Betlehem Ísrael,
Flag of Israel


BETLEHEM
ÍSRAEL

.

.

Utanríkisrnt.

Ekið er frá Damaskushliðinu til suðvesturs í áttina að Hebron.  Aðeins 6½ km frá því á hægri hönd er hið gríska Elíasklaustur (Deir Mar Elias), sem var byggt á 12. og 17. öld.  Hálfum öðrum km lengra til hægri er er Gröf Kakelar (Kubbet Rahil), lítil kúpulbygging frá 18. öld.  Jakob er sagður hafa komið henni fyrir í gröfinni, þegar hún dó skömmu eftir fæðingu Benjamíns.  Frá næstu vegamótum eru 33 km til Hebron og 2 km til vinstri til Betlehem.

Nafnið Betlehem þýðir brauðhús og bærinn var „Borg Davíðs” (Líkas 2,4) og fæðingarstaður Jesús.  Lega bæjarins er svipuð Jerúsalem, á tveimur hæðum.  Betlehem komst á kortið á krisnum tímum vegna pílagrímaferðanna þangað.  Árið 330 lét Konstantín keisari byggja þar skrautlega basilíku.  Justinian lét endurreisa borgarmúra bæjarins.  Klaustur og kirkjur spruttu upp og í kringum 600 var talað um glæsilegan bæ.  Árið 1110 varð Betlehem að biskupssetri. 
Þegar krossfararnir birtust, eyðilögðu arabar bæinn en Frankar byggðu hann fljótlega upp aftur og kastala við hliðina á klaustrinu.  Árið 1244 komu hinir öfgafengnu karesmíar frá Mið-Asíu og lögðu Betlehem í eyði og aftur 1489.  Bærinn hefur náð sér á strik á síðustu öldum.  Íbúarnir eru listfengir og þekktir fyrir handlagni sína með perlumóður og áhugavert að heimsækja eitthvert hinna mörgu verkstæða, sem vinna að þessari listiðn.  Austurlenzkur andi svífur yfir vötnunum á markaðsdögum og ríkulega skreyttir og litskrúðugir búningar kvenna vekja athygli og eru mikil andstaða við einfaldan, svartan klæðnað bedúínakvennanna.

*Fæðingarkirkjan var byggð yfir fæðingarstað Jesús í austurhluta bæjarins.  Hún sameiginleg eign grísku, latnesku og armesku trúarbragðanna.  Justinus píslarvottur, fyrsti kirkjufaðirinn, sem var tekinn af lífi 165 e.Kr. taldi að fjárhúsið og jatan, sem Kristur var lagður í, hafi verið í helli.  Hadrian lét eyðileggja kirkjuna, sem var byggð yfir hann, og lét reisa þar Adonishof.  Talið er öruggt, að Konstantín keisari hafi látið reisa þar basilíku árið 330 og að meginhluti núverandi kirkju sé frá þeim tíma, þótt sumir kennimenn þykist sjá merki endurbyggingar Justinians (527-565) í henni.  Frásögnum pílagríma í gegnum tíðina ber saman um, að kirkjan hafi staðið óbreytt.  Á krossferðatímanum var hún bætt og skreytt.  Hinn umburðalyndi Býzantíumkeisari Manuel Komnenos (1143-1180) lét skreyta veggi hennar með gylltum mósaíkverkum og þekja hana með blýi.  Árið 1482 var þakið orðið illa farið og var endurbyggt.  Edward IV, Englandskonungur, gaf nýja blýþekju og Philipp af Burgund timbur (greni) til verksins.  Um þetta leyti var farið að sjá á mósaíkverkunum.  Í lok 17. aldar rifu Tyrkir blýið af þakinu til að steypa úr því byssukúlur.  Árið 1672 tóku Grikkir kirkjuna að sér og endurnýjuðu hana.  Rómversk-katólskir fengu aftur ítök í henni fyrir tilstuðlan Napóleons III árið 1852.

Sé farið um lágar dyr inn í anddyrið á talsvert skemmdri vesturhlið kirkjunnar er komið inn í langskipið, sem er prýtt fjórum röðum af kórinþskum súlum og var eitt sinn klætt marmara.  Á súlunum má sjá merki um fjölda freskna af dýrlingum, líklega frá fyrri hluta 12. aldar.  Yfir súlnaásunum eru gullmósaíkmyndir frá 1168, sem sýna fyrirrennara Krists og sjö fyrstu leikmannaráðin.  Í þverskipinu og kórnum eru líka freskur úr nýja testamentinu.  Beggja vegna aðalaltarsins liggja tröppur niður í fæðingarhellinn, sem var fyrrum klæddur marmara, en er nú hulinn þykkur sótlagi vegna kertanna, sem fólkið bar með sér þangað.  Altarið í hellinum stendur þar sem álitið er að Kristur hafi fæðzt og ofan þess eru leifar mósaíkmyndar, sem sýna fæðinguna.  Undir altarinu er silfurstjarna með áletruninni „Hic de Virgine Maria Jesus Christus natus est”.  Undir kirkjunni eru fleiri hellar, sem eru aðgengilegir frá katólsku Katrínarkirkjunni norðan Fæðingarkirkjunnar.  Á tímabilinu milli heimstyrjaldanna voru grafnir upp fagrir mósaík- og helgimyndaveggir.

Frá forgarði Fæðingarkirkjunnar liggur leiðin til suðausturs milli húsa og gríska klaustursins.  Skammt þaðan er Mjólkurhellirinn eða Kvennahellirinn (5x3x2,6m), sem var breytt í kapellu.  Þar er talið að fjölskylda Jesús hafi falizt fyrir flóttann til Egyptalands.  Mjólkurdropi úr brjósti Maríu draup þar á gólfið og síðan er talið að kalksteinni í hellinum búi yfir þeim eiginleikum að auka sængurkonum og spendýrum mjólk.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM