Hokkaido
er nyrzt aðaleyja Japans. Á
milli hennar og Honshu er Tsugara-sund og Soya-sund á milli hennar og
Sachalin. Rússar og
Japanar hafa deilt um yfirráð yfir Suður-Kúrileyjum (etorofu og
Kunashiri) og eyjunum Habomai og Shikotan, sem eru norðaustan Hokkaido.
Rússar fengu þar yfirráð á Jaltaráðstefnunni árið 1945
en Japanar krefjast þeirra stöðugt aftur.
Mikill munur er á Hokkaido og þróuðu og þéttbýlu samfélaginu
sunnar í landinu. Eyjunni
er oft líkt við Norðurlönd eða Kanada.
Hún er fjalllend, hrjóstrug og eldvirk og þar eru víðáttumikil
beitilönd. Veturinn ríkir
hálft árið og snjór er á jörðu í fjóra mánuði á ári.
Áður en Japanar lögðu eyjuna undir sig var hún byggð
Ainu-kynþættinum (líklega af evrópskum uppruna).
Hætt er við að menning Ainu-fólksins hverfi og jafnvel það
sjálft.
Lítill
kynstofn snjóapa lifir á Hokkaido.
Þeir hafa vanizt kuldanum og baða sig jafnvel í heitum laugum.
Á
milli eyjanna Honshu og Hokkaido, undir Tsugarasundi, er 23,3 km langur
hluti járnbrautarganga, sem eru alls 53,9 km löng.
Þau voru grafin báðum megin frá og haftið á milli þeirra
var rofið 28. janúar 1983.
Bezt
er að fljúga frá Tókíó til Hokkaido (1:10 klst. til
Sapporo-Chitose-flug-vallar; þaðan er 1½ tíma rútuferð inn í miðborg
Sapporo). Járnbrautarferð
frá Tókíó til Sapporo tekur a.m.k. 13 tíma.
Næturhraðlestin fer daglega frá Tókíó (Ueno-stöð)
árla kvölds. Ljóst
er orðið af degi, þegar hún fer að skríða eftir sporunum á
Hokkaido, þannig að farþegar fá að kynnast landslaginu þar á leiðinni.
Sapporo
er þægileg nútímaborg, sem var stofnuð árið
1871. Breiðar og hornréttar
göturnar eru afrakstur samstarfs við bandaríska skipuleggjendur Háskólinn
óx upp úr búnaðarskóla, sem fluttur var frá Tókíó árið 1875.
Safn hans og grasagarður eru meðal skoðunarverðra staða
borgarinnar. Blómum skrýdd
breið-gatan Boulevard O-dori liggur frá austri til vesturs í gegnum
borgina. *Snjó- og
ís-hátíðin er haldin þar í febrúar ár hvert og og
listamenn skapa fjölda íslistaverka.
Nærliggjandi
vetraríþróttasvæði voru vettvangur elleftu vetrarólympíuleikanna
árið 1972. Hluti þeirra
er í Moiwa-fjalli, sem er innan borgarmarkanna.
Í
skógi vöxnu dalverpi í hinum stóra *Shikotsu-Toya-þjóðgarði suðvestan
Sapporo (1½ tími með lest) er hverasvæðið og heilsubótarstaðurinn
Noboribetsu-onsen. Heita
vatnið úr átta hverum er leitt í rörum til hótelanna og tveggja
heilsubótarstaða. Hverirnir
eru í Jigokudani-dal (Heljardal), 400 m frá bænum og þar eru einnig
gufuaugu og kísilúrfellingar. Í
nærliggjandi gili er bullandi leirhver, sem spýr gufu og
brennisteinsvetni. Þarna
eru líka vetraríþróttasvæði.
Hið
fagra og tæra *Toya-vatn (2 klst. í bíl frá Noboribetsu) er umkringt
fjöllum. Í miðju
hringlaga vatnsins er skógi vaxna eyjan Nakanoshima og umhverfis hana
fjöldi smáeyja. Mikið er
um krabba og fiska af laxastofni í vatninu og það leggur ekki,
jafnvel í mestu vetrarhörkum. Á
suðurströnd þess er baðstaðurinn Toyako-onsen (allt að 60°C
heitar laugar).
Austan
Sapporo er *Daisetsuzan-þjóðgarðurinn á miðri Hokkaido.
Þetta er fjalllent svæði, að mestu vaxið barrtrjám.
Þar er fjöldi baðstaða, s.s. Sounkyo, Tenninkyo, Shirogane,
Yukomambetsu og Shikaribetsu. Í
norðurhluta garðsins er hið stórkostlega, 24 km langa Sounkyogljúfur
(lest frá Sapporo til Asahikawa og síðan rúta).
Frá veginum, sem liggur um gljúfrið, er bezt að virða fyrir
sér fagurt landslagið Á
báðar hliðar eru allt að 150 m háir, þverhníptir klettaveggirnir,
og sums staðar falla fossar niður eftir þeim.
Einnig er hægt að skoða gljúfrið frá göngustígum.
Í því miðju er baðstaðurinn Sounkyo-onsen og þaðan liggja
strengbrautir upp á útsýnis-stað í 1300 m hæð yfir sjó. |