Kíótó er meðal þægilegustu borga í heimi. Hún er eina stórborg Japans, sem kom ósködduð úr síðari
heimsstyrjöldinni. Þar er
aragrúi húsa úr timbri, bæði veraldlegra og til andlegra iðkana.
Shinkansenhraðlestin
brunar frá Tókíó til Kíótó á tæpum þremur klst., hraðlestin
frá Ósaka 40 mín. og frá Kobe 1 klst.
Stöðugar rútuferðir frá alþjóðaflugvellinum í Ósaka til
stóru hótelanna í borginni.
Á
jarðhæð Kíótóturnsins eru skrifstofur JNTO.
Þar er starfsfólk, sem talar erlend tungumál og mikið um upplýsingaefni
um borgina, s.s. um gististaði, sem bezt er að láta bóka þar.
Lendi fólk í tungumálaerfiðleikum í borginni er hægt um
vik, að hringja í JNTO (371-0480).
JNTO annast líka milligöngu um heimsóknir á japönsk heimili.
Auk korts af
borginni er hentugt að verða sér úti um mánaðarlegan upplýsingabækling,
Kyoto Monthly Guide, sem menntamálaráðuneytið gefur út.
Þar koma fram upplýsingar um allar aðaluppákomurnar í
borginni.
Líkt
og annars staðar í Japan er óhugsandi að komast leiðar sinnar án
korts af borginni. Auk
JNTO-kortsins er gott að hafa áætlanir strætisvagna og neðanjarðarlesta
við hendina.
Nokkur
rútufyrirtæki bjóða hálfsdags skoðunarferðir um borgina.
Einnig ferðir til að fylgjast með skarfaveiðum í ánni Oi.
Kíótó
hefur nokkrum sinnum brunnið til grunna en var ætíð byggð upp skjótt
aftur og yfirbragð hennar er ákaflega líflegt.
Endurnýjunin hverju sinni er lýsandi dæmi um þrótt og þrautseigju
íbúanna. Tíu árum eftir
að stjórnsetur landsins var flutt frá Nara til Nagaoka, lét Kammu
keisari byggja hér upp höfuðborg hins nýja ríkis árið 794.
Fyrst hét hún Heiankyo (höfuðborg friðarins), síðan Miyako
(keisarasetur) og að Meiji-umbótunum loknum fékk hún núverandi nafn
Kíótó (höfuðborg).
Mikilvægi
borgarinnar var óstöðugt um aldir, líkt og veldi keisaranna.
Þrátt fyrir óstöðugleikann og mismunandi pólitíska stöðu
keisaranna, voru þeir synir sólgyðjunnar Amarerasu-omikami og þar með
andlegir leiðtogar, hvað sem stjórnmálaástandi leið.
Því dafnaði Kíótó sem andleg menningarmiðstöð landsins
eins og enn þá vottar fyrir.
Viðskiptalífið
í þessari fimmtu stærstu borg landsins varpar nokkrum skugga á
gamalgróna stöðu hennar, þannig að nokkra fyrirhöfn kostar að
komast til botns í henni. Íbúar
Kíótó standa þó vörð um margar gamlar hefðir, sem laða u.þ.b.
10 millj. gesta til borgarinnar ár hvert.
Mörg hundruð shinto-hofa og rúmlega þúsund búdda-hof eru í
borginni og u.þ.b. 30 þeirra eru aðalhof hinna ýmsu greina búddatrúarinnar
í landinu. Mörg þeirra
eru þjóðarminnismerki. Við
lauslega skoðun virðast þessi hof vera samansafn bygginga, höggmynda,
málverka og listilegra garða, sem gleðja augað.
Þýðing þeirra er samt miklu djúpstæðari sé litið til
tengsla þeirra við menningu (ekki sízt hina trúarbragðalegu) alls
landsins. Það er gott að
hafa þá skilgreiningu bak við eyrað, þegar listafjársjóðirnir
eru skoðaðir.
Sjá
nánari upplýsingar um shinto- og búddatrú og hofin í sérskrá um
trúarbrögð heimsins.
Tré
er aðalefnið, sem iðnaðar- og listamenn vinna úr í Japan.
Japanar dást að árstíðaskiptum og mismunandi litadýrð trjánna.
Þeir nota tré til húsbygginga og skera úr því guðamyndir.
Flestir
skoðunarstaðir í Kíótó krefjast aðgangseyris.
Hofin og söfnin opna um níuleytið og loka um fimmleytið.
Fólk þarf að fara úr skónum við innganginn og snúa tám þeirra
frá altarinu, þegar farið er inn í hof.
Einnig þarf að gæta þess að ganga þar hljóðlega um.
Beint
norður af aðalbrautarstöðinni eru Nishi Hongan-ji og Higashi
Hongan-ji hofin. Higashi
Hongan-ji var upprunalega reist árið 1602 af Judo-shinshu-reglunni.
Það var oft endurbyggt eftir skemmdir, síðast 1859.
Almenningi er aðeins leyfður aðgangur að aðalsalnum og
stofnandasalnum. **
Nishi Hongan-ji hofið, sem sama trúarreglan reisti, er einnig lokað
almenningi að mestu. Panta
þarf skoðunarferðir um þessi hof fyrirfram hjá skrifstofum þeirra.
*Toji-hofið,
sunnan Nishi Hongan-ji, handan brautarsporanna, var stofnað árið 796.
Árið 823 var það afhent stofnanda Shingon-reglunnar,
Kobo-daishi. Aðalsalurinn
er einn hinn stærsti slíkur í búddahofi í Japan.
Einnig er áhugavert að skoða hina 56 m háu pagódu og
stofnendasalinn. Vestan
Toji, handan árinnar Katsura, er
keisarahöllin Katsura (panta skoðun fyrirfram).
Austan aðalbrautarstöðvarinnar
og handan árinnar Kamo er *Sanjusangen-do (reist 1164), sem varð
að endurbyggja árið 1266 eftir eldsvoða.
Nafn hofsins, Sanju-san (þrjátíuogþrír), er dregið af 33
milliherbergjum milli burðarsúlnanna. Mesta listaverkið í því er tréstytta af hinum sitjandi
Kannon með hendurnar 1000. Beggja
vegna hennar eru 28 yngri og 1001 aðrar minni styttur.
Sunnan þessa hofs, við Inari brautarstöðina, er *Fushimi-Inari-hofið
(711) með rauða hliðinu, sem er við innganginn í hinn stóra
Maruyama-lystigarð (fallegur blómi kirsuberjatrjáa í maí).
Lengra til norðausturs í garðinum er eitt stærsta hofsvæði
landsins. Fyrsta hofið þar
var reist árið 1211 (Jodo-reglan) en það brann eins og svo mörg síðar,
sem voru ætíð endurreist. Núverandi
byggingar eru frá árinu 1639. Aðalsalurinn
er helgaður stofnanda reglunnar, Honen Shonin.
Austan
miðborgarinnar, handan Kamo-ár, í Okazaki-garðinum, er Listasafn
Kíótó (fallegar rúllumyndir og málaðir veggskermar; skiptisýningar
samtíðalistar) og Nýlistasafnið (aðallega japanskir samtíðarlistamenn).
Þar er og að finna ráðhúsið og dýragarð.
Enn austar, við rætur
skógi vaxinna hæða, er Nanzen-ji-hof Rinzai-reglunnar.
Núverandi byggingar eru eftirmyndir frá Tokugawa Ieyasu-tímanum.
Í aðalbyggingunni eru athyglisverðar, málaðar rennihurðir.
Af veröndinni er gott útsýni yfir Zen-garðinn (frá f.hl. 17.
aldar). Í grenndinni er fjöldi hofa, sem gerir fólki erfitt um vik
að átta sig.
Skammt
norðan Listasafns borgarinnar og Nýlistasafnsins, hinum megin við stóru
Kíótó Kaikan-bygginguna, er Jeian-hofið, sem var byggt árið 1895
til minningar um 1100 ára afmæli borgarinnar, stofnanda hennar, Kammu
keisara, og síðasta keisarann, sem bjó í borginni, Komei.
Hofið er smækkuð mynd af fyrstu keisarahöllinni (794).
Bak við hofið er fallegur landslagsgarður, þar sem
kirsuberjatrén blómstra í apríl og sverðliljur í júní.
Rúmlega
1,5 km norðan Nanzen-ji-hofsins eru hofin Honen-in og Anraku-ji, sem
tilheyra Jodo-reglunni. Aðalsalur
hins síðarnefnda líkist helzt sölum lítilla hofa, sem voru algeng
í sveitum landsins. Í
grennd við það er stór grafreitur.
Við hofið er einnig áhugaverður sandgarður.
Í aðalsölum beggja hofanna er vert að líta á líkneski af Búdda
og Bodhisattva (e.t.v. frá 10.öld).
Nokkur
hundruð metrum norðar er *Ginkaku-ji-hofið (Silfurhofið).
Það var reist sem sveitarbústaður fyrir Ashikaga Yoshimasa árið
1482 og breytt í hof að honum látnum.
Silfurhúðun þess var aldrei að fullu lokið.
Hofgarðurinn fagri var gerður á 15.öld.
Vestantil
í miðborginni lét Tokugawa Ieyasu, stofnandi síðustu herstjóra-ættarinnar,
reisa *Nijo-höllina (Nijo-jo), sem var bústaður hans um tíma.
Innviðir hallarinnar skemmdust að hluta í bruna, en
Nono-maru-salurinn, einn þeirra, sem skemmdist ekki, er skreyttur frábærum
veggmyndum eftir hinn fræga málara Kano Tanyu.
Gamla
keisarahöllin (Kyoto Gosho), skammt norðan borgarmiðjunnar, var aðsetur
26 ráðamanna frá því að Kammu keisari lét reisa hana 794 fram að
Meiji-endurbótunum á 19.öld. Hallarbyggingarnar
skemmdust oft í eldi. Núverandi
byggingar, sem voru byggðar í strangklassískum stíl árið 1855,
standa innan hárra múra í keisaragarðinum (84 ha).
Höllin og umhverfi hennar er opin til skoðunar mánudaga til föstudaga
kl. 10:00 og 14:00 og laugardaga kl. 10:00.
Gestir verða að gera vart við sig hjá umsjónarmönnum (í
norðvesturhluta garðsins) a.m.k. hálftíma fyrir upphaf skoðunarferðanna.
Í stóra viðhafnarsalnum (Shishin-den) voru haldnir nýársfagnaðir
og keisarar krýndir. Mörg
frábær málverk eru til sýnis í höllinni.
Í
norðurhluta borgarinnar eru nokkur áhugverð hof.
Shimogamo-hofið og Kamigamohofið eru nærri austurbakka Kamoárinnar,
sem Takanoáin rennur í aðeins sunnar.
Hinn 15. maí ár hvert standa bæði hofin fyrir 'Aoi-matsuri'-hátíð
(m.a. skrúðgöngur fólks í sögulegum búningum).
Vegalengdin á milli þeirra er u.þ.b. 3 km og upplagt að líta
inn í grasagarðinn á milli þeirra í leiðinni.
Vestan
grasagarðsins er *Daitoku-ji-hofið, einn aðalhelgidóma
Rinzaireglunnar. Margar
fegurstu bygginga þess eru frá 15. öld en flestar eru frá 16.- og
17. öld. Árið 1599 annaðist
frægur temeistari, Senno Rikyu, byggingu tveggja hæða aðalhliðsins
Sammon. Í sölum hofsins
eru fallegar vegg- og loftmyndir og Búdda-líkneski.
Daisen-in-hofið, sem er líka á aðalhofsvæðinu, er merkilegt
fyrir víðfrægan *Zen-garð frá 16.öld.
Vestar
er *Kinkaku-ji-hofið (Gyllta
hofið), sem var fyrst byggt árið 1394 en brann til grunna 1955 og var
endurreist. Það stendur
í mjög fallegu umhverfi við lítið vatn.
Suðvestan
þess er fallegt hof, Ryoan-ji, með falllegum *Zen-garði, þar sem
allur hávaði er bannaður.
Í
vesturhluta borgarinnar eru einkum þrjú hof, sem fólk ætti ekki að
láta fara fram hjá sér.
Koryu-ji-hofið
var stofnað árið 622. Það,
ásamt fyrirlestrasal þess, er elzta timburmannvirki borgarinnar frá
árinu 1165. Þar eru þrjár gamlar styttur:
Sitjandi Búdda, þúsundhanda Kannon og Fukukenjaku-Kannon.
Tenryu-ji-hofið
(aðeins vestar; byggt árið 1900) er þekkt fyrir garð sinn.
Handan árinnar Katsura, sunnan Tenryu-ji, er Saiho-ji-hof
Rinzai-reglunnar, sem var stofnað á 12.öld og endurnýjað af
prestinum og garðyrkjumanninum Muso-kokushi árið 1339.
Í fögrum Zen-garðinum umhverfis hofið er vogskorið vatn og
tehús. **Garðurinn
er kunnur fyrir u.þ.b. 40 mosategundir, sem sumir nefna hofið eftir,
'Kokedera' eða Mosahof. Daglega
er einugis 200 gestum leyft að skoða hofið.
Því verða þeir, sem ætla að skoða það að senda inn
skriflega umsókn með þriggja mánaða fyrirvara. |