Dublin Írland,
Ireland Flag


DYFLIN
ÍRLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Íbúafjöldi u.þ.b. 1 milljón með úthverfum (1998).  Dublin, Dyflin  = Baile Átha Cliath á gelísku þýðir Flekavaðsborg (flekar úr tágum) eða =Dubhlinn, sem þýðir Svarthylur.  Borgin liggur í víðum boga meðfram Dyflinarflóa á milli klettahöfðans Howth í norðri og tangans Dalkey í suðri.  Ósar árinnar Liffey eru í höfninni.  Áin skiptir borginni í tvennt, Norður- og Suður Dyflin, og miðborgin liggur beggja vegna hennar.  Margar brýr eru á milli borgarhlutanna.  Sú frægasta er O'Connelbrúin en ofar er brú Föður Matthew, þar sem gamla vaðið er.

Dyflin er höfuðborg lýðveldisins Írlands.  Hún hefur varðveitt svipmót sitt og anda höfuðborgar um aldir, þrátt fyrir hverfulleika írskrar sögu, sem hefur engu að síður mótað hana.  Byggingarstílar 18. og 19. alda setja svip á borgina, einkum opinberar byggingar og einbýlishús í nýklassískum stíl.  Hann birtist aðallega í forhliðum og hvelfingum, sem arkitektarnir Sir Edward Lovett Pearce, Richard Cassels, Thomas Cooley, James Candon og Francis Johnson voru ábyrgir fyrir.  Mörg íbúðarhúsanna frá þessum tíma hafa verið rifin og mörg eru í sömu hættu enn þá, þannig að samræmi gatnanna gæti raskast í framtíðinni, ef ekki verður tekið í taumana.  Gamlar byggingar sem verða tímans tönn að bráð og er ekki haldið við, eru miskunnarlaust rifnar og nýjar, oftast síðri, byggðar.  Sumar sögulegar byggingar eru þó endurnýjaðar.

Elzta írska nafn borgarinnar, sem enn þá er notað, Baile Átha Cliath, vísar til forns vaðs yfir Liffey.  Landafræðingurinn Ptolemy minnist fyrst á staðinn árið 140 og nefnir hann Eblana.  Heilagur Patrik er talinn hafa heimstótt Dyflina árið 448 og snúið mörgum íbúanna til kristinnar trúar.  Kristinn söfnuður óx upp í kringum vaðið.  Árið 840 lögðu Danir borgina undir sig og byggðu virki, þar sem þeir stunduðu verzlun og stjórnuðu ránsferðum.  Brian Boru braut þá á bak aftur við Clontarf árið 1014 en ekki tókst að losna alveg við Danina fyrr en árið 1170, þegar anglo-normannar komu til skjalanna.  Tveim árum síðar kom Henri II til Dyflinnar til að hlýða á hollustueiða írsku höfðingjanna .  Borgin varð eftir það höfuðborg svæðisins undir enskri stjórn og þar voru til varnar anglo-normanskir riddarar.  Í skærum 15. og 16. alda studdu Írar venjulega andstæðinga Englandskonungs.  Á 17. öld studdu þeir samt konungssinna gegn Cromwell, sem lagði undir sig borgina árið 1649, og síðar studdu þeir James II gegn Vilhjálmi af Oraníu.

Götur Dyflinnar voru lýstar árið 1697.  Borgin dafnaði á 18. öld og íbúum fjölgaði úr 65.000 í 200.000.  Þá voru settar á legg skipulagsnefndir, sem lögðu grunn að breiðgötum og steinlagningu þeirra.  Einnig voru margar opinberar byggingar reistar og ríkir einstaklingar byggðu sér hús.

Í upphafi 19. aldar lauk stuttu frelsisskeiði með stjórnmálasambandi við Stóra-Bretland.  Þá hófst tími kúgunar og vopnaðrar andstöðu.  Árið 1844 var borgarstjórinn, Daniel O'Collell, fangelsaður fyrir að ala á óánægju fólks og nokkrum árum síðar voru margir forustumenn handteknir, þ.á.m. Charles Stuart Parnell, og geymdir í Kilmainham fangelsinu.  Leynifélög drápu miskunnarlaust pólitíska andstæðinga sína og aðgerðir aðskilnaðarsinna mögnuðust.

Árið 1916 hófst páskauppreisnin í Dyflinni.  Uppreisnarmenn náðu pósthúsinu og öðrum opinberum byggingum undir sig.  Árið 1919 myndaði Sinn Fein (Við sjálfir) ríkisstjórn í Mansion House undir forustu Eamon de Valera.  Á meðan á borgarastyrjöldinni stóð, hinn 25. maí árið 1921, var tollhúsið brennt.  Þrátt fyrir endurskoðun og lagfæringar samnings Breta og Íra árið 1922, sem gerðu Írland að frjálsu og óháðu ríki, héldu óeirðir áfram í Dyflinni fram til 1927.  Opinberar byggingar voru ekki endurreistar fyrr en árið 1931.

Í seinni heimsstyrjöldinni var Írland hlutlaust.  Þjóðverjar vörpuðu samt sprengjum á Dublin árið 1941 fyrir mistök og drápu 37 manns.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM