Tígris Írak Íran,
Flag of Iraq

Flag of Iran


TÍGRIS
ÍRAK - ÍRAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Tigris á upptök í Tyrklandi og rennur um Írak á leið sinni til Persaflóa.  Hún flytur Meira vatn en Efrat.  Báðar árnar voru og eru lífsins lindir fyrir íbúa svæðanna, sem þær streyma samhliða um.  Meðalrennsli Tígris er 1250 m³/sek og lengdin er 1850 km.  Vatnasviðið er rúmlega 111.000 km².  Tígris myndast uppi í fjöllum Austur-Anatólíu í Suðaustur-Tyrklandi, þar sem tvær meginár sameinast.  Önnur þeirra kemur upp sunnan Hazar-vatns og hin suðvestan Van-vatns og  þær sameinast við Til.  Þaðan hefur fljótið suðaustlæga stefnu inn í Írak eftir að hafa runnið skamman spöl meðfram suðausturlandamærum Sýrlands.  Helztu þverárnar eru Stóra-Zab, Litla-Zab, Diyala og Adhaim, sem renna allar til Tígris í Írak.  Stóra-Zab kemur upp í Tyrklandi en Litla-Zab og Diyala í Íran.  Við al-Qumah í Suður-Írak sameinast Tígris Efrat og þaðan heitir áin Shatt Al-Arab til sjávar.  Borgirnar Diyarbakir (Tyrkland), Mosul, Tikrit, Samarra og Baghdad (Írak) standa allar við fljótið.

Víða er Tígris grunn og margar hindranir eru á siglingaleið um hana, þótt víðast sé hún skipgeng ýmiss konar bátum.  Litlir fljótabátar komast alla leið til Baghdad, sem var stofnuð á vesturbakkanum árið 762 og varð fljótlega ein stærsta og bezt skipulagða borg heims.  Mestur hluti svæðisins milli fljótanna tveggja, sem nú kallast al-Jazirah, var hin forna Mesópótamía.  Rústaborgirnar Nineveh (andspænis Mosul), Seleucia og Ctesiphon eru við ána.

Hámarksrennsli árinnar er frá marz til maí, þegar næstum helmingur ársrennslisins fer um farveginn.  Þá geta orðið veruleg flóð.  Bygging Samarra-stíflunnar 1950 gerði kleift að veita vatni úr Tígris um Tharthar-lægðina til Efrat og draga úr flóðahættu.  Þessar aðgerðir hafa samt ekki orðið sú búbót fyrir landbúnaðinn, sem vænzt var.  Lágmarksrennslið er á tímabilinu ágúst til október.  Áður en stíflur voru byggðar við fljótið flutti það mikið efni til Shatt Al-Arab og olli stækkun óshólmanna út í Persaflóa.  Fjölgun áveitna í Suður-Írak gerði jarðveginn lakari vegna þess, að grunnvatnsborðið hækkaði og mengaðist og aukinn framburður hefur valdið tjóni.  Tyrkir og Sýrlendingar nýta æ meira vatn úr fljótinu, þannig að Írakar fá sífellt minna í sinn hlut.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM