Glendalough Írland,
Ireland Flag


GLENDALOUGH / GLEANN da LOUGH
ÍRLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Nafnið þýðir "Tveggjavatnadalur".  Hann er í Wicklowhreppi, u.þ.b. 40 km sunnan Dyflinnar.   Vegurinn frá Laragh (R755) liggur suður frá Bray um hæðótt landslag til Arklow.  Þaðan liggur hliðarvegur um skógi vaxinn dal í vesturátt til Glendalough (2 km), sem er frægur fyrir fagurt landslag og klausturrústir.  Umhverfis vötnin tvö, sem dalurinn dregur nafn af, eru tiltölulega velvarðveittar rústir einhverrar mikilvægustu trúarmiðstöðvar í Írlandi.  Dalurinn, sem umgirtur er lágum fellum (650-750 m) þrengist verulega upp með ánni Glenealo og umhverfið er upplagt til gönguferða og fjallapríls.

Heilagur Kevin kom á þessar slóðir á 6. öld í leit að einveru.  Hann settist þar að sem einsetumaður.  Guðhræðsla hans og menntun löðuðu til hans svo mikinn fjölda lærisveina, að hann stofnaði klaustur.  Þegar hann dó árið 618, háaldraður, var frægðarsól Glendalough að rísa.  Eftir dauða hl. Kevins stunduðu meira en 1000 lærisveinar nám í skóla klaustursins.  Annálar skýra frá árásum víkinga og nokkrum eldsvoðum á 12. öld.  Einn ábótanna í Glendalough, Laurence O'Toole, varð erkibiskup í Dyflinni árið 1163.  Anglo-Normannar lögðu klaustrið undir Dyflina.  Eftir eldsvoða í klaustrinu árið 1398 fór því að hnigna.  Árin 1875-80 voru byggingar klausturstins endurbyggðar og síðan hefur þeim verið haldið vel við.

Bezti upphafsstaður til skoðunarferðar um svæðið er við Efravatn, þar sem fyrsta byggðin myndaðist.  Litla hornrétta kirkjan Teampull na Skellig (kirkjan á klettinum) stendur á stalli, sem var jafnaður af manna höndum, í vatninu sjálfu.  Þangað er aðeins hægt að komast á báti.  200 m austar er hellisskúti í klettinum, líklega bronsaldargrafreitur, sem nú er kunnur undir nafninu Ból hl. Kevins.  Við litla brú stendur Reefertkirkjan frá 11. öld.  Hornahleðslurnar bera uppi sperrur kirkjunnar. 

Milli Efravatns og Neðravatns, hægra megin garðsins, eru gamalt steinvirki og þrír steinkrossar og niðri við Neðravatn stendur enn þá einn slíkur.  Þessir krossar eru á hinum svonefnda pílagrímahring.

Aðalbyggingarnar frá blómaskeiði klaustursins eru nálægt hótelinu.  Farið var inn á klaustursvæðið um tvo granítboga.  Í grennd við hliðið er  *Sívaliturn (31 m hár og 5m í þvermál neðst).  Hann er enn þá upprunalegur, nema þakið, sem var endurhlaðið með upprunalegu steinunum.

Vestan Sívalaturns er kirkja hl. Maríu úr graníti (10. öld).  Í henni sýndu menn gröf hl. Kevins lotningu fram á 18. öld.  Handan kirkjunnar er prestsbústaður frá 12. öld í rómönskum stíl með mun eldri lágmynd yfir dyrum.  Rétt handan við bústaðinn eru granítkross (6. eða 7. öld), dómkirkjan, sem er stærsta kirkjan á staðnum (11. og 12. öld) og  *kirkja hl. Kevins úr hörðu flögubergi með bröttu þaki og sívölum turni.  Inni eru margir legsteinar, súluhöfuð og fleiri byggingaminjar, sem fundizt hafa á klaustursvæðinu, s.s. 12. aldar róðukross, stytta af ábóta með fléttuðu skrauti, sem kann að hafa staðið við pílagrímaleiðina til Glendalough o.fl. 

Hægra megin við veginn til Laragh er Trinitykirkjan (11.-12.öld) og 1,5 km austan hennar eru yngstu byggingarnar, setur klausturstjórans, St. Savior's Priory frá 12. öld  (endurbyggðar u.þ.b. 1875), kirkja með fallegum rómönskum lágmyndum á predikunarstólnum og gluggum og aðrar klausturbyggingar.

Allt Glendaloughsvæðið er innan Glendalough Forest Park, sem teygist til norðvesturs upp eftir dalnum.  Þar eru tvær manngerðar tjarnir og Camaderryhæð (700m), sem auka enn á fegurð landslagsins.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM