Írland íbúarnir,
Ireland Flag


ÍRLAND
ÍBÚARNIR

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Írar eru málglaðir og hafa gaman af rökræðum og rifrildi.  Þeir hafa mjög ríkt hugmyndaflug.  Þeir láta sjaldan hugfallast, þótt erfiðleikar steðji að, en leita sér þá huggunar hjá flöskunni til að ýta þeim til hliðar um stund.  Þeir eru vinalegir við ókunnuga og mjög hjálpfúsir.  Írska kráin er veigamikill þáttur í félagslífinu en er enn þá álitin vera ætluð karlmönnum.  Opnunartími þeirra er svipaður og í Englandi og þær verða að hafa tilskilin leyfi.  Árið 2005 var þessum reglum breytt í báðum löndum, þannig að krárnar eru opnar miklu lengur og eigendur þeirra búa við meira frjálsræði með viðskipti sín.

Pottarar (tinkers) er flökkufólk eins og sígaunar, sem þeir eru þó ekki skyldir.  Þeir tala sitt eigið tungumál og eru af sama bergi brotnir og Írar.

Anglo-Írar
eru afkomendur aðalsmanna og foringja í hernum frá miðri 17. öld, sem fengu í sinn hlut óðul, sem höfðu verið tekin eignarnámi.  Þeir voru öðru vísi en fyrri enskir landnemar í Írlandi, því að þeir lögðu ekki á sig að læra tungu Íra.  Þeir mynduðu sérstakt samfélag, sem hélt áfram að tala ensku, var fastheldið á mótmælendatrú og einangraði sig á bak við háa múra frá hinum katólsku írsku nágrönnum.  Margir nýttu óðul sín aðeins sem tekjulindir, dvöldu lítið eða ekki í Írlandi og létu ráðsmenn innheimta landskuldir hjá hinum fátæku leiguliðum.  Síðar lagði hin ríkjandi stétt Anglo-Íra sinn skerf til menningar Írlands.  Hún byggði óðalssetur og garða með suðrænum jurtum, sem þrífast vel í mildu loftslagi Írlands.

Anglo-Írar stóðu á bak við mikla uppbyggingu Dyflinnar snemma á 18. öld og eiga sinn þátt í fögrum byggingum frá þeim tíma.  Þeir höfðu Trinity-háskólann fyrir sig og af þeim spruttu margir þekktir Írar á sviði stjórnmála, heimspeki, rithöfunda og skálda.  Á 18. öld byggðu þeir upp margar menningarstofnanir.  Konunglega írska akademían safnaði gömlum handritum og gaf út margra binda írska orðabók.  Konunglega Dyflinnarfélagið, sem bezt er þekkt fyrir hestasýningar sínar á okkar dögum, var upprunalega líka menningarfélag.  Söfn þess urðu undirstaða þjóðarbókhlöðunnar og þjóðminjasafnsins.

Með tímanum vöndust Anglo-Írarnir hóglífinu á óðulum sínum.  Eftir að meginhluti Írlands varð sjálfstætt ríki misstu þeir forustuhlutverk sitt í landinu.  Mörg óðalssetranna voru eyðilögð og jöfnuð við jörðu.

Amerísku Írarnir;    Á 19. öld fluttust u.þ.b. 2 milljónir Íra til Bandaríkjanna.  Annaðhvort flúði fólk óþolandi stjórnmálaástand eða hungursneyðina miklu á fimmta áratug 19. aldar.  Írskir innflytjendur í New York stofnuðu byltingarhreyfingu.  Meðlimir hennar voru kallaðir "Fenians).  Afsprengi hennar varð Írska lýðveldisbræðralagið, sem barðist fyrir aðskilnaði Írlands frá Bretlandi með ofbeldisverkum.  Einn félaganna, Eamon de Valera (f. í New York 1882) var meðal forsprakka páskauppreisnarinnar árið 1916.  Hann var dæmdur til dauða en dómnum var síðar breytt og hann var náðaður 1917.  Hann var aftur tekinn höndum 1918 en slapp úr Lincolnfangelsinu árið 1919 og flúði til Ameríku.  Hann snéri aftur til Írlands árið 1920 og varð forsætisráðherra og síðar forseti landsins.

Flestir Írar, sem fluttu til Ameríku, komu úr sveitum landsins.  Þeir settust flestir að í stór-borgum N-Ameríku, þar sem þeir réðu ríkjum á vinnumarkaðnum sem ómenntað vinnuafl, s.s. við gerð skipaskurða og járnbrautalagnir.  Samtímis urðu þeir að stjórnmálaafli, sem varð að taka tillit til.  Á árunum milli 1870 og 1920 voru Írar í forustuhlutverkum í borgum, þar sem margir landar bjuggu.  Margir Írar urðu borgarstjórar og lögreglu- og slökkvilið borga voru að miklu leyti skipuð Írum.  Þrátt fyr
ir ítök sín í stjórnmálum Bandaríkjanna, varð maður af írsku bergi brotinn ekki forseti landsins fyrr en 1960, þegar John F. Kennedy (1917-1963) varð fyrsti katólski forsetinn.

Bandaríska leikritaskáldið Eugene O'Neill (1888-1953), sem fékk fyrsta leikrit sitt flutt 1916 og fékk Nóbelsverðlaun í bókmenntum 1936, var líka af írsku bergi brotinn.

Írska tungan:  Málfræðilega er rangt að kalla írskuna (Erse) gelísku, þótt hún sé af þeim stofni.  Gelíska nær yfir mörg tungumál, s.s. skozku.  Írskan er frekar eyjakeltneska eins og bretonska, sem innflytjendur frá Bretlandseyjum fluttu með sér til NV-Frakklands. 

Upprunalega var keltneska töluð um allar Bretlandseyjar.  Germanar, sem settust að í Bretlandi á 5. öld fluttu með sér germönsk tungumál og engilsaxar líka, þannig að málþróunin leiddi til enskunnar, sem töluð er nú.  Einungis útkjálkafólk hélt áfram að tala keltneskuna.  Á seinni öldum á meðan Englendingar réðu ríkjum í Írlandi var írskan ekki einungis samskiptaatriði heldur líka yfirlýsing um samkennd þjóðarinnar.  Þótt írskan hljómi einkennilega í eyrum þeirra, sem þekkja germönsku- og rómönsku tungumálin er hún engu að síður af indó-germönskum stofni.  Hún hefur þróast án áhrifa frá öðrum evrópskum tungumálum hér um bil frá upphafi vega, þannig að mörg málfræðimunstur hennar eiga sér enga hliðstæðu í Evrópumálunum.  Þeir, sem reyna að skilja og læra írsku, lenda í erfiðleikum, því að mállýzkur eru margar og staðbundnar.

Þótt áherzla hafi verið lögð á að styrkja stöðu írskunnar, sem þekkt er undir sameiginlega nafninu "gaeltacht", er hún á undanhaldi.  Árið 1851 töluðu 80% fleiri írsku en árið 1961.  Gizkað er á, að nú tali aðeins 55.000 manns írsku.  Langflestir Írar tala ensku.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM