Padua Ítalía,
Flag of Italy


PADUA
Skoðunarverðir staðir
ÍTALÍA

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

PIAZZA CAVOUR er torg í gömlu miðborginni.  Sunnan þess byrjar hin fjörlega gata Via Febbraio.  Strax til hægri er "Caffé Pedrocchi", sem byggt var 1831 í klassískum stíl og var þá stærsta kaffihús Evrópu.  Það eyðilagðist gjörsamlega í s.h. en var endurbyggt í sömu mynd og hafði mikla þýðingu fyrir endurreisnina.  Þar hittast nú prófessorar og stúdentar.  Skammt sunnar er Palazzo Municipale (ráðhúsið) með forhlið frá 1930 og eldri bakhlið (16. öld).

Andspænis því við austanverða Via Otto Febbraio er háskólinn, sem byggður var á 16 öld.  Í garði hans og innandyra er fjöldinn allur skjaldarmerkja fyrirlesara, sem nutu akademískrar virðingar.  Við hlið áheyrendasalarins er kennslustóll Galileos og fleiri nafntogaðra prófessora og elzta kennslustofa í líffræði (1594).  Þar fóru fram fyrirlestrar um líffræði.

Tvær götur liggja frá háskólanum til vesturs að Piazza delle Frutta og Piazza delle Erbe.

Á milli þeirra er *Salone eða Palazzo della Ragione, dómshús, sem byggt var 1172-1219 og er nú notað fyrir sýningar og ráðstefnur (inngangur frá Piazza delle Erbe til hægri).  Í því er 81 m langur, 27 m breiður og 27 m hár *salur, sem var endurbyggður árið 1420.  Þar er stór tréhestur (frá 1466), eftirmynd af Gattamelatahesti Donatellos og á veggjum eru stjarnfræðilegar freskur frá 15. öld (endurnýjaðar).

Dómkirkjan er í háendurreisnarstíl með ófullgerða forhlið (1551-77).  Hægra megin við hana er Baptisterium, skrautleg bygging úr múrsteini (13. öld) með athyglisverðum freskum eftir Giusto de' Menabuoi (um 1380).

Sunnan háskólans er héraðsstjórahúsið (Präfektur).  Fyrir framan það er miðaldagrafhýsi hins þjóðsagnakennda stofnanda borgarinnar Antenor.

* Sant' Antóniusarkirkjan stendur við Piazza del Santo (Dýrlingstorg).  Óteljandi pílagrímar heimsækja gröf dýrlingsins Antóníusar árlega.  Hún er stórkostleg súlnabygging (1232-1307) í rómönskum, gotneskum og býzantískum stíl.  Upphaflega gerði Donatello altarismyndina (1446-50) en síðan 1895 er þar að sjá gamlar *myndir af  englum að leika á hljóðfæri, greftrun Krists o.fl.  Við hliðina á kirkjunni er

* *Riddarastyttan Gattamelata (Erasmo da Narni var herstjóri Feneyjahers 1438-41.  Hann var talinn lipur diplómat og því nefndur dílótti kötturinn) er stærsta bronsstytta sinnar tegundar allt frá fornöld.

Museo Civico (borgarsafnið; lokað á mánudögum), bókasafn, forngripasafn og málverkasafn (áætlað að koma því fyrir í nýrri byggingu).  Sunnan þess er fallegur grasagarður, hinn elzti í Evrópu.  Skammt vestan hans er Prato della Valle, sporbaugslaga torg með trjám og styttum af frægum íbúum Padua og háskólakennurum.  Við suðausturhorn torgsins er hin stórkostlega kirkja.

Santa Giustina, háendurreisnarbygging frá 1501-32.  Inni í henni, bak við háaltarið, er eitt beztu málverka Paolo Veronese, píslarvætti heilagrar Justinu (um 1568) og í kórnum er útskorinn predikunarstóll frá 1560.

Eremitani Ágústínusarkirkjan frá 13. öld skemmdist í s.h. en var endurreist.  Í Ovetari kapellunni eru frægar *freskur eftir Mantegna.

Kapellan Madonna dell' Arena (1303-05) var guðshús hallar, sem var rifin 1820.  Í tunnulaga hvelfingu hennar eru freskur** (1303-06) eftir Giotto, sem lýsa lífi Maríu og Krists.  Þetta er fyrsta og umfangsmesta verk Giottos, sem hefur varðveitzt svona vel, og er merkisteinn í sögu málverksins.

Nágrenni Padua:
Euganifjöllin
(Colli Euganei) eru suðvestan Padua og standa ótengd öðrum fjöllum á sléttunni (Monte Venta 577 m).  Þessar hæðir urðu til í eldgosum og mikið er um hveri og vinsæla heilsubótastaði (t.d. Abano Terme), þar sem stunduð eru leirböð við öllum mögulegum kvillum, s.s. gigt.

Frá Abano Terme er ekið um vínræktarhéruð eftir Vínleiðinni (Strada dei Vini), þar sem framleidd eru hvít-, rauð- og múskatvín.  Fjórum km vestan Abano Terme er Benediktaklaustrið Convento di Praglia, sem stofnað var árið 1080. 

Hverirnir við Montegrotto Terme eru vel þekktir.  Þar voru nýlega grafnar upp rústir rómverskra baða og leikhúss.

Strá er 11 km austan Padua.  Þar var sumardvalarstaður Feneyinga.  Í útjaðri bæjarins á milli Brentaskurðarins og Veraro, sem fellur í hann hér, er *Palazzo Pisani (eða Villa Nazionale; 18. öld).  Danssalur hallarinnar er prýddur loftmynd eftir Tiepolo (1762).

Este er rúmlega 30 km suðvestan Padua.  Bærinn stendur við Monte Calaone (415 m), 15 m.y.s. Íb. 17.000.  Hét í fornöld Ateste og var undir yfirráðum furstaættarinnar í Este árin 961-1288.  Í fyrrum Palazzo del Castello eða Palazzo Mocenigo (16. öld) er *Museo Nazionale Atestino, þar sem er að finna geysimargar minjar frá forsögulegum og rómverskum tímum.  U.þ.b. 15 km lengra til vesturs er bærinn.

Montagnana (16 m.y.s.; íb. u.þ.b. 10.000) með *borgarmúrum frá miðöldum (24 turnar með þaki), sem sjást bezt frá hringvegi um bæinn.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM