Sýrakúsa Ítalía,
Flag of Italy


SÝRAKÚSA
ÍTALÍA

.

.

Utanríkisrnt.

 

Sýrakúsa er hafnar- og höfuðborg samnefnds héraðs á suðurströnd Sikileyjar.  Gamli borgarhlutinn er á Ortygia-eyju.  Borgin er mikill ferðamannastaður og markaður fyrir landbúnaðarafurðir (ólífuolíu, sítrusávexti o.fl.).  Talsverðar fiskveiðar eru stundaðar frá borginni.

Í fornöld var Sýrakúsa stærsta og öflugasta borg Sikileyjar.  Meðal rústa fornborgarinnar er grískt leikhús, sem var höggvið í kletta með sætum fyrir 15.000 áhorfendur, rómverskt hringleikahús, altari Hiero II og virki Dionysus yngri frá 4. öld f.Kr.  Areþúsabrunnurinn er víðkunnur.

Landnemar frá hinni grísku Kórinþuborg stofnuðu Sýrakúsu árið 734 f.Kr.  Upprunalega byggðin á Ortygiaeyju náði fljótlega upp á meginland Sikileyjar.  Árið 485 f.Kr. gerðist harðstjórinn Gelon frá Gela stjórnandi borgarinnar og gerði hana að aðsetri stjórnar sinnar.  Gelon varð frægur fyrir sigur sinn á Karþagómönnum við Himera árið 480 f.Kr.  Bróðir hans, Hiero I, tók við völdum af honum og var rómaður sem mikill listavinur um allt Grikkjaveldi.  Meðal margra frægra ljóðskálda, sem dvöldu við hirð hans, voru Aeschylus, Pindar, Simonides frá Ceos, Bacchylides og Epicharmus.  Árið 466 f.Kr. hröktu lýðræðissinnar bróður Hieros og eftir mann frá völdum og í 60 ár var lýðræðisleg stjórn í borginni.  Fjandskapur við borgarbúa í Segesta leiddi til tveggja ára stríðs við Aþeninga, þar sem Spartverjar studdu Sýrakúsamenn.  Þessu stríði lauk með sigri Spartverja árið 404 f.Kr.

Landvinningar Karþagómanna á Sikiley í lok 5. aldar f.Kr. ógnuðu tilveru Sýrakúsu en Dionysius eldri, sem stjórnaði borginni með harðri hendi, gerði hana að öflugasta stað Sikileyjar.  Talsverð óstjórn ríkti á dögum Dionysusar yngri og Dions.  Eftir að borgarbúar höfðu losað sig úr viðju harðstjórnarinnar og frelsi þeirra var endurreist árið 343 f.Kr., var rólegt um skeið.  Árið 317 f.Kr. komst harðstjórinn Agathocles til valda og síðan Hiero II. Eftir 263 f.Kr. var Hiero bandamaður Rómverja gegn Karþagómönnum en við lát hans árið 215 f.Kr. náðu fylgismenn Karþagó völdum í borginni.  Rómverjar lögðu Sýrakúsu undir sig árið 212 f.Kr., þótt borgarbúar hefðu tekið upp nútímavarnir Arkimedesar hins gríska.  Borginni hnignaði undir stjórn Rómverja en hélt samt stöðu sinni sem höfuðborg Sikileyjar.  Sarasenar brenndu og rændu borgina árið 878 og eftir það féll hún í gleymsku.


.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM