Ísrael menning saga,
Flag of Israel


ÍSRAEL
MENNING og SAGA

.

.

Utanríkisrnt.

Þróaðrar borgarmenningar fór fyrst að gæta í Jeríkó á áttundu teinöld f.Kr., þegar byggð voru hringhús og 8,5 m hár sívalur turn með steintröppum við 3 m þykkan og 4 m háan vegg, sem var líklega hluti borgarmúranna.  Fundizt hafa leifar ferningslaga húsa á sama stað frá sjöundu teinöld f.Kr. og höfuðkúpur, sem voru notaðar til skrauts.  Löngu síðar, á  eftir að Jeríkó og aðrir bæir höfðu verið yfirgefnir, hófu hirðingjar fasta búsetu þar á 5. teinöld f.Kr.  Minjar frá 4. teinöld f.Kr eru m.a.  koparmunir og neðanjarðarþorp í Negeveyðimörkinni (beershevamenning).  Frá því u.þ.b. 3000 f.Kr. standa rústir víggirtra þorpa, Megiddo, Gezer, Lachish, Arad o.fl.

Þegar hebrear komu, voru þeir hirðingjar.  Þeir fóru að taka sér fasta búsetu á 13.-12. öld f.Kr. án nokkurrar sérstöðu í byggingar- eða myndlist.  Í 2. Mósebók, 37 versi, segir frá gerð sáttmálsarkarinnar, sem var fagurlega útskorin.  Salómon konungur naut aðstoðar fagmanna frá Tyros í Fönikíu við byggingu fyrsta hofsins á 10. öld f.Kr.  Ísraelsmenn voru kreddufullir og börðust stöðugt gegn nágrönnum sínum og utanaðkomandi yfirráðum, sem gerði það að verkum, að list þeirra þróaðist ekki sem skyldi.  Trúarlegir og sögulegir þættir í andlegu lífi þeirra, sem komu síðar fram í gamla testamentinu og öðrum trúarritum, ollu einstrengingslegri trú þeirra á ritninguna.

Þessi þróun breyttist við innreið fornmenningar Grikkja á 3. öld f.Kr. og Rómverja á 1. öld f.Kr.  Þá voru byggð leikhús, skeiðvellir, hof og vatnsleiðslur eins og finnast annars staðar á fyrrum yfirráðasvæðum þessara þjóða en þó mismunandi eftir þeim áhrifum, sem hefðir og siðir innfæddra höfðu á byggingarlistina o.fl.  Heródes lét reisa stórkostlegar byggingar vítt og breitt um landið.  Banni við myndgerð manna og dýra (skurðgoð) úr mósaík var framfylgt fullum fetum nema í höll Heródesar Antipas í Tíberías, þar sem gerðar voru myndir af dýrum.  Þær voru dæmdar ólöglegar og eyðilagðar við fyrsta tækifæri.  Þetta myndabann var afnumið frá og með 3. öld e.Kr.  Sýnagógur í Gaíleu voru prýddar myndum af mönnum og dýrum og gríski sólguðinn Helíos var jafnvel notaður sem miðpunktur dýrahringsins.  Í sýnagógu í Dura Europos við Efrat (3. öld) voru myndir byggðar á biblíunni.  Grafsiðir voru grísk-rómverskir og palmýrískir og líkkistur voru skreyttar þjóðsagnakenndum verum.

Á fjórðu öld fór áhrifa kristninnar að gæta verulega samhliða þessari þróun.  Frá tímum Konstantíns keisara og enn frekar á valdatíma Justiníans keisara á 6. öld voru byggðar æ fleiri kirkjur og klaustur.  Samtímis byggðust borgir og stækkuðu í Negeveyðimörkinni.  Þær tengdust byggðum og vatnsveitum arabaþjóðarinnar Nabatea.  Síðan réði íslömsk menning ríkjum á 7.-11. öld og Omanakalífar létu reisa helgidóma, hallir og kastala.  Allt fram á 8. öld hafði sambærilegt myndabann múslima ekki áhrif á skreytingar mannvirkja.

Á krossferðatímanum blandaðist vesturevrópsk menning þeirri, sem var fyrir, og vestræn  12. og 13. aldar (gotnesk) byggingarlist kemur fram í köstulum og kirkjum þessa tímabils.

Næsta tímabil einkenndist af íslömskum áhrifum, einkum á tímum osmana (1517-1917) og mörg mannvirki hafa varðveitzt frá því.  Kristinna áhrifa gætti í vaxandi mæli á þessum tíma eins og sést í klaustrum og kirkjum.

Síðasta skeiðið hófst með stofnun Ísraelsríkis 1948.  Þá blönduðust byggingarstílar víða að frá Evrópu og BNA saman við sögulegar byggingar fortíðarinnar.

Hinn 14. maí 1948, deginum áður en yfirráðum Breta lauk á svæðinu, lýsti þingið yfir stofnun Ísraels og fyrsti forseti þess varð Chaim Weitzmann (til 1952.  Frelsissveitir araba höfðu þegar komið sér fyrir í Galíleu í janúar sama ár og í apríl náðu þær Haifa undir sig.  Þessar aðgerðir voru upphaf stríðs, sem leiddi til þess, að Ísraelsmenn náðu undir sig mestum hluta þess lands, sem þeim var ætlað, þrátt fyrir lakan útbúnað og undirbúning til þessara átaka.  Þeir náðu undir sig Galíleu, svæðunum meðfram Miðjarðarhafinu og leiðinni til Vestur-Jerúsalem.  Þegar hlé varð á og samið var um vopnahlé, stóðu Ísraelsmenn með pálmann í höndunum og landvinningarnir voru látnir ráða framtíðarlandamærum landsins.  Austur-Jerúsalem og arabísk svæði í Vestur-Jórdaníu tilheyrðu jórdanska konungsríkinu.  Síðan þetta vopnaskak hófst hefur ekki ríkt friður í neinn teljandi tíma milli araba og Ísraelsmanna.  Í stríðinu milli Ísraels og Egyptalands í október 1956 náðu gyðingar Gazasvæðinu og Sínaískaga undir sig.  Þeir létu hið síðarnefnda aftur af hendi næsta ár.  Í Sexdagastríðinu 5-10/6 1967 hernámu Ísraelsmenn Sínaískagann aftur auk Vestur-Jórdaníu, Gólanhæðir og Austur-Jerúsalem, sem þeir innlimuðu strax.  Jom-Kippurstríðið í október 1973 endaði með samkomulagi um, að Ísrael skilaði m.a. Sínaískaga og jórdönsku svæðunum á Austurbakkaðnum.

Árið 1977 heimsótti Egyptalandsforseti (Sadat) Jerúsalem og rétti fram sáttahönd.  Eftir friðarviðræður milli Ísraela og Egypta undir eftirliti BNA náðust samningar milli ríkjanna 1978.  Árið 1980 lýstu Ísraelar því yfir, að austurhluti Jerúsalem yrði óaðskiljanlegur hluti Ísraelsríkis og borgin höfuðborg þess um alla framtíð.  Þessar aðgerðir juku spennuna og ollu mikilli gagnrýni á stefnu Ísraela um allan heim.

Þrátt fyrir alla viðleitni til að stilla til friðar milli Palestínumanna og Ísraela á Gazasvæðinu og Vesturbakkanum, hefur ekki enn þá (2003) tekizt að stöðva blóðbaðið.  Bandaríkjamenn hafa löngum haft milligöngu um friðarviðræður.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM