Honshu vesturhlutinn Japan,
Flag of Japan


HONSHU
JAPAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

NAGOYA  hefur rúmlega 2 milljónir íbúa.  Hún er 260 km vestan Tókíó.  Ásamt Tókíó og Osaka er borgin mikilvægasta iðnaðar- og viðskiptamiðstöð landsins.  Bezt er að aka þangað með Shinkansenhraðlestinni frá Tókíó eða Kobe.

Borgin óx í kringum virkin, sem voru reist þar á 16.öld.  Vöxt sinn og tilveru á borgin Tokugawa Ieyasu að þakka.  Hann lét reisa þar stóran kastala árið 1612 fyrir son sinn, Yoshino, sem hann setti síðan yfir Owarihérað.  Kastalinn er enn þá ímynd Nagoya.  Í síðari heimsstyrjöldinni varð borgin illa úti í loftárásum.  Við skipulagningu enduruppbyggingarinnar varð til stórkostlegt gatnakerfi.

Helzti skoðunarstaðurinn er kastalinn.  Hinn 48 m hái turn hans var endurreistur árið 1959 í upprunalegri mynd og hýsir nú listasafn.  Það er áhugavert að skoða málaða veggskermana og loftmyndirnar.  Útsýnið frá 6 hæð er frábært.

Í suðurhluta borgarinnar er *Atsuta-hofið, sem er næstmikilvægsti helgistaður shinto-trúarinnar á eftir Isehofinu.  Þar er eitt hinna þriggja tignarmerkja landsins varðveitt, grassláttarsverðið (Kusanagi-no-tsurugi).

Garðurinn Higashiyama-koen er 82 ha stórt útivistarsvæði með dýragarði, grasagarði, stjörnuskoðunarstöð o.fl.

U.þ.b. 3 km austan kastalans er Tokugawalistastafnið (Tokugawa bijutsukan) þar sem er að finna minjar frá fyrri tíð, s.s. myndarúllu í 43 hlutum (Genji-monogatari).

Umhverfi Nagoya
30 km norðan borgarinnar (1 klst. ferð í rútu) er héraðsstjóraborgin Gifu.  Aðalaðdráttarafl hennar er skarfaveiðin á ánni Nagara frá maí til september (ekki stunduð við fullt tungl eða eftir úrhellis rigningu).  Hún fer þannig fram, að fiski- og farþegabátum er ýtt úr vör með ljósker fest við kinnung til að lokka Ayu, fisk af laxastofni upp að yfirborðinu.  Síðan eru skarfar með ól um hálsinn og band í henni látnir sækja fiskinn.  Ólin kemur í veg fyrir að skarfarnir geti gleypt og hver þeirra veiðir allt að 50 fiska á hverju kvöldi.

Meijimura.  Þangað er u.þ.b. klukkustundar ferð með rútu frá Nagoya.  Þetta er útisafn, þar sem gefur að líta merkar byggingar alls staðar að í landinu.  Nú eru þar rúmlega 50 hús, sem hafa verið endurreist.  Fólki er ráðlagt að skoða aðalinngangssalinn vel.  Hann er anddyri gamla Imperal hótelsins, sem Frank Lloyd Wright teiknaði.  Einnig er gaman að skoða ríkisvagn Meiji-keisarans.

ISE
Nagoya er góð miðstöð, hyggist fólk heimsækja Ise-hofin, aðalhof shinto-trúarinnar.  Ise varð til við sameiningu bæjanna Uji og Yamada.  Þangað er 1½ tíma ferð með lest frá Tókíó með Kinetsulestunum og 2 tíma ferð frá Kíótó og Ósaka.

Hin stóru og stórkostlegu **Ise-hof eru sunnan borgarinnar umgirt trjágróðri.  Það eru u.þ.b. 5 km á milli þessara tveggja hofa, sem voru upprunalega reist annars staðar en rifin og byggð upp á núverandi stöðum.  Efniviðnum, sedrus- og kýprusviði, er dreift meðal annarra hofa í landinu á tuttugu ára fresti og hann er álitinn heilagt byggingarefni.  Þá eru jafnframt strax byggð ný Isehof við hlið grunna hinna fyrri í nákvæmlega sömu mynd og hin upprunalegu og helgidómarnir vígðir á ný.  Síðast fór þessi athöfn fram árið 1993.  Erlendir gestir eru beðnir um að ganga um með virðingu og virða bann við myndatökum.

*Ytra-Ise-hofið (Geku) er skammt suðvestan brautarstöðvarinnar.  Handan hliðsins er bústaður keisarafjölskyldunnar, þegar hún kemur í heimsókn.  Handan annars hliðsins er Kagura-salurinn, þar sem trúarlegir dansar eru stignir og síðan kemur dýrkunarsalurinn.  Aðalhofið er fjórgirt og gestir mega aðeins ganga um yzta svæðið.  Sunnan þess er Hinn heilagi garður (Geku-Jin-en; 4,5 ha).

*Innra-Ise-hofið (Naiku) er helgað sólgyðjunni Amaterasu-omikami og er þjóðarhelgidómur landsins.  Það er 5 km suðaustan Geku.  Innan fyrsta hliðsins liggja tröppur niður að ánni Isuzu, þar sem pílagrímar þvo sér um hendur og munn áður en haldið er til bæna.  Innan annars hliðs hefst stígur, girtur sedrustrjám, sem liggur fram hjá hrísgrjónageymslu að afgirtu aðalhofinu (Shoden), sem er líkt Geku.  Eitt hinna þriggja ríkistákna, spegillinn Yata-no-kagami, er varðveittur þar.  Samkvæmt þjóð-sögunni er hann komin frá formóður keisarafjölskyldunnar, sólgyðjunni Amaterasu-omikami.

Umhverfis Naiku er 67 ha skóglendi, þar sem eru fleiri smáhof.

Norðaustan Naiku er annar endi 16 km tollvegarins Ise-shima-Skyline, sem liggur til austurs um Asamafjöll til Toba.  Frá veginum er fallegt útsýni.  Í grenndinni er frábær baðströnd, Futamiga-ura
.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM