Gardavatnið Ítalía,
Flag of Italy


GARDAVATNIÐ
ÍTALÍA
.

.

Utanríkisrnt.

 

Hið djúpbláa Gardavatn hét áður Lacus Benacus, en heitir nú Lago di Garda.  Yfirborðið liggur 65 m.y.s.  Vatnið er 370 ferkílómetrar (Þingvallavatn er 83,7 km².) og er allt að 356 m djúpt.  Það liggur í jökulsorfnum dalkatli á milli Feneyja- og Lombardihéraða.  Afrennsli vatnsins er Minicio, sem rennur til Pó.  Jökulöldur Etschjökuls, sem hopaði í ísaldarlok, eru rammi vatnsins í suðri, brattar fjallahlíðar í vestri og langur kalkhryggur í austri.  Norðurhluti vatnsins með Riva og Torbole tilheyrði Austurríki til 19l8.  Loftslag er mjög milt, þótt hvassar norðan- og sunnanáttir geti ýft upp háar öldur líkt og á íslenzkum fjallavötnum.  Gróður er mikill og að hluta til einkennisplöntur Miðjarðar- hafsstranda, ólífutré, pálmar, sedrusviður og magnólíutré.  Ágætisveiði er í vatninu.  Hringferð um vatnið (134 km) er ógleymanleg fyrir ýmissa hluta sakir, landslag smábæi, vegagerð, gróður o.fl.  Vegurinn meðfram vesturströndinni er einstakur, m.a. vegna hinna mörgu ganga og vegskála, og heitir * Gardasana Occidentale.  Vegurinn að austanverðu gefur hinum lítið eftir og er kallaður *Gardasana Orientale.

RIVA del GARDA.  70 m.y.s.  Íb. 13.000.  Heilsubótarstaður á veturna og ráðstefnustaður.  Yfir staðnum vestanverðum gnæfir Rocchetta (1527m) með varðturni efst frá feneyskum tímum.  Mikilvægasta miðstöð umferðar er höfnin með bogagöngum og stórum, gömlum klukkuturni.  Riva var síðasta vígi Austurríkismanna í Efri-Ítalíu  Við austanvert vatnið er Piazza Carducci með góðu útsýni yfir vatnið og þar rétt hjá er höll Skaligaættarinnar, La Rocca (12.-15. öld).  Við veginn til Arco er barokkirkjan Inviolata frá 1603.  Við sunnanverðan bæinn er Ponale-raforkuverið (1925-28; 88.000 kw) með 6 km löngum aðfærslustokki úr Ledrovatni, sem liggur 585 m hærra.

GARGNANO.  98 m.y.s.  Þar hefst * Riviera Bresciana.  Villa Feltrinelli, rétt norðar, var setur Mussulinis frá því í september 1943 til apríl 1945.

BOGLIACO.  Höll greifans Bettoni.

TOSCOLANO-MADERNO.  70 m.y.s.

GARDONE.  Baðströnd.  Vinsæll bær vegna mildrar veðráttu og suðræns gróðurs.  Vinsæll heilsubótarstaður.  * Grasagarður Dr. Hruska.  Villa Vittoriale degli Italiani var síðasti bústaður skáldsins Gabriele d'Annunzio (1863-1938; minjasafn).  Skáldið var svarinn andstæðingur Habsborgara, valdaættarinnar í Austurríki, sem réði lengi lögum og lofum víða á Norður-Ítalíu.  Hann tók upp á því að fljúga tvíþekju aleinn til Vínar og dreifði þar flugritum yfir borgina með hæðnisorðum um Habsborgara.

SALÓ.  75 m.y.s. Íb. 10.000.  U.þ.b. 1000 whiskytegundir fást í Whiskythek.  Í Lungolago bjó Gasparo da Saló, maðurinn, sem smíðaði fyrstu fiðluna (1542-1609).  Þar sat ríkisstjórn fasista frá 8. september 1943.  Sóknarkirkjan, Santa Maria Annunziata (gotnesk; 1453).

DESENZANO.  69 m.y.s.  Íb. 18.000.  Gamall kastali og rústir rómverskrar hallar með mósaíkverkum frá 3. öld.  Kristján Jóhannsson, stórsöngvari, býr þar.

SOLFERINO.  132 m.y.s.  U.þ.b. 15 km sv. Desenzano.  Hinn 24. júní 1859 sigruðu þar Frakkar undir Napoleon III Austurríkismenn (Stríðsminjasafn; beinasafn).  Eymd særðra hermanna í orrustunni gaf Svisslendingnum Henri Dunant hugmyndina að stofnun Rauða krossins, sem stofnaður var 1863.

SIRMIONE.  Gullfallegur bær yzt á mjóum skaga norður í vatnið frá suðurströndinni.  Þar átti rómverska skáldið Catull (84-54 f.Kr.) bústað.  Staðurinn var notaður til brennisteinsbaða.  Þar er Skaligerhöll, sem var endurnýjuð á 13. öld, með góðu útsýni úr turni.  U.þ.b. 1 km norðan bæjarins á Punta di Sirmione eru útsýnispallar á síðrómönskum grunni (Grotte di Catullo).  Kristján Jóhannsson, stórsöngvari, býr ásamt fjölskyldu sinni í grennd bæjarins.

PESCHIERA del Garda.  68 m.y.s.  Íb. 8.000.  Mjög víggirtur bær, þar sem Minicio rennur úr vatninu.

TÓRBOLE.  70 m.y.s.  Fallegur fiskibær við rætur gróðurlausra kletta við norðausturhorn vatnsins.  Á aðaltorginu er minningartafla um Ítalíuferð Goethes.

Sigling um vatnið endilangt tekur 1,5-2 tíma með skíðabát (á milli Riva og Desenzano) og enginn, sem hefur tíma, skyldi láta hana fram hjá sér fara.  Skíðabátarnir fara hringinn þrisvar á dag.  Hægfara skipin fara tvisvar á dag frá Riva og eru 4,5 tíma á leiðinni til Desenzano, þannig að heildarsigling yrði 9 tímar í stað í mesta lagi 4 tímar með skíðabátunum. 

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM