Pompei
í Campania er í 16 m hæð yfir sjó með u.þ.b. 12.000 íbúa.
Pompei er u.þ.b. 20 km suðaustan Napólí við rætur
Vesúvíusar.
Rústir gömlu Pompei eru eitthvert stórkostlegasta dæmið um
fornleifauppgröft heillar byggðar frá rómverskum tíma.
Austan rústanna er nýja byggðin, sem hét 'Valle di Pompei'
til 1929. Þar er kúpulkirkjan Santa Maria del Rosario, sem laðar að
sér ótal pílagríma hvaðanæva að ár hvert, einkum 8. maí og fyrsta
sunnudag í oktober.
Osker-þjóðflokkurinn
stofnaði líklega Pompei, sem varð rómversk eftir samniterstríðin
290 f.Kr. og blómstrandi héraðshöfuðborg á 1.öld e.Kr. með u.þ.b.
20.000 íbúa. Árið 63
e.Kr. eyddist borgin að mestu í jarðskjálfta.
Enduruppbyggingunni var ekki nærri lokið, þegar Vesúvíus gaus
árið 79 og gróf Pompei og Herkulaneum undir 6-7 m þykku gjóskulagi.
Aðeins hluta íbúanna tókst að komast undan og Pompei varð ekki
bjargað. Þeir, sem lifðu
af, náðu þó að grafa upp ýmis verðmæti og dýrgripi.
síðan á 18.öld hafa u.þ.b. 40% af bænum verið grafin upp
(borgarmúr 3,1 km) á skipulegan hátt.
Þótt hús og mannvirki séu meira og minna í rústum, gefst gestum
kostur á að sjá þar ummerki, sem gefa þeim einna bezta innsýn í
lifnaðarhætti fólks á þessum tíma.
Í nóvember 1980 olli mikill jarðskjálfti allmiklu tjóni.
Götur Pompei eru lagðar marghyrndum hraunhellum með
upphækkuðum gangstéttum.
Á gatnamótum eru líka hellur til að auðvelda gangandi vegfarendum
að fara yfir göturnar.
Djúp hjólför í hraunhellurnar benda til mikillar umferðar vagna. Á gatnamótunum eru líka brunnar.
Ámálaðar auglýsingar á húsum benda til borgarstjórakosninga og
auðséð er að graffitismi blómstraði þá sem nú.
Í rómversku húsi er fyrst komið inn í lítið anddyri (fauces ostium),
oft með litlum búðum eða verkstæðum (tabernae) sitt hvorum megin,
síðan í stóra forstofu með þaki, sem hallar inn á við að ferhyrndu opi
(compluvium), sem var notað til að safna regnvatni í ker (impluvium) á
gólfinu. til hægri og
vinstri og oft beint framundan eru svefnherbergi (cumiculae).
Frá fjórðu hlið aðalher-bergisins hússins (atrium) er komið inn í
stórt herbergi (tablinum).
Handan fremri hluta þess, þar sem tekið var á móti gestum, var
fjölskylduhluti hússins.
Húsagarður, umkringdur súlnagöngum (peristylium) var í miðju hússins
auk hliðargarðs (xystos).
Út að súlnagöngunum snéru eldhús (culina) og stofur (oecus).
Mörg hús voru tveggja hæða með svölum.
Gaman er að bera húsin í Pompei saman við fjögurra hæða húsin
(keisarastíll) í Ostia (fornleifauppgröftur). |