Írland sagan II,
Ireland Flag


ÍRLAND
SAGAN II

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

STEINÖLDIN (7000-2000 f.Kr.).  Á steinöld voru byggð grafhýsi úr stórum steinum um allt land.  Nafnið dolmen er venjulega haft um fyrstu grafhýsin, sem gerð voru úr grjóti, sem reist var upp á endann og stór, margra tonna þakhella, sem hallaði niður eftir því sem innar dró, var lögð ofan á.  Gott dæmi um þessa tegund grafhýsa úr risasteinum er á Browns-hæð, nærri Carlow.

Að gangagrafhýsunum lágu göng, byggð á sama hátt og dolmen.  Myndhöggvarar skreyttu steinana með gormlaga o.fl. tegundum mynda.  Síðan var fluttur jarðvegur að mannvirkinu og eftir stóð haugur.  Í sumum þessara grafhýsa eru þrjú hliðarhýsi, sem ljá þeim krosslaga form.  Frægustu gangagrafhýsin er að finna í Boynedal.

Í gallerígrafhýsunum sjást engin skil á ganginum og grafarrýminu.  Þetta fleygmyndaða grafhýsi er breiðara í innri endann í U-lagaðri steinhleðslu.  Þessi tegund grafhýsa er mjög algeng á Írlandi og gott dæmi um hana er að finna í Ballyedmunduff í grennd við Dyflina.

Einnig er að finna hin svokölluðu garðgrafhýsi, sem eru grafhaugar með hálfhringlaga eða ávölum garði við annan endann.  Þessir garðar þjónuðu einhverjum trúarlegum athöfnum.  Eitt slíkt er að finna við Creevykeel, norðan Sligo.

BRONZÖLDIN (2000-500 f.Kr.).  Helztu einkenni minnismerkja frá bronzöldinni eru steinhringir, sem voru líklega notaðir við trúarathafnir.  Gott dæmi um þá er Drombeg-hringurinn í Corkhéraði.

Þessu tímaskeiði tilheyra líka uppréttu steinarnir (gallain), sem höfðu líka trúarlega þýðingu.

Merki um ríkidæmi bronzaldarinnar er m.a. að finna í gullskreytingum (t.d. í Wicklowfjöllum), þar með töldum hálfmánalöguðum gullkrögum úr plötugulli.

JÁRNÖLDIN (500-400 e.Kr.).  Á járnöldinni og í byrjun kristninnar voru byggð hringlaga vígi úr steinum eða jarðvegi (raths).  Þau byggðu helzt stórar ættir eða trúarhópar sér til varnar gegn óvinaárásum eða ræningjahópum.  Talið er að merki um rúmlega 30.000 slík virki sé að finna á Írlandi, þótt lítið standi eftir af mörgum þeirra.

Einnig finnast merki um mun öflugri virki uppi á hæðum (lis), s.s. Dún Aeghus á Inishmore á Araneyjum.

Írska nafnið "dún" er notað um hringvirki, sem byggð voru á sjávarhöfðum eða nesjum.  Stundum voru þau byggð þvert yfir höfðana.  Gott dæmi um slíkt virki er að finna við Dunbeg á Dingleskaganum.

Önnur gerða varnarvirkja voru gervieyjar úti í vötnum (carnnog).  Þar voru keyrðir niður tréstaurar og byggt ofan á þeim.  Stundum voru notaðar náttúrulegar smáeyjar í þessum tilgangi.  Þetta voru mjög örugg híbýli og sum þeirra voru notuð allt fram á síðmiðaldir.

Hinir keltnesku íbúar Írlands lærðu að smelta (glerja) á bronzöld.  Þeir bjuggu til fagurlega skreytta hluti til hversdagsbrúks og skartgripi.  Talið er, að þeir hafi lært þessa list af Rómverjum.

Í lok járnaldar var byrjað að nota oghamskriftina, sem nefnd var eftir keltneska skriftarguðnum Ogmios.  Þetta letur er einkum að finna á brúnum uppréttra steina eða á ská yfir þá.  flestir steinanna, sem hafa verið varðveittir (250 af 300) eru í Kerry-, Cork- og Waterfordhéruðum.  Áletranirnar eru undantekningalaust með sama sniði.  Á stafrófssteininum í Kilmalkedar á Dingleskaga eru ogham og latína hlið við hlið.

SNEMMKRISTNI (400-1170).  Á þessum tíma blómstruðu listir á Írlandi.  Mest ber á fögrum krossum og myndskreyttum handritum.  Hin mörgu klaustur, sem voru reist á þessum tíma, eru samt ekki minjar um neinn þýðingarmikinn byggingarstíl.  Samkvæmt annálum voru flest þeirra gerð úr tágafléttum og leir, en stundum úr timbri.  Þar sem þessi byggingarefni voru ekki til, eins og á Skellig Michael-eyju í Atlantshafinu, varð að notast við grjót.  á þessari eyju voru rúmlega 600 þrep höggvin í klettana til að komast að tiltölulega skjólgóðum stalli, þar sem munkarnir byggðu sér býkúpulagaða klefa, bænahús og grafhýsi.  Uppréttur steinn, skreyttur úthöggnum krossi, varð fyrirmyndin að hinum fögru, háu krossum, sem komu síðar.

Býkúpuklefarnir frá þessum tíma (clochán) voru hlaðnir upp úr þurrkuðum tígulsteini úr leir á líkan hátt og sjóhús inúíta og toppnum var lokað með flötum steini.  Sams konar byggingar er líka að finna í trjálausum löndum við miðjarðarhaf og eru líklega upprunnar þaðan.  Á Skellig Michaeleyju völdu munkarnir steina og hlóðu með slíkri nákvæmni og alúð, að kofarnir halda enn þá vatni og vindum.

Fyrstu kirkjurnar voru örlítil bænahús, sem voru notuð til fjölda- eða einkatrúarathafna.  Borghleðslan náði upp að þakbrún og líkist helzt báti á hvolfi.  Inni er og var dimmt, enda komst dagsbirtan einungis inn um dyrnar í upphafi en síðar kom gluggarauf yfir altarinu.  Bezt varðveitta bænahúsið, Gallarus, er að finna á Dingleskaganum.

Grafsteinarnir í klaustrunum sýna þróunina frá einföldum skreytingum til listaverka.  Þegar tímar liðu, urðu krossarnir, sem voru ætíð aðalskreytingin, æ skrautlegri.  Áletranirnar voru ævinlega á sama veg: "or do ...", þar sem beðið var um bæn fyrir hinum látna.  Margir legsteinar og brot úr þeim eru byggð inn í vegg í Clonmachnoise.  Uppréttu steinarnir frá heiðnum sið voru vígðir með því að höggva í þá krossa, oft á grófan hátt. Snemma var reynt að skreyta slíka steina með ýmsu flúri, líkt og gert var með blómkrossskreytingu Reasksteinsins í Kerry.

Hinir frægu, háu krossar á írlandi eru 4-5 m náir.  Talið er að þeir hafi þróast frá slíkum krossum, sem voru höggnir í uppréttu steinana.  Dæmi um frumgerðirnar er að finna í Fahan og Carndonagh á Inishowenskaga.  Þeir eru taldir vera frá 7.öld.  Krossarnir í Ahenny í Tipperaryhéraði sýna þróaðra form með mjórri línum og hring, sem tengir armana við lóðrétta hlutann.  Krossinum er skipt í fleti með lágmyndum.  Sagt er að keltar hafi haft andstyggð á auðum flötum.
  Það er mögulegt, þótt óstaðfest sé, að svona krossar hafi verið gerðir úr tré og þaktir plötubronzi, þannig að steinkrossarnir séu bara eftirmyndir af frumgerðunum.  Bakkarnir, sem hringurinn fer í gegnum, gætu táknað naglana í trékrossunum.  Neðst á krossunum eru tákn, sem erfitt er að ráða í.  Þau gætu verið lýsingar á klausturlífinu.  Ahennykrossarnir eru álitnir vera frá 8.öld vegna þess, hve lágmyndirnar líkjast skreytingum í Kellsbókinni.

Frá því á 9.öld fóru myndskreytingarnar á háu krossunum að koma fram.  Þetta er tímabil biblíukrossanna, sem voru reistir í klaustrum, sem tákn guðdómsins og leiðsagnarinnar.  Fíngerðar lágmyndirnar í rétthyrndum flötum sýna atriði úr gamla- og nýja testamentinu.  Samstæðir fletir voru oft notaðir til að sýna kraftaverkalausn erfiðleika og björgun úr háska, s.s. Daníel í ljónagryfjunni, ungu mennina þrjá í logum ofnsins, fórn Ísaks, Davíð og Golíat, myndir af Páli og Antóníusi, eyðimerkurdýrlingana og minna á austrænar fyrir-myndir írsku munkanna.  Fargrar verur á hliðum margra krossanna virðast frekar sóttar til Austurlanda en Vestur-Evrópu.  Boðskapruinn í miðju krossanna er hér um bil alltaf boðskapurinn um sáluhjálpina, að vestanverðu krossfestingin og að austanverðu dýrð Krists á dómsdegi.  Efst á krossunum er oft lítið húslaga skríni.

Steintegundirnar, sem voru notaðar í krossana, fóru eftir aðstæðum á hverjum stað, þótt flestir séu úr mjög fínkornóttum sandsteini.  Steinnámur eru í grennd við Kells og Monasterboice í austurhluta landsins.  Einhver fegursti slíkra krossa er Muiredachskrossinn í Monaterboice.  Krossarnir í Clonmacnoise voru höggnir úr tilfallandi sandsteinsblokkum.

Gæði steinanna voru mjög mismunandi.  Myndir og tákn á sumum krossum eru jafnskýr og þau voru í upphafi en aðrir eru svo veðraðir, að ekki verður lengur greint, hvað var höggvið í þá.

Þar sem sandsteinn var ekki nærtækur, varð að nota granít, sem er miklu harðara efni.  Myndirnar á gratínkrossunum voru einfaldaðar eins og kostur var, jafnvel svo mjög, að þær urðu óhlutstæðar.  Myndirnar á Moonekrossinum eru tilbreytingalausar en fletirnir eru samt táknrænir.

Frá 11.öld var að mestu hætt að nota atriði úr biblíunni, að krossfestingunni undanskilinni, og skreytingar náðu yfirhöndinni.  Stundum voru krossarnir með styttri örmum og án hrings, einungis skreyttir einni lágmynd, líkt og kalkkrossarnir í Clare-héraði.  Dysert O'Deakrossinn er skreyttur hinum krossfesta Kristi í síðum og slegnum fatnaði og neðan við stendur virðulegur biskur með mítur og bagal að rómverskri fyrirmynd.

Sambærilega krossa, en færri, er að finna í Skotlandi og Norður-Englandi, þannig að þeir eru ekki táknrænir fyrir Írland.  Sívölu turnarnir eru aftur á móti einkennandi fyrir Írland, þótt finna megi tvo slíka í Skotlandi.  Þeir eru mjó og stílhrein mannvirki, sem eru allt frá 18-30 m há, með keilulöguðu þaki og eru alltaf mest áberandi byggingar hvers klausturs.  Líklega voru hinir fyrstu byggðir eftir fyrstu árásir víkinga.  Þeir þjónuðu fernum tilgangi, sem klukkuturnar, útsýnisturnar, geymslustaður dýrgripa og griðastaður, þegar árásir voru gerðar á klaustrin.  Inngangurinn var alltaf í nokkurra metra hæð yfir jörðu og mjóir stigar lágu upp á efri hæðirnar (venjulega 5 hæðir).  Birta  kom inn um litla glugga, sem snéru í allar áttir til að hægt væri að fylgjast með því, hvort óvinir væru í nánd.    Þegar friður ríkti, voru munkarnir, sem voru við útivinnu, boðaðir til tíða með handbjöllum.  Allmargar slíkar hafa varðveitzt og eru m.a. til sýnis í Þjóðminjasafninu í Dyflinni, British Museum í London og í kirkjum í afskekktum skozkum dölum.

