Qom
er borg við Qom-ána. Hún
er samgöngumiðstöð í landbúnaðarhéraði (korn, baðmull, ávextir,
hnetur og valmúi). Þar er
iðnaður tengdur vefnaði, skógerð, leirmunagerð og glergerð.
Qom er ein hinna heilögu borga landsins.
Þar er 9. aldar gullhvelfdur helgidómur Fatímu, systur
imamsins Reza. Þúsundir
shíta-múslima heimsækja hann ár hvert.
Þarna liggja margir konungar Safavid-fjölskyldunnar í
grafhvelfingum sínum og fornir borgarmúrar
prýða borgina.
Markaðir eru víða og áhugavert ríkissafn.
Qom var stofnuð á 9. öld og var lögð í eyði, þegar mongólski
sigurvegarinn, Tamerlane fór þarna um eins og logi um akur á 14. öld
og þegar Afghanar gerðu innrás á 18. öld.
Hún var höfuðborg Qom-héraðs til 1938.
Iðnþróun varð aðallega á fjórða áratugi 20. aldar.
Nafn borgarinnar er einnig stafað Qum, Kum eða Kom.
Áætlaður íbúafjöldi árið 1991 var tæplega 700 þúsund.
Fatíma
(606-632) var ein dætra Muhammads, sem hann átti með fyrstu og uppáhaldskonu
sinni, Khadija. Hún
giftist Ali ibn Abi Talib, fyrsta frænda Muhammads í föðurætt.
Hún ól honum tvo syni, Hasan og Husain.
Hún og Ali eru því ættforeldrar ímama shíta-múslima og
allra þeirra, sem telja sig afkomendur spámannsins, hvort sem þeir
eru sunni- eða shíta-múslimar. Ismaili-kalífaættin
(909-1171) í Norður-Afríku og Egyptalandi tóku upp nafnið Fatímítar
til að leggja áherzlu á framættir sínar og rétt sinn til embættis
ímama shíta.
Fatíma
nýtur mikillar virðingar meðal langflestra múslima.
Shíta-múslimar sýna henni mesta lotningu og telja hana búna
ofurmannlegum hæfileikum (óskeikula).
Í bókmenntum shíta er hún oft borin saman við guðsmóður
í kristinni trú. Fæðingardagur
hennar og giftingardagur eru meðal merkra daga í lífi hennar, sem shítar
halda upp á. |