**Forum
Romanum
(bls.
209-210). Lægðin suðaustan
Kapitol, milli Palatin og Esquilin, var þurrkuð á 6.öld f.Kr. með
Cloaca Maxima í Tiber. Hún
var síðan notuð til verzlunar og viðskipta, mannfunda og dóma.
Sesar skipulagði svæðið og Ágústus lét ljúka verkinu
eftir sama skipulagi. Hann
og síðari keisarar reistu skrauthýsi, heiðursborg, súlur og
styttur, þannig að forum Romanum glitraði af marmara og gylltum málmi. Á 6.öld hófst hrunið.
mannvirkin voru rifin, efnið notað í kirkjur eða aðrar
byggingar og þar, sem eftir var af
marmara var brennt í kalk.
Þegar farið var að grafa Forum Romanum upp árið 1803 (mest
eftir 1871), var þykkt lagsins ofan á rústunum orðið allt að 13
m.
Öldungahöllin
stendur á rústum Tabularium, sem var skjalasafn ríkisins (byggt 78
f.Kr.). Neðan hennar,
handan Via del Foro, eru rústir þriggja helgidóma:
Súlnagöng guðanna tólf (til minningar um deyjandi átrúnað á
goðin), Vespasianhofið (81 e.Kr.; 3 súlur með þverbita) og
Concordiahofið (upprunalega byggt 366 f.Kr. og endurnýjað 7 e.Kr. af
Tiberiusi).
**Kolosseum,
líka kallað „Flavíska hringleikahúsið” er eitt frægasta mannvirki
veraldar. Það hefur
staðið á rómverskum tíma sem tákn stærðar og veldis Rómar.
Vespasian lét reisa 3 hæðir þess 75 e.Kr. og Titus bætti einni
hæð ofan á árið 80 og stóð fyrir 100 daga bardagaleikjum við opnun
þess (1000 skylmingaþrælar og 5000 rándýr). Grunnflöturinn er sporbaugslagaður, lengdaröxull 188 m,
þveröxull 156 m og hæðir 48,5 m.
Í bogaröðunum eru dórískar, jónískar og kórínskar hálfsúlur.
Á fjórðu hæð eru kórinskar súlur á milli smáglugganna.
Á dróttarsteinunum (efst) stóðu stangirnar, sem héldu
segldúknum yfir áhorfendapöllunum.
Fjórir þrískiptir aðalinn- og útgangar, tveir á þveröxlinum
fyrir keisarann og tveir á langöxlinum fyrir bardagaþræla.
Áhorfendur komu inn um neðri bogana upp númeraða tröppuganga að
sætunum (40-50.000).
Framsta sætaröðin (podium) var fyrir keisarann, öldungana og
vestumeyjarnar. Leiksviðið er 85 m langt og 55 m breitt með stórum kjallara
fyrir lyftitæki, búr o.fl.
Árið 404 afnam Honoríus bardaga skylmingaþræla.
Gota-konungurinn Theoderich mikli afnam dýraat og bardaga milli
manna og dýra. Á miðöldum
hrundi hluti veggja Kolosseum í jarðskjálfta.
Rómverski aðallinn notaði rústir Kolosseum sem virki og síðar
sem steinnám þar til Benedikt 14., páfi (1740-58), vígði þær pínu
Krists vegna blóðs hinna kristnu píslarvotta, sem hafði verið úthellt
þar. Kross úr bronzi, sem
reistur var á sviðinu 1926, er til minningar um það.
Þótt aðeins standi eftir u.þ.b. þriðjungur af Kolosseum, er
þetta mannvirki stórkostlegt, einkum á tunglbjörtum kvöldum.
Eftir margra ára viðgerðir varr Kolosseum aftur opnað gestum í
heild sinni.
Árelíski múrinn
(Mura Aureliane) er 19 km langur tígulsteinamúr með turnum og hliðum
kringum borgina. Árelíus
keisari (272-278) lét reisa hann, þótt Róm hafi þá ekki þurft að
verjast óvinaárás í 500 ár.
Víða eru stórir hlutar múrsins standandi, enda hefur margoft
verið gert við hann frá 5.öld.
Sums staðar er hægt að fá sér göngutúr á honum.
Aðalhliðin að norðanverðu eru Porta del Popolo, Porta Pinciana,
Porta Salaria og Porta Pia.
Að austan Porta San Lorenzo og Porta Maggiore.
Að sunnan Porta San Giovanni, Porta San Sebastiano og Porta San
Paolo. Að vestan Porta San Pancrazio.
**Pantheon
er eina heila uppistandandi fornbygging Rómar.
Hún stendur á Piazza Della Rotonda í miðri gömlu borginni.
Góðvinur og herforingi Ágústusar, Marcus
Vipsanius Agrippa, lét reisa Pantheon árið 27 f.Kr.
Það var oft endurnýjað, einkum gerði Hadrian (120-126) vel við það.
Þegar hinn gamli siður hafði vikið, gaf austurrómverski keisarinn
Phokas Bonifatiusi páfa Pantheon og hann vígði það sem kirkju, Santa
Maria ad Maryres. Við
innganginn eru 16 12,5 m háar, fornar granítsúlur og fornir
bronzslegnir dyravængir.
Innandyra rís hin forna byggingarlist Rómverja hæst, kúpullinn með 9 m
breiðu kringlóttu opi efst til að hleypa inn birtu (augað).
Áhrif innrýmisins byggjast á samræmi hlutfallanna í húsinu. Hæðin er 43,2 m, jöfn þvermáli hússins. Hæð kúpulsins er jöfn hæð beinu veggjanna, sem hann hvílir á.
Goðastytturnar, sem stóðu eitt sinn í aðalveggskotunum og dýrmætar
skreytingar hurfu í aldanna rás og er víða að finna.
Í öðru skoti til hægri er gröf Viktors Emanuels II konungs
(+1878), beint þar á móti er gröf Umbertos (myrtur árið 1900) og þar
til hægri er gröf Raffaels (1483-1520).
*Ponte Sant' Angelo
(Englabrú). Hadrian lét
byggja hana árið 136 e.Kr. og skírði hana fjölskyldunafni sínu 'Pons
Aelius'. Þrír miðbogarnir
eru fornir. Fyrrum eina
leiðin yfir Tiber að Vatíkani.
Árið 1668 var hún skreytt með 10 stórum englastyttum eftir
tillögum Berninis.
*Castel Sant' Angelo eða Mausoleo di Adriano
(Englahöll) stendur andspænis Englabrú á hægri bakkanum.
Hadrian hóf byggingu hennar árið 130 sem grafhýsi keisaranna og
Antonius Pius lauk verkinu árið 139.
Frá 6.öld notuðu valdhafar í Róm hana sem virki en páfastóll
fékk hana árið 1379. Hún
varð að föstum brúarsporði, skreytt að utan og með súlnagangi til
Vatíkansins. Á
tíma-bilinu 1870-1901 var hún herstöð og fangelsi.
Síðan hófst endurbygging og húsið var innréttað sem safn. Á ferhyrndum sökkli (84 m löngum) stendur hringbygging, 64 m
í þvermál, sem var eitt sinn klædd marmara.
Í grafhýsum, sem hægt er að skoða, voru jarðneskar leifar
keisaranna varðveittar allt til árisins 217 (Caracalla).
Einnig er þar vopnasafn og líkan af byggingarsögu hússins,
sögulegir salir og margar kapellur, dýrgripabúr og bókasafn. Efst uppi (*útsýni) er bronzstytta af erkilenglinum Mikael,
sem höllin dregur nafn sitt af (1752).
Hún var reist til minningar um sýn Gregors mikla, páfa.
**Vatíkanborgin,
Stato Della Cittá del Vaticano; Santa Sede = heilagi stóllinn.
Ítalska ríkið viðurkenndi hana sem sjálfstætt borgríki í
samningi dags. 11. febrúar 1929, sem var til endurnýjunar öðrum, sem
rann út árið 1870. Vatíkanríkið er 0,44 km² og nær yfir Péturstorgið,
Péturskirkjuna, Vatíkanið og páfagarðana.
Af u.þ.b. 1000 íbúum eru 525 ríkisborgarar. Þar eru fimm kardínálar, margir stjórnarerindrekar og
fulltrúar alþjóðastofnana.
Páfinn eða heilagur faðir (Pólverjinn Jóhannes Páll frá 1978) er
yfirmaður rómversk-katólsku kirkjunnar, sem hefur u.þ.b. 700 milljónir
fylgjenda um allan heim.
Hann er handhafi löggjafar-, framkvæmda- og dómsvalds, sem æðsti
kardínálinn tekur að sér í fjarveru páfa.
Páfa til fulltingis starfar stjórnarráð, sem er ábyrgt gagnvart
honum einum.
Fram til 1970 önnuðust sveitir aðalsmanna, falsgreifa, lögreglu og
svissneskir sérsveitar-menn lífvörzlu páfa.
Nú sjá Svisslendingarnir einir um hana.
Í lífverðinum eru katólskir Svisslendingar, sem eru valdir á
aldrinum 19-25 ára, lægstir 174 sm og ókvæntir.
Þjónustutíminn er 2-20 ár.
Nú eru 90 menn í lífverðinum.
Þeir bera einkennisbúning í litum Medic-páfanna, gula, rauða og
bláa.
Vatíkanið hefur eiginn gjaldmiðil (1 Vat. líra = 1 ít. líra), eiginn
póstþjónustu (frímerkin gilda í allri Róm), eigin símaþjónustu,
dagblöð og tímarit (þekktast Osservatore Romano með 60-70.000 eintaka
upplag), útvarpsstöð (á 35 tungumálum), bílageymslu (100 bílar),
brautarstöð og þyrlupall.
Fáni Vatíkansins er gul-hvítur með þreföldu páfakórónuna og tvo
krosslagða lykla undir á hvíta fletinum (skjaldarmerkið).
Eignir páfastóls utan Vatíkansins eru:
Kirkjurnar þrjár, San Giovanni in Laterano, San Paolo Fuori le
Mura og Santa María Maggiori; stjórnarbyggingar páfastóls og
sumarhöllin í Castel Gandolfo.
Þessar byggingar lúta ekki ítölskum lögum. Páfastóll rekur auk þess ýmis fjármálafyrirtæki.
Skýrar merkingar eru á svæðum, sem opin eru almenningi.
Hámarkshraði bifreiða í Vatíkaninu er 30 km/klst.
*Péturstorgið, Piazza di San Pietro.
Via Della Conciliazione opnast inn á Péturstorgið, sem er
laust við bílaumferð og er eitt af verkum Berninis (1656-7).
Það er 340 m x 240 m og yfir því gnæfir mikilfenglegasta kirkja
kristninnar með fjórföldum, hálfhringlaga súlnagöngum (284 súlur og 88
stólpar í dórískum stíl).
Á brjóstriðinu eru 140 stórar dýrlingastyttur.
Á miðju sporböskjulöguðu torginu er
egypzkur einsteiningur (25,5m) frá dögum Kalicula (37-41).
Hún stóð í hringleikahúsi, sem Nero gerði að píslarvættisstað með
ofsóknum gegn kristnum (65 e.Kr.).
Báðum megin obeliskunnar eru 14 m háir gosbrunnar (1613-1575).
Móttökuhöll eða -salur páfa tekur 6.300 manns í sæti eða 12.000
standandi.
Móttaka er alla miðvikudaga kl 11:00.
Miðar fást alla þriðjudaga og miðvikudaga kl 09:00 - 12:00 á
skrifstofu Vatíkansins (inngangur um Portone di Bronzo).
Móttaka fyrir hópa er á mánudögum frá 09:00 - 12:00.
Gatan til vinstri framan við Péturskirkjuna, „Arco Delle
Campane”, liggur til Vatíkansins.
**Péturskirkjan, San Pietro in Vaticano
er vestantil á Péturstorginu.
Konstantín mikli byggði gömlu kirkjuna að beiðni Sylvesters I, páfa
(314-36) yfir gröf Péturs postula.
Hún var vígð árið 326.
Karl mikli var krýndur keisari fyrir háaltarinu í henni fyrir jólin
800. Krýninguna annaðist
Leo III, páfi. Síðar voru
fleiri keisarar krýndir þar.
Kirkjan var að hruni komin, þegar hún var rifin og hafizt handa
við byggingu nýrrar á tímum Júlíusar II, páfa árið 1506 eftir
teikningum Bramantes.
Hann hugsaði hana sem jafnarma kross með miðkúpli.
Að honum látnum (1514) tóku aðrir byggingar-meistarar við koll
af kolli, þar til Michelangelo kom til sögunnar 1547 og hannaði
hvelfinguna (132m).
Skyssur Bramantes og Michelagnlos voru lagðar til hliðar og form
latneska krossins tekið fram yfir.
Kirkjuskipinu og barokforhliðinni (112 m breið og 44 m há) var lokið
1614.
Péturskirkjan tekur allt að 60.000 manns. Nægt að fara upp í kúpulinn, sem er tvöfaldur.
*Katakombur hins heilaga Callixtus
voru upphaflega opinberlega viðurkenndur greftrunarstaður kristinna
manna sem heiðinna og voru nefndar Coemeteria (gríska =
hvíldarstaður).
Fram á 9.öld nutu þessar grafhvelfingar ásamt
píslarvottagröfunum almennrar virðingar og þess vegna var mikið af
beinum flutt þaðan í kirkjur, sem helgir dómar.
Síðar fóru katakomburnar í niðurníðslu og gamla nafnið gleymdist
jafnvel. Núverandi nafn
er komið frá grafstaðnum 'Catacumba', sem var við San Sebastiano.
Vísindalegar rannsóknir í Katakombunum hófust í lok 16.aldar.
Samkvæmt nýjum niðurstöðum voru Katakomburnar grafhýsi, sem í voru
haldnar sálumessur, en ekki griðastaður kristinna á flótta undan
ofsóknum eða til að messa.
Skipulag Katakombnanna er mjög einfalt,
þröngir gangar með líkaskotum upp alla veggi.
Þeir, sem ekki voru kristnir, létu sér nægja lítil skot fyrir öskuker.
Skotunum var lokað með marmara eða leirskífum.
Skreytingar (myndir eða styttur) bera keim af hverjum tíma.
Katakomburnar eru á
mörgum hæðum neðanjarðar.
Sérstaklega athyglisverð er páfahvelfingin (allt frá 3.öld). |