Enn þá standa u.þ.b. 80 írskir turnar, bæði heilir og að hluta.  Hinir fyrstu voru gerðir úr grófum steini og allsendis óskreyttir.  Síðar voru þeir skreyttir höggmuyndum og rómönskum dyrabogum.  Fegursti turninn er í Ardmore í Waterfordhéraði.

Á snemmkristnum tíma voru líka gerðir haglegir hlutir úr málmi.  Í Þjóðminjasafninu í Dyflinni er margt slíkra muna, sem sýna, að fegmenn þess tíma unnu verk sín vel og endurbættu fyrri vinnubrögð.  Þeir notuðu m.a. fornar fyrirmyndir úr bronzi, gulli eða silfri eða smelta muni.  Eitt dæma um verklagni þeirra er Tara nistið.  Þegar klaustrin urðu ríkari, voru smíðaðir verðmætir hlutir eins og Ardagh og Derrynaflan kaleikarnir (8.-9.öld). Síðar voru smíðaðar hirzlur fyrir dýrgripi, s.s. handrit og bjöllur, bagla og helgidóma fyrri dýrlinga.  Listamennirnir gættu þess vandlega við slíka vinnu, að endurtaka aldrei, það sem hafði verið gert fyrr.

Írskir baglar eru með hálfhringlaga boga og beinum enda.  Þeir voru geymdir í bronzskrínum með svipaðri lögun og skreytingin endaði oft í dýrs- eða fuglshöfði.  Bjölluskríni voru eins í laginu og bjöllurnar.  Skríni utan um bjöllu hl. Patreks er úr bronzi, skreytt gullnu víravirki, silfri og dýrmætum steinum.

Kápur bænabóka dýrlinga voru skreyttar upphleyptu bronzi.  Á einni slíkri með mynd af krossfestingunni eru föt englanna og vængir gormlöguðum og samtvinnuðum skreytingum.

Algengustu munir af þessum toga, sem hafa varðveitzt, eru húslaga helgidómaskríni með bröttu loki, líku þökum fyrstu írsku kirknanna.  Þau eru úr viði með bronzflúri og voru gerð til að bera í ól um hálsinn.

Víkingarnir tóku marga slíka muni með sér til Noregs.  Þar hafa þeir einkum fundizt í grafhaugum kvenna.  Nokkrir eru í norskum söfnum en öðrum hefur verið skilað aftur.

Cong-krossinn (1123) er forkunnarvelskreyttur gulli og bláum lit með dýrum og öðrum verum.  Hann er líklega síðasta stórafrek írsku málmlistarmannanna.

Helzta menningarlega og listræna framlag keltnesku munkanna lá í þróun írsks ritmáls og myndskreytingu handrita.  Þeir þróuðu skrautlega og kröftuglega upphafsstafi úr latínu og stafirnir voru líflegir og hugmyndaríkir, ef ritararnir voru hagir.  Fullkomnun þessa leturs, sem skráð var á þykkt bókfell, gefur verkum íslamskra og kínverskra skrautritara í engu eftir.

Þörfin fyrir að skreyta síður handrita kom snemma í ljós.  Í bókinni Cathach (Stuðningsmaður í stríði; um 600), spurningakveri hl. Kólumbusar, eru upphafsstafirnir ríkulega skreyttir en arðrir stafir eru gerðir úr punktum.  Við gerð kversins var aðeins notað rautt og dökkbrúnt blek en síðari handrit eru litauðugri (blárautt, skærrautt, glerjungsgrænt, dökkblátt, gult o.fl. litir).  Upphafsstafir í nöfnum guðspjallanna eru úr samtvinnuðu munstri skreytinga, sem enda í manns- eða dýrahöfðum eða eru í mannsmynd.  Síðar þöktu upphafsstafirnir stundum heila síðu.  Ofan og neðan við línurnar eru myndir af dýrum, sem kunn voru mönnum á þeim tímum, s.s. köttum, músum, hönum og hænum, öðrum fuglum og fiskum.  Sumar þessara mynda eru nákvæmar eftirmyndir en flestar eru hugarfóstur listamannanna.  Orð og atkvæði eru tengd bjúgum hornklofum í ýktum myndum af manns- eða dýralíkömum, sem komast ekki fyrir í línunum og eru því ofan þeirra eða neðan.

Beztu írsku bókaskreytingarnar felast í heilsíðumyndum, sem eru þaktar glitvefnaðarmunstri úr ritningunni.  Allt þetta flókna munstur er dregið með slíkri nákvæmni og vandvirkni, að nota þarf stækkunargler til að skoða smæstu drættina.  Það er greinilegur skyldleiki milli þessara mynda og skreytinganna á málmhlutum og háu krossunum.

Á einni hinna myndskreyttu síðna í Kellsbókinni, sem er glæsilegasta myndskreytta handritið, er heilög guðsmóðir með barnið fyrst sýnd í hinum vestræna heimi.  Guðspjalla-mennirnir fjórir með táknum sínum voru vinsælt viðfangsefni.  Skrautritararnir létu hugmyndaflugið ráða og reyndu að koma hugsunum sínum á blað í myndformi.  Þess vegna eru til myndir af fólki, sem snýr fótunum út á við, líkt og í egypzku grafamyndunum, og fólk  með tvennar hendur, blátt hár og í trúðsbúningum.

Mörg sýnishorn af myndskreytingum írskra handrita liggja frammi í Dyflinni:  Í  Hinni konunglegu akademíu hl. Colombo er Cathach og Stowe Missal(f.hl.9.aldar) og í Gamla bókasafninu í Trinityháskólanum er Durrowbókin (7.öld) í silfurhúðuðu bronzskríni (cumdach), Armaghbókin (807) með öll fjögur guðspjöllin og meistarastykki írskra myndskreytinga, Kellsbókin.

Nýlegar rannsóknir benda til þess, að fjórir skrautritarar, sem störfuðu á árunum 790-820 í Colomboklaustrinu á eyjunni Iona fyrir vesturströnd Skotlands, hafi byrjað ritun Kellsbókarinnar.  Þeir flúðu til Kells á Írlandi með þann hluta bókarinnar, sem var tilbúinn, þegar víkingar hófu ránsferðir sínar í nágrenni Iona.  Bókin hefur verið varðveitt í Trinityháskólanum síðan á 17. öld og mismunandi síður hennar eru sýndar á hverjum degi.

Flestir helgir menn keltnesku kirkjunnar voru virkir ritarar og endurritarar.  Á ferðum sínum báru þeir handritin á sér og í klaustrum, sem þeir stofnuðu til kristinboðs á Englandi (t.d. á Lindisfarne) og á evrópska meginlandinu (t.d. í St gall), var verkum þeirra haldið áfram á sama hátt og heima á Írlandi.  Vegna þessarar dreifingar hafa tiltölulega mörg handrit varðveitzt og flest þeirra eru núna í stórum bókasöfnum á meginlandi Evrópu.

Stundum skildu írsku ritararnir eftir eigin athugasemdir eða ljóð á spásssíðum handritanna, s.s. um náttúruna, guðrækni eða veraldlegs efnis.  Sumar athugasemdirnar lýsa hræðslu þeirra við víkingana, sem ollu síðar endalokum þessarar blómlegu ritlistar.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM