Cork Írland,
Ireland Flag


CORK
ÍRLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Cork er stærsta héraðið á Írlandi, 7200 km³.  Austur- og norðurhlutarnir eru öldótt kalksteinslandslag með fallegur dölum.  Í vesturátt hækkar hæðótt landslagið í átt að Kerryhéraði.  Löng strandlengjan er fjölbreytt og falleg, einkum í suðvesturhlutanum, þar sem höfðar teygjast til hafs og margar eyjar eru í víkum á milli þeirra.

Cork er þriðja stærsta borg Írlands.  íbúafjöldinn er u.þ.b. 136þ.  Hún liggur vel við skoðunarferðum um suðurhluta landsins.  Boegin er á báðum bökkum árinnar Lee og teygist upp eftir hlíðunum til norðurs og suðurs.  Áin liggur í tveimur aðalkvíslum um borgina og margar brýr tengja borgarhlutana.

Cork er mikilvæg verzlunarborg vegna góðrar hafnar, þar sem stór hafskip geta athafnað sig.  Hún er útflutningsmiðstöð fyrir landbúnaðarafurðir frá suðurhluta landsins.  Aðaliðnaðnur felst í framleiðslu bjórs, viskís, prjónales, hveitis, svínaflesks auk efna- og málningarverksmiðja og skó- og fataverksmiðja.

Cork er kunn fyrir alls konar menningarfélög.  Lestrar- og vísindafélagið var stofnað árið 1820 og er hið elzta sinnar tegundar á Bretlandseyjum.  Borgin er líka aðalaðsetur Sögu- og fornleifafélagsins (1891), Listaklúbbs dómkirkjunnar og Búnaðarfélags dómkirkjunnar (1857; árleg sýning).

Saga borgarinnar nær alla leið aftur á 6. öld, þegar St. Finbarr stofnaði klaustur, kirkju og skóla á suðurbakka Lee í grennd við núverandi háskóla.  Þar var þá mýri, sem borgin var skírð eftir (Corcaigh = mýrlendi).  Hluti borgarinnar er enn þá nefndur Marsh (mýri).  Skóli Finbarrs efldist og dafnaði í rúmar tvær aldir og borgin byggðist umhverfis hann.  Árið 820 sigldu norrænir menn upp ána Lee, brenndu borgina og rændu nánasta umhverfi hennar.  Þetta endurtóku þeir árin 846 og 1012.  Þeir komu aftur og settust að í Cork og víggirtu svæðið á milli núverandi norður- og suðurhliðabrúnna.  Þar einangruðu þeir sig frá öðrum íbúum landsins, en með tímanum blönduðust þeir þeim.  Þegar Anglo-Normannar réðust inn í landið árið 1172, var Cork enn þá að mestu leyti undir dönskum yfirráðum, þótt einn innfæddur höfðingi, Detmot MacCarthy réði landssvæði í Desmond (Suður-Munster).  Danir vörðust vel og lengi áður en Normönnum tókst að brjóta þá á bak aftur.  Þeir neyddu MacCarthy til að taka sér normannska konu og lögðu hart að honum að votta Henry II hollustu sína.  Henry II byggði herstöð fyrir setulið sitt í Cork og gaf bænum fyrstu borgarréttindin.  Smám saman runnu normönnsku innflytjendurnir saman við íbúana eins og Danirnir.  Þótt ensk lög væru í gildi að nafninu til, réðu hinir ríku kaupmenn því, sem þeir vildu.  Borgararnir voru óvenjulega sjálfstæðir, einkum eftir að Perkin Warbeck, sem krafðist brezku krúnunnar, kom til Cork árið 1892.  Borgarstjórinn og helztu borgarar Cork studdu kröfur hans og fóru með honum til Kent og lýstu hann Ríkharð IV, konung Englands og lávarð Írlands.  Warbeck, borgarstjórinn og aðrir stuðningsmenn voru teknir af lífi í Tyburn og Cork missti réttindi sín um hríð.

Cork varð ein helzta miðstöð írskrar þjóðernishyggju og andstöðu gegn yfirráðum Breta.  Hersveitir lýðveldissinna tóku borgina á sitt vald árið 1921, þegar upp komu miklar deilur og hatrömm átök meðal Íra um það, hvort ætti að samþykkja samning Íra og Breta um skiptingu landsins.  Áköfustu öfgasinnarnir lutu í lægra haldi og landinu var skipt, þannig að norðurhlutinn lýtur enn þá yfirráðum Breta.  Þótt írar séu vingjarnlegir og málglaðir, er viturlegt að nálgast þetta eldfima deilumál með varúð á kránum.  Írar eru prýðilega pólitískir og sennilega eru stjórnmálin vinsælasta umræðuefnið á eftir veðrinu.  Við ættum að kannast við það!

Þótt Cork sé lítil borg og sérstaklega vinaleg, er yfirbragðið alþjóðlegt.  Verzlunarhús eru fjölmörg og golfunnendur fá allar óskir sínar uppfylltar.  Söfnin og óperan eru ágæt.  Krár bjóða sumar upp á lifandi tónlist, en sérstök ástæða er til að vekja athygli gesta á gömludansaballi, sem hægt er að sækja (farið í gegnum Grand Parade Hotel við Grand Paradegötu).  Þar gefst einstakt tækifæri til að hlýða á þjóðlega danstónlist og fjörið er hreint ólýsanlegt.  Í mat og drykk hefur Cork allt það að bjóða, sem gestirnir sækjast eftir.  Vitanlega er nauðsynlegt að bragða á kráarmatnum, en í bænum er einnig að finna mjög góða ítalska veitingastaði og óhætt að mæla með hinum gríska Restaurant Elana (Grand Parade, sími 021-274391).  Þar eru líka nokkrir ágætir og ódýrir kínverskir veitingastaðir í miðborginni (Mandarin Restaurant, 23 Washington Street) og indverskur veitingastaður við sömu götu, Delhi Palace, sem er hinn bezti sinnar tegundar í Cork.

Beri eitthvert hverfi af í miðbæ Cork, er það húgenottahverfið.  Franskir mótmælendur hröktust undan ofsóknum heima fyrir til hins katólska Írlands í byrjun 18. aldar, alls 200.000 manns, og sumir þeirra settust að í Cork.  Í þessu hverfi er að finna urmul lítilla veitingastaða og athyglisverðar sérverzlanir.  Þar eru seldir fornmunir og margvíslegur handgerður varningur að hætti forfeðranna.

Húgenottahverfið er í Paul Street og nágrenni og er að öllu jöfnu líflegasta hverfi borgarinnar, þótt götuskemmtikraftarnir séu að vísu misjafnlega hæfi-leikaríkir.

Jury'shótelið við Western Road kemur þægilega á óvart.  Frá flugvellinum er aðeins 20 mín. akstur þangað, en það fer raunar eftir meðvitunarstigi bílstjórans hverju sinni og hvort hann sér nokkra ástæðu til að skipta úr öðrum gír í þriðja.  Hótelið stendur við eina af kvíslum Lee og er í 5-10 mín. göngufjarlægð frá miðborginni.  Byggingin er vissulega ekki tilkomumikil, enda hafa Írar litla skemmtan af háhýsum.  Herbergin eru allstór og snyrtileg og þjónustan til fyrirmyndar.  Allar helztu sjónvarpsstöðvar Írlands og Bretlands eru í boði auk Eurosport og hinnar þýzku SAT 1.  Starfsfólkið er einkar viðmótsþýtt og morgunverður ríflegur.  Á hótelinu er krá, sem er prýðileg, þangað til maðurinn með skemmtarann hefur leik.  Hótelið er stórt og mikið og þar fer fram margvísleg starfsemi.  Hægt er að detta óvænt inn í brúðkaupsveizlur og stundum leika ágætishljómsveitir á vínstúkunum.

Ágætt er að fara í skoðunarferðir um Cork og nágrenni.  Meðal annars er skoðað gamalt brugghús Jameson viskífyrirtækisins.  Þetta er fróðleg ferð og hægt er að glöggva sig á sérkennum írska viskísins.

Heilsdagsskoðunarferð um Kerryhringinn er mjög áhugaverð, m.a. vegna þess að þetta svæði þykir bera af, hvað náttúrufegurð snertir.  Áð er í nokkrum þorpum, s.s. í Kellarney (Cill Airne = Sloekirkjan), þar sem náttúrufegurð dregur að sér ferðamenn nánast allt árið.  Bærinn er að vísu ferðamannabær, en þar má gera góð kaup í ullarvarningi.  Á sunnudögum hefst öldrykkja og kráarsöngur strax eftir messu.  Nálægt bænum eru hin fögru Killarneyvötn, þar sem skemmtilegast er að aka um í hestvögnum (jaunting cars), fara ríðandi og siglandi.  Í þessum hluta Írlands (á vesturströndinni) er að finna þorp og bæi, þar sem írska tungan, mál keltanna, er enn þá töluð.  Talið er að einungis u.þ.b. 140.000 manns tali þetta sérkennilega og flókna tungumál (hægt að fá ágætar kennslubækur í málfræði).

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM