Gamla
borgin og Austur-Jerúsalem.
Best er að byrja skoðunarferðina við Damaskushliðið
(Shechem-hliðið), sem er á milli nýju hverfanna í norðri og gömlu
borgarinnar í suðri. Suleyman II soldán lét reista þetta fallegasta hlið
borgarinnar á grunni borgarmúra Heródesar.
Þaðan liggur lífleg
Basargatan (Zuq Khan ez-Zeit) til suðurs yfir Via Dolorosa.
*Grafarkirkjan.
Aðeins
sunnar til vinstri, beint á móti stóru, grísku klaustri, liggur sund
að Grafarkirkjunni (arabíska = Keniset el Kijame =
upprisukirkjan), sem er mesti helgistaður kristinna manna úr öllum trúarflokkum.
Hana prýðir kúpull með gylltum krossi, sem sést víða að.
Grafarkirkjan stendur líklega á Golgatahæðinni (Golgotha = höfuðkúpa),
þar sem Kristur var krossfestur. Þarna
hafa staðið margar kirkjur og kapellur, sem stöðugt voru endurnýjaðar
eða endurbyggðar og allir trúarflokkar (rómversk-katólskir, rétttrúaðir,
koptar o.fl.). Hin helga gröf
uppgötvaðist á dögum Konstaníns keisara og hann lét reisa þar
hringlaga kirkju og
fimmskipa basilíku helgaða hinum heilaga krossi árið 336.
Eusebius frá Sesaríu, höfundur elztu kirkjusögu heims († um
340), segir frá þessum atburðum, en til er frásögn frá því í
lok fjórðu aldar um pílagrímsferð heilagrar Helenu († um 330), móður
Konstantíns, til Golgata, þar sem hún er sögð hafa fundið hinn
heilaga kross.
Persar
brenndu báðar kirkjurnar árið 614.
Helgidómurinn, sem Modestus ábóta Teodósiusklaustursins byggði
þar á ný á árunum 616-626, var oft eyðilagður.
Í byrjun 12. aldar fólu krossfararnir Jourdain
byggingarmeistara að reisa stórhýsi í rómverskum stíl, sem náði
yfir flesta helga staði á svæðinu og enn þá sjást merki um þessa
byggingu. Saladín og síðar
karesmiar (1244) ollu spjöllum á svæðinu en árið 1310 er sagt frá
nýrri og fallegri kirkju á Golgata.
Enn varð tjón á mannvirkjum á hæðinni árið 1808, þegar nýbygging
frá 1719 brann. Þá
endurnýjuðu Armenar og Grikkir byggingarnar 1810.
Þá var var komið fyrir hinu gríska „Katholikon” í miðju
kirkjuskipi krossfarabasilíkunnar og kúpull hennar var endurbættur
eftir jarðskjálfta árið 1927. Árið
1949 olli bruni miklu tjóni á ný og á árunum 1958-77 stóðu allir
kristnu trúarflokkarnir að umfangsmiklum endurbótum og endurbyggingu
kirkjunnar. Til vinstri í
forgarði kirkjunnar er klukkuturninn, sem var upprunalega sérstæður.
Forhlið kirkjunnar, sem var styrkt með járnrenningum árið
1935, er að mestu leyti frá tímum Konstantíns.
Innviðir
Grafarkirkjunnar.
Í suðurarmi þverskipsins er smursteinninn, þar sem Nikódemus
smurði lík Krists (Jóhannes 19,38-40).
Til vinstri er komið inn í hringbygginguna, þar sem stendur
byggingin yfir gröfina heilögu, sem var endurnýjuð 1810.
Inngangurinn í hana er um Engilskapelluna.
Burðarsúlur hringbyggingarinnar, sterkbyggðir útveggirnir að
vestanverðu og altarisskotin þrjú eru frá dögum krossfaranna.
Við hina heilögu gröf er 14. þrep göngunnar um Via Dolorosa.
Austurhluti kirkjunnar er andspænis gröfinni heilögu.
Þar er hið gríska Katholikon.
Oddbogagluggarnir, knippissúlurnar og krosshvelfingin bera enn
merki krossfaratímans. Í miðjum framhlutanum er marmaraskál með kúlum, sem er tákn
um miðju heimsins.
Aðalkapellan
í svokallaðri Vitunarkirkju var byggð á 14. öld fyrir rómversk-katólska,
þar sem Kristur birtist móður sinni.
Í skoti í veggnum er varðveitt brot af hýðingarsúlunni. Við kórganginn í austurbyggingunni eru þrjú kapelluskot.
Hin syðsta er Kapella þyrnikrýningarinnar með súlu háðungarinnar.
Vinstra megin kapellunnar liggja 29 þrep niður í hina armensku
Helenukapellu, þar sem basilica Konstantíns stóð á grunni kirkju
Modestus. Þrettán þrepum
neðar er Krossfundarkapellan. Tröppurnar hægra megin við Þyrnikrýningarkapelluna
liggja upp að báðum Golgatakapellunum með Stabat-Mater-altarinu og
hinni katólsku Krossneglingarkapellu, sem teljast vera 10.-13. þrep
Via Dolorosa.
Við
torgið sunnan Grafarkirkjunnar er Muristan, 155 m langt og 137 m breitt
hverfi, þar sem evrópskir pílagrímar voru hýstir allt frá 9. öld
og annast um sjúka. Jóhannesarmunkar
byggðu þar fagrar byggingar árið 1140.
Þar í grenndinni er Lausnarkirkjan, sem stendur á grunni
krossfarakirkju. Hún var vígð
að viðstöddu þýzku keisarahjónunum árið 1898.
*Gott útsýni úr turni kirkjunnar.
Við hliðina á kirkjunni er Þýsk-evangelíska stofnunin fyrir
fornleifarannsóknir í landinu helga.
Sunnar er gamli basarinn. Nýi
basarinn er vestan Muristangötu og þar er yfirráðasvæði gríska
patríarkaráðsins. Muristanhverfið
nær að Davíðs- og Keðjugötunum, sem eru aðalumferðargötur gamla
bæjarins, sem tengja Musterishæðina við Jaffahliðið.
Göturnar til suðurs, Gyðingahverfisgata og suq El-Hussor
liggja að Síonshliði og utan þess að Síonshverfinu.
Við Jóhannesklaustrið sveigir Kristnigata með aragrúa
verzlana til norðurs. Frá
henni liggur sund að Nýja basar.
Davíðsgatan endar vestar við Omar Ibn El-Khattabtorg og
Jaffahliðið (Bâb el-Chalil), sem snýr að vestari nýja
borgarhlutanum. Við hliðið stendur 15.-16. aldar virki, sem stendur á
grunni hallar Heródesar og norðausturturninn samsvarar Phasaelturni
Heródesar. Þar er safn um
sögu Jerúsalem.
Gamli
basarinn, rétt austan Muristanhverfisins, er ósvikinn austurlenzkur
basar. Hann er við þrjár
samsíða götur (Suq el-Lahhamin, el-Attarin og el-Khavajat), sem
tengjast aðalgötunum milli Síons- og Damaskushliðanna.
Miðgatan teygist lengra norður undir nafninu Khan ez-Zeit og við
Via Dolorosa er hægt að ganga um blindgötu til vinstri að Abessíníska
klaustrinu. Aðeins sunnar er Koptíska klaustrið, þar sem er 9. þrep
Via Dolorosa.
Via
Dolorosa,
píslarvegurinn, sem Jesús gekk með krossinn á bakinu frá bústað Pílatusar
upp á Golgatahæð, var fyrst nefndur á þessum slóðum á 16. öld.
Leiðinni er skipt í 14 áfanga eða þrep, sem eru merkt með töflum.
Síðustu fimm þrepin eru inni í Grafarkirkjunni og hin fjögur
fyrstu eru milli Armenska klaustursins (nr. 4) og Antoniavirkisins (nr.
1), sem er handan Ecce-Homo-bogans sunnan Al-Mujahideenhverfisins.
Ljónshliðsvegurinn liggur að Ljónshliðinu, sem er líka
nefnt Hlið hl. Stefáns. Um
það fóru íraelskir hermenn í Sexdagastríðinu 1967 inn í Gömlu
borgina. Leiðin að
Getsemanegarðinum og upp á Olíufjallið liggur líka um þetta hlið.
Innan hliðsins
liggur sund að Kirkju hl. Önnu (Es-Salahije), sem er velvarðveitt
minnismerki frá tímum krossfaranna (12.öld).
Hún er sögð standa á grunni húss Jóakims og Önnu, foreldra
Maríu. Grafhvelfing hennar
er meitluð inn í bergið. Sagt
er, að María hafi fæðzt þar og þar er nú lítið safn.
Á
bakaleiðinni um Via Dolorosa er annaðhvort hægt að snúa til hægri
um El-Wadveginn að Damaskushliðinu eða til vinstri um Typropöon að *Musterishæðinni.
*Musteristorgið (Haram esch-Scharif) er áhugaverðasti
staður Jerúsalem. Leiðin þangað liggur um Bab en-Nadhir, sem Múhameð
en-Nadhir byggði 1318 eða um Mýrarhliðið við grátmúrinn.
Þessi staður var líka trúarlega mikilvægur á forkristilegum
tímum. Davíð konungur
reisti þar altari í kringum 1000 f.Kr. (II Samúlesbók 24,25).
Höll Salómons konungs og musteri hans stóðu þarna og gyðingar
reistu þar fögur musteri þar eftir heimkomuna úr útlegðinni á árunum
520-516 f.Kr. Þriðja
musterið, sem Heródes hinn mikli byrjaði að byggja 20 f.Kr., var
aldrei fullklárað. Hadrían
keisari lét reisa stórt Júppítermusteri, sem var aðalhelgidómur
borgarinnar meðan hún hét Aelia Capitolina.
Lítið er vitað um byggingar á hæðinni á fyrstu öldum
kristninnar. Þessi staður
er næstheilagasti staður múslima á eftir Mekka.
Strangtrúaðir gyðingar stíga aldrei fæti á Musteristorgið
fyrir hræðslu sakir.
Torgið
hvílir á grunni stórbygginga frá tímum Heródesar. Austurhliðin er 474 m löng, vesturhliðin 490 m, norðurhliðin
321 m og suðurhliðin 283 m. Á
því miðju er Klettakirkjan og El Aqsamoskan við suðurmúrinn. Í norðvesturhorninu, þar sem Antoniavirkið og
Makkaeakastalinn stóðu, er hæsta mínaretta musterissvæðisins.
Víða á torginu eru „mastabas”, upphækkanir með bænaskotum
(mihrab) og brunnar (sebils), sem múslimar nota til skylduþvotta fyrir
bænir. Margar og sumar djúpar
vatnsþrær frá ýmsum tímum eru undir torginu, einkum suðvestan
kirkjunnar. Þriggja metra háar tröppur liggja upp á pall kirkjunnar.
Aðgangur að þeim er við vesturhliðina nema á föstudögum.
Allir, sem fara inn í moskuna verða að fara úr skónum og
konur verða að vera í fötum, sem hylja líkamann.
*Klettakirkjan (Kubbet ex-Sachra á arabísku). Fyrrum
var henni ranglega lýst sem Omarmoskunni og krossfararnir héldu að hún
væri Salómonsmusterið. Hún
stendur gnæfir yfir heilaga klettinum, þar sem gyðingamusterið stóð.
Omaijadinn Abd el Melik lét reisa hana árið 72 (tímatal
islams) eftir flótta Múhameðs (691-692) af pólitískum ástæðum,
því að Omaijödum var meinaður aðgangur að Kaaba í Mekka.
Byggingin líkist basilíku í síðgotneskum og rómverskum stíl,
átthyrningur (hver hlið 20,5 m) með 53 m þvermáli og tveimur hringgöngum.
Yfir hinum innri hvelfist *kúpullinn upp í 30 m hæð.
Útveggirnir eru enn þá prýddir gömlu marmaraplötunum.
Ofan gluggakistanna voru veggirnir prýddir glermósaík frá dögum
Suleymans, sem nú skarta fögrum, persneskum fayenceflísum.
Árið 1066 lét Ez-Zahir (1021-36) endurnýja kúpulinn og
Saladin lét skreyta hann. Yngsti
hlutinn er vesturinngangurinn.
Í
miðjunni innan innri gangsins stendur heilagi kletturinn upp úr gólfinu
(1¼-1 m hár 13 m breiður og 18 m langur; Es-Sachra).
E.t.v. stóðu brennisfórnir gyðinga þar fyrrum. Hellirinn
undir honum var líklega vatnsþró fyrrum (16 þrep).
Ólíklegt þykir að æðstaráð gyðinga hafi átt sér
fundarstað þarna. Samkvæmt
gyðingatrú og islam er kletturinn staðurinn, þar sem Abraham ætlaði
að fórna syni sínum, Ísak, og þar sem Múhameð var hrifinn til
himna á undrahestinum Burak. Þegar
að heimsenda kemur, verður hásæti guðs sett á þennan klett.
Handan
austurhliðs Klettakirkjunnar er hin svonefnda Keðjukirkja eða Kubbet
es-Silsele og líka Dómstorg Davíðs (Mahkamet Daud) frá sama tíma
og Klettakirkjan. Að
utanverðu er hún sexköntuð en að innan ellefukantaður súlnasalur.
Stóra bænakróknum við suðurhliðina (í átt til Mekka) var
bætt við á 13. öld. Neðan
við suðurtröppurnar frá Klettakirkjunni er hringlótt tjörn
(El-Kas) fyrir framan El-Aqsamoskuna.
*El-Aqsamoskan
(Mesdschid el-Aksa) er meðal helgustu véa islam fyrir tíð Múhameðs.
Ekki eru allir á einu máli um tilkomu hennar og flestir telja,
að Justinian hafi látið reisa basilíku til heiðurs Marias.
Aðrir telja hana hafa verið byggða á svipuðum tíma og
Klettakirkjan. Hún
skemmdist oft í jarðskjálftum og á 8. öld lét El-Mehdi (775-785)
endurbyggja hana. Krossfararnir
kölluðu hana Musteri herrans. Þar
bjuggu konungar um tíma og síðan tiddarar.
Núverandi mynd hennar varð til á árunum 1327-1330 (Múhamed
en-Nadhir) og fátt eitt er eftir af upprunalegri basilíku annað en
grunnurinn og nokkrar súlur. Moskan,
án viðbygginga, er 80 m löng og 55 m breið.
Árið 1951 var Jórdanskonungur, Abdullah, langafi núverandi
konungs, skotinn, þegar hann var að fara inn í hana.
Í Sexdagastríðinu varð hún fyrir skotum og 1969 var kveikt
í henni. Síðan hefur verið gert við hana. Útskorni trépredikunarstóllinn
er frá 12. öld, gjöf frá Saladín.
Hann skemmdist talsvert í brunanum 1969.
Mósaíkverkið á gullgrunni háhvelfingarinnar er líka gjöf
frá Saladín. Bænakrókurinn
með fallegu marmarasúlunum er frá sama tíma.
Konur biðjast fyrir í Hvítu moskunni (frá tímum
musterisriddaranna) í þverskipinu vestanverðu.
Í
suðausturhorni musterissvæðisins liggja tröppur niður að svokölluðum
hesthúsum Salómons. Þau
voru líklega byggð á eldri undirstöðum á arabískum tímum og
Frankakonungar og riddarar notuðu húsin sem hesthús.
Frá múrnum milli Jaffa- og Ljónshliðsins er gott útsýni
yfir Kidrondalinn og til Olíufjallsins.
Eina hliðið í austurmúrnum er Gullna- eða Náðarhliðið,
sem er í núverandi mynd frá 7. öld e.Kr.
*Grátmúrinn (Kotel Ma’aravi = Vesturmúrinn) er utan musterissvæðisins suðvestanverðs.
Hann er 48 m langur og 18 m hár og stendur á undirstöðum
gamla musterisins (fornleifauppgröftur). Gyðingar biðja þarna til að minnast tortímingar
musterisins og skilja gjarnan eftir miða með bænum sínum og óskum
í rifum múrsins. Torgið
við Grátmúrinn var stækkað eftir Sexdagastríðið.
Sunnar er svokallað Mykjuhlið.
Rockefellersafnið
eða Forgripasafn Palestínu er við norðausturhorn Gömlu borgarinnar.
John D. Rockefellar yngri stofnaði það og opnaði árið 1934.
Þar er að finna muni frá fornöld til rómversks tíma.
Árið 1924 uppgötvuðust höfuðkúpur frummanna frá síðsteinöld,
skyldum Neanderdalsmanninum, vestan Genesaretvatns.
Árið 1948 fundust **handritarúllur í leirkerjum í Qumran við
Dauðahafið (Dauðahafshandritin með ritum gamla testamentisins frá
3. öld f.Kr. til 1. aldar e.Kr.) og hluti þeirra er í safninu.
Maríugröfin
er austan múra Gömlu borgarinnar við veginn frá Ljónshliðinu í
Getsamegarðinn og að Olíufjallinu.
Þar er fallegt hlið frá krossfaratímanum og forgarður.
Gengið er niður 48 þrep til að komast inn í grafhýsið, sem
var meitlað í bergið. Svikakapellan
er skammt frá. Þar fann
Kristur lærisveinana sofandi eftir síðustu kvöldmáltíðina á Síonsfjalli,
þegar hann hafði brugðið sér afsíðis til að biðja og þar sveik
Júdas hann.
Getsemanegarðurinn
(getsemane = olíupressa) er suðaustan Gömlu borgarinnar.
Hann er umgirtur múr og í honum standa enn þá átta eldgömul
ólífutré (líklega frá 15.öld).
Byggingu Getsemanekirkjunnar lauk árið 1927.
Forhlið hennar er í býzantískum stíl.
Inni í henni er kletturinn, sem Kristur bað við.
Alexander III, Rússakeisari, lét reisa Maríu-Magdalenukirkjuna
til minningar um móður sína árið 1888.
Þar hvílir stórfurstafrúin Elísabet Feodorowna, sem var myrt
1918. Dominus Flevitkirkjan
(1955) stendur á grunni kirkju frá 5. öld.
Þarna er talið að Jesús hafi fengið að vita um örlög Jerúsalem
og grátið (Lúkas 19, 41). Aðeins
sunnar er neðanjarðargröf spámannanna, grafreitur gyðinga og
Intercontinentalhótelið. Uppi
á Olíufjallinu er þorpið Et-Tur eða A-Tur með Faðirvorskirkjunni,
þar sem Kristur er sagður hafa kennt lærisveinunum Faðirvorið (Lúkas
2, 11). Í kirkjunni eru töflur
með bæninni á 50 tungumálum.
Olíufjallið; 805m; hebr.: Har Ha-Mishkha = Smurfjallið; arab.:
Djebel et-Tur) er fasttengt minningunni um dvöl Krists á jörðinni.
Þar kynnti hann lærisveinunum yfirvofandi tortímingu
musterisins (Markús 13, 1 ff) og þaðan hélt hann við fagnaðarlæti
fólksins innreið sína í Jerúsalem (Matteus 21; Markús 11; Lúkas
19; Jóhannes 12). Samkvæmt
guðspjöllunum steig hann upp til himna frá Olíufjallinu.
Uppstigningarkapellan var byggð á árunum 1834-35 í þorpinu
Et-Tur. Þar er sagt vera fótafar
Jesús. Kirkjan þjónar nú
sem moska. Aðeins austar
er rússneska uppstigningarkirkjan með 60 m háum klukkuturni (214 þrep),
sem er ekki alltaf opinn en þaðan er stórkostlegt útsýni yfir
borgina og alla leið að lægð Dauðahafsins, Jórdandalnum og til blárra
Moabitfjalla með Nebofjalli (806m), þaðan sem Móses sá fyrirheitna
landið (Móses 34).
Kidrondalurinn
er
aðgengilegur eftir göngustíg 200 m sunnan Maríugrafarinnar.
Dalurinn heitir Wadi Sitti Marjam á arabísku.
Hann er ranglega nefndur Jósafatsdalur á einum stað í gamla
testamentinu (Jóel 3, 7) á 4. öld e.Kr.
Hann var álitinn staður hins æðsta dóms á forkristilegum tímum
og þess vegna grófu bæði gyðingar og múslimar sína látnu þar,
hinir fyrrnefndu í austurhlíðum Musterisfjallsins og hinir síðarnefndu
í vesturhlíðum Olíufjallsins. Þarna
vex mikið af kristþyrni (paliurus spina Christi), sem þyrnikóróna
Krists hefur vafalítið verið fléttuð úr.
Vinstra megin við gangstíginn er Absalomsgröfin og lengra er
Jakobushellirinn, líka klettagröf og pýramídi Sakarías (allar frá
grísk-rómverskum tímum). Maríulindin
er neðan fjallaþorpsins Siloa, sem er líklega hið sama og kallað er
Gichon í gamla testamentinu og veitir vatni í Siloatjörnina (635m).
Hinnomdalur (Wadi er-Rababi) teygist til vesturs fr+a Siloatjörninni.
Giv’at Hananiafjall (Djebel Abu Tor) lokar honum til suðurs. Leiðin frá Siloatjörninni til Gömlu borgarinnar liggur
yfir Ophelfjall. Miðleiðis
til vinstri er kirkja hl. Péturs í Gallicantu.
Þar er höll Kaifasar sögð hafa verið, þar sem Pétur
afneitaði Kristi þrisvar áður en haninn galaði tvisvar.
Mykjuhliðið að gyðingahverfinu er 400 m norðaustan
kirkjunnar.
Vesturhluti nýju borgarinnar.
Ziontorg er líflegasti hluti miðju vesturhlutans.
Aðalverzlunargatan þar er Jaffagata, sem er jafnframt aðalumferðaræðin. Í norðvesturátt liggur hún til Tel Aviv-Jaffa og Haifa en
til suðausturs að Salómons konungsgötu og til vesturs liggur leiðin
um Ben-Jehudagötu að Georgskonungsgötu.
Norðan Ziontorgs, á milli Straussgötu, Mea-Shearimgötu og
Shivtei-Israelgötu er rétttrúnaðarhverfið *Mea Shearim (hundraðfalt),
sem var nefnt eftir blessun Ísaks sonar Abrahams (1 mósesbók 26, 12).
Þar spígspora enn þá karlmenn og stúdentar Toralögskólans
í kaftanfrökkum og með kringlótta hatta.
Það er áhugavert að skoða markaðina og sýnagógurnar.
Sunnar er Rússneska hverfið, þar sem rússneska dómkirkjan trónir
á hæsta stað. Hún er
vegleg bygging úr hvítum marmara og fallegum kúpli.
Í grennd við hana eru ýmsar stofnanir, þ.á.m. hæstiréttur.
Zahaltorg
er suðaustan Ziontorgs við vesturhorn Gömlu borgarinnar.
Þar í grenndinni er veglegt Klaustur og sjúkrahús Notre Dame
de France reist árið 1887.
Skammt suðvestan torgsins er breið
Davíðskonungsgata.
Árið 1933 var reist þar hús KFUM og hár turn, sem býður
gott útsýni yfir umhverfið og Gömlu borgina.
Á jarðhæð hússins er lítið forngripasafn.
Andspænis KFUM er Davíðskonungshótelið.
Heródesarhellirinn er við litla hliðargötu rétt hjá því
og leifar einsteinungs við grafhýsi, sem hefur verið kallað Heródesargröfin.
Stór veltisteinn við innganginn vekur athygli.
Gröfin er í formi kross en vitað er, að Heródes var grafinn
í fjöllunum við Betlehem. Kisturnar
í gröfinni, sem aðstandendur konungsfjölskyldunnar voru líklega lagði
í, hafa ekki verið í henni frá síðari heimsstyrjöldinni.
Yemin Moshehverfið (listamannanýlenda) er aðeins austar.
Giv’at
Hananiahliðið
(Djebel Abu; Fjall ráðabruggsins;
777m) er suðaustan brautarstöðvarinnar.
Þar er sagt, skv. sögu frá14. öld, að Kaifas æðstiprestur
og gyðingar hafi bruggað Kristi launráð í sveitarsetri prestsins.
Fjöldi hellagrafa fjölskyldna, sem voru notaðar öldum saman,
í hlíðum fjallsins. Þar
bjuggu líka guðhræddir einsetumenn og fátæklingar og búfé leitaði
þar skjóls.
Norðan brautarstöðvarinnar liggur vegur
framhjá skozku St.-Andreaskirkjunni
og vatnsgeymi frá dögum Davíðs konungs, Soldánstjörnin, sem Suleyman
soldán lét endurnýja, niður í Hinnomdalinn.
Þaðan bugðast vegurinn upp Síonsfjallið, þaðan sem Ísraelsmenn
sáu markmið vona sinna, þegar þeir komu heim úr útlegðinni.
Vafasamt er, að Davíð konungur hafi verið grafinn þarna
uppi. Líklega liggur hann grafinn meðal annarra konunga ríkisins
uppi á Ophelfjalli í grenndinni.
Samkvæmt biblíunni settust Kristur og lærisveinarnir að síðustu
kvöldmáltíðinni uppi á Síonsfjalli á skírdag.
Þarna þvoði Jesús fætur lærisveinanna og þarna dó María.
Postulakirkja var reist á fjallinu á 4. öld og á krossfaratímanum
heil dómkirkja og Ágústínaklaustur.
Á 14. öld byggðu Fransiskumunkar gotneska kirkju, sem var
breytt í mosku einni öld síðar.
Allt fram að síðari heimsstyrjöldinni var kristnum og gyðingum
meinaður aðgangur að henni. Á hæsta hluta fjallsins er Benediktínaklaustrið Dormitio
Santae Mariae, sem Beuron stofnaði 1906 og skírði eftir dánarstað
Maríu. Súlnagöng liggja
að salnum, sem notaður var til fótaþvotta, en þar er núna sýnagóga.
Þaðan er gengið um gang inn í hvelfingu, þar sem gröf Davíðs
er sögð vera? Fleiri
minningarstaðir eru í klaustrinu, s.s. Salur útrýmingarinnar, sem
minnir á helförina í síðari heimsstyrjöldinni. Salur
síðustu kvöldmáltíðarinnar, Coenaculum, sem tilheyrði kirkju
Fransiskana en varð síðar að mosku.
Hann er prýddur súlum og pílárum og er í gotneskum stíl
(16.öld). Maríukirkjan
var reist á árunum 1900-1910 í nýrómönskum stíl á stað, sem
Abdul Hamid soldán gaf Vilhjálmi II Þýzkalandskeisara í heimsókn
hans. Kirkjan minni á
Hallarkirkjuna í Aachen og í grafhvelfingunni undir henni, undir mósaíkkúpli
er stytta af hinni sofandi Maríu.
Heichal
Shlomo,
æðstaráð gyðinga, er stór og þunglamaleg bygging, sem hýsir líka
sýnagógu. Við hliðina
á því til norðurs er Gyðingaumboðið, stór bygging, sem hýsir Alþjóðasamband
Síonista. Stofnandi þess
var Dr. Theodor Herzl, rithöfundur frá Vín, sem stofnaði það í
Basel í Sviss 1897. Aðeins
norðar er Yeshurun-sýnagógan og Ratisbonneklaustrið (1874), sem er nú
skóli. Listamannahúsið
er aðeins norðvestar við Rehov Shmuel Haganid 12 og hýsir sýningar
listamanna borgarinnar. Sjálfstæðisgarðurinn
er hægra megin Georgs-konungsgötu.
Í austurenda hans er gamalt veitulón, Mamillatjörnin.
Nýja leikhúsið var opnað 1971.
Dýragarðurinn
er í Somemahverfinu í norðurhluta borgarinnar.
Þar eru aðeins dýrategundir, sem getið er í biblíunni.
Á girðingum og búrum er vísað til tilheyrandi texta í biblíunni
um hverja tegund. Lengra
til norðausturs er Sanhedriyagarðurinn.
Þar eru þrjár grafhvelfingar meitlaðar í bergið á 2. –
1. öld f.Kr. fyrir dómara þess tíma.
Hebreski
háskólinn
er samansafn margra bygginga, þ.á.m. stjörnufræðisafn, stór áheyrendasalur,
íþróttaleikvangur, stúdentagarðar, þjóðarbókhlaðan, útileiksvið
og sýnagóga. Knesset, þinghúsið,
er í Stjórnarhverfinu. Það
var vígt 30. ágúst 1966. Mósaíkverk
og veggteppi þar eru eftir M. Chagall.
Úti fyrir aðalinngangi hússins er *Menora, risastór sjöarma
ljósastjaki úr steini, gjöf frá brezka þinginu eftir þýzka myndhöggvarann
Benno Elkan.
**Ísraelska
safnið
stendur andspænis þinghúsinu. Það
er samansafn bygginga í mismunandi stílum og hýsir allt milli himins
og jarðar, sem snertir sögu lands og þjóðar.
*Skríni bókarinnar hýsir m.a. 7 handritanna frá Qumran við
Dauðahafið (kaflar úr bók spámannsins Jesaja, rituð u.þ.b. 100
f.Kr.). Við innganginn er
svartur blágrýtisveggur með 12 logum til minningar um fórnarlömb
ofsókna nasista.
Gríska
Heilagskrossklaustrið
er á stað, sem 4. aldar heimildir telja tréð, sem kross Krists var
smíðaður úr, hafi staðið. Silfurhringur
á bak við altari klausturskirkjunnar markar stað þess nákvæmlega.
Talið er líklegt, að Helena keisaraynja í Býzantíum hafi
lagt stofnun klaustursins lið á 6. öld og í aldanna rás hafi fjöldi
bygginga verið reistar. Varnarmúrar
klaustursins eru enn þá traustir og voldugir og inngangurinn er svo lágur
og lítill, að þar verður að ganga um boginn í baki.
Kúpull klaustursins og freskur þess eru áhugaverðar.
Viðhaldi hefur ekki verið sinnt sem skyldi.
Herzlfjall. Uppi á þessu fjalli er gröf stofnanda Alþjóðasamtaka Síonista,
Theodor Herzl rithöfundar frá Vín (1860-1904).
Rétt hjá gröfinni er Herzlsafnið með eftirlíkingu af
vinnuherbergi hans í Vínarborg, bókasafni og skjalasafni Herzl.
Yad Vashem var reist til minningar um 6 milljónir gyðinga, sem
létu líf sitt fyrir og í síðari heimsstyrjöldinni.
Þar logar eilífur eldur.
Herzlbreiðgatan
liggur að En Keremþorpinu (Hl. Jóhannes), þar sem Jóhannes skírari er
talinn hafa fæðzt. Þar
eru tvær Fransiskukirkjur. Á
næstu hæð til vesturs er Hadassah heilsugæzlustöðin, sem er
jafnframt háskólasjúkrahús. Í
sýnagógu þess eru 12 steindar rúður eftir M Chagall.
U.þ.b. 9 km sunnan borgarmiðjunnar er minnismerki um Kennedy frá
1966. |