Napoli Ítalía,
Flag of Italy


NAPOLI
ÍTALÍA

.

.

Utanríkisrnt.

 

Napoli í Campaníu er í 10 m hæð yfir sjó og íbúafjöldinn er u.þ.b 1,3 milljónir.  Suður-ítalska hafnarborgin Napólí var eitt sinn höfuðborg samnefnds konungsríkis en nú höfuðborg héraðsins auk þess að vera háskóla- og erkibiskupssetur.  Hún er þriðja stærsta borg landsins og stendur norðanvert við hinn fagra Napólíflóa (Tyrríska hafið).  Í gamla bænum eru víða þröngar tröppugötur og há hús með svölum.  Í vestur- og norður-hlutanum eru einbýlishús en iðnaður í austurhlutanum.  Napólí breyttist allmikið vegna skemmda í síðari heimsstyrjöldinni og endurskipulagningar eftir hana, s.s. gatnagerð við höfnina.  Í borginni eru mörg minnismerki og styttur frá u.þ.b. 3000 ára sögu hennar, einkum minjar í söfnum frá bæjunum við Vesúvíus.  Í nóvember 1980 urðu miklar skemmdir í jarðskjálftum.

Stofnun Napólí má rekja til Grikkja.  Þegar á 8.öld f.Kr. settist þar að fólk frá Rhodos, sem nefndi byggðina 'Parthénope'.  Á 5.öld f.Kr. kom fólk frá Euböa (Chalkidear), sem reisti nýja borg og kallaði Neapolis.  Bandalagið við Rómverja sameinaði borgríkin þrjú, sem héldu sjálfstæði sínu og grískum hefðum vegna góðra samskipta, þar til á keisaratímanum.  Stórmenni Rómar dvöldu gjarnan í Napólí, m.a. lauk Virgil þar fegurstu ljóðum sínum.  Á þjóðflutningatímanum lögðu gotar Napólí undir sig (543) en borgin varðist síðan (frá 553) öllum árásum með aðstoð frá Byzans.  Það var ekki fyrr en 1139, að Napólí var innlimuð í konungsríkið Sikiley (Roger II).  Barnabarn Rogers II, Friðrik II, stofnaði háskólann árið 1224.  Undir Karli frá Anjou (1266-85) varð Napóli höfuð-borg samnefnds konungsríkis.  Árið 1442 endursameinaði Alfons I frá Aragóníu Napólí og Sikiley.  Árin 1503-1707 bjuggu spænskir varakonungar í borginni.  Í spænska erfðastríðinu komst borgin undir Habsborgara (1713) og í austurríska erfðastríðinu undir Búrbóna.  Síðan 1860 hefur Napólí tilheyrt Ítalíu.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM