Súmer Írak,
Flag of Iraq


SÚMER
ÍRAK
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Súmer var fornríki í vestanverðri Asíu og samsvaraði Babýlóníu á tímum biblíunnar.  Sögu Súmer hefur verið púslað saman úr brotum frásagna á leittöflum og munum, sem hafa komið í ljós við uppgröft fornminja.  Nafn ríkisins nær aftur til fyrri hluta 3. teinaldar f.Kr.

Sagan. 
Alla fimmtu teinöldina f.Kr. bjó þjóðflokkurinn ubaídíar á svæði því, sem síðar var kallað Sumer.  Þessar byggðir þróuðust smám saman í helztu borgir Súmer, Adab, Eriku, Isin, Kish, Kullab, Lagash, Larsa, Nippur og Úr.  Nokkrum öldum síðar, eftir blómaskeið súmera, komu semítar frá Sýrlandi og Arabísku eyðimörkinni, bæði sem friðsamir landnemar og ræningjar, og blönduðust ubaídíum.  Eftir 3250 f.Kr. fluttist annar þjóðflokkur, líklega frá löndum norðaustan Mesópótamíu, til Súmer og blandaðist íbúunum.  Þetta fólk var súmerar, sem talaði tungu, sem var alóskyld öðrum þekktum tungumálum.

Næstu aldir blómstraði hagur landsins og veldi þess jókst.  Listir og byggingarlist, handverk, trú og siðfræði voru í hávegum hafðar.  Súmerska varð aðaltunga íbúanna og þeir komu sér upp ritmáli, sem byggðist fyrst á myndrænu formi.  Þetta ritmál varð að grundvelli ritaðra samskipta um öll öll Miðausturlönd í næstum 2000 ár.  Súmerar urðu líka fyrstir til að nota hjólið snemma á tímabili sínu (3500 f.Kr.).  Þessi staðreynd olli því, að margir trúðu og trúa því enn, að súmerar hafi fundið upp hjólið.

Fyrsti konungur súmera, sem getið er í heimildum, var Etana, konungur Kish (2800 f.Kr.).  Honum er lýst á leirtöflu mörgum öldum síðar sem manninu, sem kom á stöðugleika í ríkinu.  Skömmu eftir valdatíð hans stofnaði konungur að nafni Meskiaggasher höfðingjaætt, sem var í samkeppni við konungsfjölskylduna í Kish, miklu sunnar í landinu.  Hann náði völdum á svæði, sem nær frá Miðjarðarhafi að Zagros-fjöllum og sonur hans, Enmerkar (2750 f.Kr.) tók við af honum.  Valdatími hans er þekktur vegna herleiðangurs hans gegn Aratta, borgríki norðaustan Mesópótamíu.  Lugalbanda, einn hershöfðingjanna, tók við af Enmerkar.  Herferðir og sigrar Enmerkar og Lugalbanda eru kjarni margra þjóðsagna frá snemmsögulegum tímum Súmer.

Í lok valdatíðar Lugalbanda varð Enmebaragesi (2700 f.Kr.), konungur af Etanaætt í Kish, konungur Súmer.  Meðal stórkostlegra afreka hans var sigurinn yfir konungsdæminu Elam og bygging Enlil-hofsins í Nippur.  Enlil var aðalguðinn í mesta hofi súmera.  Nippur varð smám saman að trúarlegri og menningarlegri miðstöð landsins.

Sonur Enmebaragesis, Agga (fyrir 2650 f.Kr.?), var síðasti konungur Etana-ættarinnar og laut í lægra haldi gegn Mesanepada, konungi Úr (2670 f.Kr.), sem stofnaði fyrstu höfðingjaætt Úr.  Skömmu eftir dauða Mesanepada, jókst veldi borgarinnar Erech undir stjórn Gilgamesh (2700-2650 f.Kr.).  Afrekum hans er lýst í söguljóðunum Gilgamesh.

Einhvern tíma fyrir 25. öld f.Kr. færðist veldi súmera undir stjórn Lugalanemundu frá Adab (2525-2500 f.Kr.) út, allt frá Zagros- til Taurusfjalla og frá Persaflóa að Miðjarðarhafi.  Næstur tók Mesilim (2500 f.Kr.), konungur Kish, við völdum.  Í lok valdatíma hans var ríkinu farið að hnigna.  Súmersku borgríkin bárust stöðugt á banaspjótum og voru orðin hernaðarlega veikburða af þeim sökum.  Einum konunga Lagash, Eannutum (2425 f.Kr.), tókst að færa veldi sitt yfir allt Súmer og nokkur nágrannalönd.  Þessir landvinningar voru þó ekki langæir.  Síðasti eftirmaður hans, Uruinimgina (2365 f.Kr.), kom á margs konar félagslegum umbótum en varð að láta í minni pokann fyrir Lugalzagesi (2370-2347 f.Kr.), landstjóra nágrannaborgríkisins Umma.  Næstu tuttugu árin var hann voldugasti konungur Miðausturlanda.

Í kringum 23. öld f.Kr. hafði dregið svo úr veldi súmera, að þeir gátu ekki varið ríki sitt.  Semítíski konungurinn, Sargon I hinn mikli (2335-2279 f.Kr.) náði öllu þessu landsvæði undir sig og stofnaði nýja höfuðborg í Agade, nyrzt í Súmer.  Hún varð auðugasta og voldugasta borg heims.  Innfæddir í norðurhlutanum og sigurvegarar þeirra blönduðust smám saman og mynduðu ættbálk, akkadía, sem talaði sína tungu. Súmer fékk nýtt nafn, Súmer og Akkad.

Höfðingjaætt akkadía var við völd í u.þ.b. eina öld.  Á valdatíma sonarsonar Sargons, Naram-Sin (2255-2218 f.Kr.), lögðu hinir herskáu gútíar frá Zargos-fjöllum Agade-borg í eyði.  Síðan lögðu þeir Súmer undir sig og skildu eftir sig eyðileggingu og dauða, hvar sem þeir fóru um.  Nokkrum kynslóðum síðar losuðu súmerar sig undan oki gútía.  Lagash-borg náði aftur sínum fyrri ljóma, einkum á valdatíma Gudea (2144-2124 f.Kr.), sem var sérstaklega ráðvandur og hæfur landstjóri.  Vegna þess, hve margar styttur hafa fundizt af Gudea, er hann kunnastur meðal nútímamanna.  Súmerar fengu fullt sjálfstæði frá gútíum, þegar Utuhegal, konungur Erech (2120-2112 f.Kr.), vann úrslitasigur, sem var síðar greinilega getið í bókmenntum súmera.

Einn hershöfðingja Utuhegal, Ur-Nammu (2113-2095 f.Kr.), stofnaði þriðju höfðingjaættina í Úr.  Auk þess að vera sigursæll hershöfðingi, vann hann einnig að félagslegum umbótum og samdi lagabálk, sem tók gildi u.þ.b. þremur öldum áður en lög Hammurabis tóku við.  Shulgi (2095-2047 f.Kr.), sonur Ur-Nammu, var slyngur hermaður, hæfur stjórnmálamaður og bókmenntasinnaður.  Í valdatíð hans döfnuðu skólar og æðri menntastofnanir.

Snemma á annari teinöld f.Kr. réðust amorítar, sem voru semískir hirðingjar frá eyðimörkinni í vestri, inn í Súmer og Akkad.  Þeir náðu smám saman fótfestu í helztu borgunum eins og Isin og Larsa.  Óreiðan og ólgan í kjölfar þessarar innrásar hvatti elamíta til árásar (2004 f.Kr.) á Úr og handsama síðasta konung hennar, Ibbi-Sin (2029-2004 f.Kr.).

Aldirnar eftir fall Úr linnti átökum um yfirráðin í Súmer og Akkad ekki, fyrst milli Isin og Larsa og síðar milli Larsa og Babýlon.  Hammurabi frá Babýlon sigraði Riv-Sin frá Larsa (1823-1763 f.Kr.) og varð alráður í Súmer og Akkad.  Valdataka hans markaði endalok ríkis súmera en menning þeirra hélt áfram að dafna í Babýlóniu.


Fornleifafræði.  Fyrir miðja 19. öldina vissi enginn um fyrrum tilvist súmera og tungumáls þeirra.  Fyrstu fornleifarannsóknirnar, sem leiddu til uppgötvunar Súmer, fóru fram á árunum 1842-54 á svæðum í Assýriíu, Nineveh, Dur Sharrukin og Calah og þar voru franskir og brezki  fornleifafræðingar að verki (Paul Émile Botta og Victor Place og Sir Austen Henry Layard og Sir Henry Creswicke Rawlinson) auk írakska fornleifafræðingsins Hormuzd Rassam.  Þúsundir leirtaflna og áletrana frá fyrstu teinöld f.Kr., að mestu á akkadísku, fundust.  Þess vegna álitu flestir fræðimenn í fyrstu, að allar mesópótamískar áletranir væru á akkadísku.  Rawlinson og írski presturinn Edward Hincks rannsökuðu þessar áletranir og komust að því, að nokkrar þeirra voru ekki á semítísku máli.  Árið 1869 stakk franski fornleifafræðingurinn Jules Oppert upp á því, að nafn tungumálsins skyldi dregið af nafni Súmer og Akkad og það yrði kallað súmerska.

Síðla á 19. öld og snemma á hinni 20. héldu franskir fornleifafræðingar áfram uppgreftri í Lagash með stuðningi Louvre-safnsins og bandarískir fornleifafræðingar í Nippur með stuðningi háskólans í Pennsylvaníu.  Rannsóknir fóru fram annars staðar, s.s. í Adab, Erech, Eridu, Eshnunna, Jemdet Nasr, Kish, Shuruppak, Tell al-Ubaid, Tutub og Úr.  Áveituborgin Kish, 13 km austan Babýlon við Efrat, var ein helzta borg Súmer.  Þar hafa rannsóknir síðan 1922 leitt til funda mikils magns leirmuna.  Fornleifafræðingar hafa líka uppgötvað hof Nebúkadnesars II, konungs Babýlóníu, og Nabonidus (556-539 f.Kr.) og höll Sargons í Akkad en rústir þeirrar borgar ná yfir tímabilið frá þriðju teinöld til 550 f.Kr.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM