströnd vatnsins, er Ryuzufossinn (silungsrækt í grenndinni).  Enn lengra, handan Sebnjugaharaheiðarinnar, er Yunoko-vatn (45 mín. ferð með rútu frá Chuzenji).  Við norðurenda þess er baðstaðurinn Nikko-Ymoto-onsen (hverir; stangaveiði).  Gönguleiðin til baka er hrífandi (3-4 klst.).  Á leiðinni eru Yudakifossar og farið er meðfram Yugawaánni og yfir Senjugaharaheiðina.

Mashiko (rúta frá Utsunomiyastöðinni á leiðinni milli Tókíó og Nikko) er þekkt fyrir muni úr leir.  Þar eru margs konar munir úr leir bakaðir í rúmlega 150 ofnum og þekktir undir nafninu 'Mashiko-yaki'.  Þessir munir eru bæði endingargóðir og fallegir.  Nokkrar leirkerjagerðanna leyfa gestum að spreyta sig.

Í safninu Mashiko-Sankokan, sem þjóðsagnapersónan og meistarinn Shoji Hamada stofnaði, er að finna keramík, glermuni og hluti úr málmi alls staðar að úr heiminum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM