Haifa ísrael skoðunarvert,
Flag of Israel


HAIFA
Skoðunarvert
ÍSRAEL

.

.

Utanríkisrnt.

Höfnin, sem var gerð að hafskipahöfn á árunum 1929-33 og skýlt með tveimur stórum hafnargörðum.  Strandlengjunni hefur verið breytt mikið með landfyllingum, þar sem nú standa hús hafnarstjórnar, vöruskálar og geymslusvæði, götu og járnbrautarsvæði.  Þarna er 10 þúsund tonna flotbryggja og 68 m hár kornturn (Dagon), sem rúmar 100 þúsund tonn.  Aðgangsmiðar að höfninni fást í upplýsingamiðstöðinni hægra megin við aðganginn.  Boðnar eru bátsferðir um höfnina en þar er bannað að taka myndir.

Karmelgatan (Shderot Hakarmel) er beint á móti Dagonturninum.  Hún er aðalgata hverfis þýzku templaranna, sem var stofnað 1868 og byggt fólki af þýzku bergi fram að síðari heimsstyrjöldinni.  Hús með tígulsteinaþökum eru einkennandi fyrir það.  Kirkjugarður templaranna, sem er annar tveggja slíkra í landinu (annar í Jerúsalem), er norðvestan hverfisins á lóðinni Jaffagata 150 við hliðina á brezka hermannakirkjugarðinum frá fyrri heimsstyrjöldinni.

Parísartorg (Kikar Paris)er við annan enda Jaffagötu.  Þar er endastöð Karmelbrautarinnar.  Sunnan þess er maronítakirkja.  Það er upplagt að ganga eftir Shivat Zion-götu (heimferðin til Síon), sem bugðast upp í Hadar Hakarmel-hverfið.  Handan fyrstu beygju til hægri, í Bialikgötu, er ráðhúsið með listasafni, sem státar af gömlum og nýjum listaverkum.  Þar eru minjar frá Sesaríu og deildir fyrir muni frá Egyptalandi, Rómarveldi og úr býzantískum moskum í Shiqmona.

Minningargarðurinn (Gan Haziqaron) er 60 m yfir sjó.  Þar sem virki Dahirs el Umar, hæstráðanda í Galíleu 1740-75, stóð, stendur aðeins fallstykki til að minna á það.  Þá er haldið áfram um Herzlgötu, sem er aðalgata hverfisins.  Á horni Balfourgötu er upplýsingamiðstöð ferðamála.  Ofar við götuna er Gamli Technion, sem var byggður 1912 en ekki opnaður sem slíkur fyrr en 1925 vegn þess, að Tyrkir notuðu húsið sem sjúkraskýli.  Nýbyggingar Technion eru í suðausturhluta borgarinnar (Qiryat Hatechnion).  Beint á móti skólanum er Pevznergata, sem liggur að Borgarleikhúsinu, Rabbínaráðinu, þjóðminja- og tónlistarsafninu.  Þaðan er stutt inn í miðhluta hverfisins, að Gan Haem-garðinum og dýragarðinum þar og að Hanassi- og Yefe Nofgötunum.  Japanska safnið er í húsi nr. 89 við Hanassigötu.  Geysigott útsýni frá Yefe Nofgötu yfir borgina og höfnina og alla leið til Akko.

*Baháí’iskrínið er í Persneska garðinum við Unogötu fyrir neðan Yefe Nofgötuna er áberandi í borgarmyndinni.  Við gröf stofnanda þess hefur þróast miðstöð baháí’iflokksins.  Árið 1844 lýsti Persinn Mirsa Ali Mohammed sig „Bab”, talsmann guðs á jörðu, og sex árum síðar var hann skotinn til bana í Täbris.  Eftirmaður hans, Mirsa Hussein , tók upp nafnið Baha-u-illah og flúði til osmanaríkisins, þar sem hann lýsti sig imam árið 1868.  Honum var haldið í fangelsi í 24 ár í Akko og dó þar 1892.  Hann var grafinn við samyrkjubúið (kibbuz) Shamerat norðan Akko.  Fylgismenn hans fluttu jarðneskar leifar Mirsa Ali Mohammed með leynd frá Persíu til Palestínu og gerðu honum gröf í Haifa.  Lokið var við byggingu þessarar stórkostlegu kúpulbyggingar árið 1953.  Við hliðina á henni er klassískt skjalasafn baháí’imanna og velhirtur garður umhverfis.  Baháí’itrúin hefur breiðzt út til Evrópu og Ameríku.

Karmelklaustrið er á Karmelhöfða.  Þangað komast gestir frá höfninni um Allenby- og Stella-Marisgötur eða frá Gan Haemgarði um Hanassi- og Tchernikovskygötur.  Klaustrið er rétt við vitann Stella Maris.  Fyrsta klaustrið, sem karmelítar byggðu fyrir nýstofnaða reglu sína 1150, var eyðilagt 1291, þegar Akko fell.  Það var endurreist síðla á 18. öld, þegar Ahmed Jezzar var við völd, en eyðilagt á ný 1821 og endurbyggt 1828.  Framan við klaustrið eru grafir bæklaðra franskra hermanna Napóleons, sem herir Ahmed Jezzars drápu 1799.  Klaustrið er helgað spámanninum Elíasi og nemanda hans, Elísa.  Lífshlaupi þeirra er lýst í myndum í kirkjunni, sem státar líka af Maríulíkneski úr sedrusviði með postulínshöfði (1820) og er kallað Fjallamadonnan.  Þrep liggja niður í helli, þar sem er fyrrum bústaður og líklega gröf hins heilaga Elíasar.  Við innganginn í klaustrið er lítið safn.

Spámannsskólinn er andspænis og neðan við klaustrið.  Þessi hellir við rætur skagans er sagður felustaður Elíasar, þegar konungar Ísraels leituðu hans og heilagasti staður gyðinga í Haifa (Zev Vilnay).  Múslimar viðurkenna hl. Elías líka sem „el Khidr”, græna spámanninn, en þeir áttu sér mosku þarna til 1948.  Frá þessum helli komast gestir niður á Jaffagötu.

Haffræðistofnunin er 1 km utan borgarinnar og þar er líka uppgröftur gömlu byggðarinnar í Shiqmona.  Hálfum km lengra er baðströnd og skammt þaðan eru kirkjugarðar kristinna og gyðinga.  Á leiðinni inn í borgina aftur blasir Sjóminjasafnið við.  Það var flutt frá höfninni, þar sem það var upphaflega.  Þar er að finna skipamódel, landakort, prentað mál og myndskreytta sögu sjóferða og hafna í landinu helga.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM