Írak sagan,
Flag of Iraq


ÍRAK
SAGAN
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Saga Mesópótamíu hófst með menningu súmera, sem komu frá hálendissvæðum Íran og Norður-Anatólíu í kringum 3000 f.Kr.  Tvö konungsdæmi, Sumer og Akkad, sameinuðust um 2350 f.Kr. undir stjórn Sargon frá Akkad.  Í kringum 2000 f.Kr. tóku amorítar við völdum.  Hammurabi, konungur þeirra gerði Babýlon að frægri borg, en kunnastur er hann fyrir lagabálkinn, sem ber nafn hans.  Að honum látnum gerðu hittítar árásir á landið og síðar kassítar, sem stofnuðu konungsríkið Assýríu í kringum 1350 f.Kr.  Fyrsta höfuðborg kassíta var Ashur og síðar Nineveh (Mosul).

Árásir margra ættflokka drógu smám saman úr mætti Assýríu á næstu öld og kaldear, með Nebúkadnesar II í fararbroddi, endurbyggðu Babýlon og stjórnuðu í 40 ár.  Persneski konungurinn Cyrus mikli réðist inn í landið árið 539 f.Kr. og Persar réðu Babýlóníu þar til Alexander mikli tók við 331 f.Kr.  Þá tóku seljúkar við og stjórnuðu í 175 ár og grísk menningaráhrif réðu mestu.  Persneskir flokkar partíana og síðar sassanída stofnuðu nýja höfuðborg, Ctesiphon, í grennd við miðja Tígris.  Persar byggðu mörg áveitukerfi og grófu net af skurðum.

Nýtt tímabil hófst með landvinningum araba 637 e.Kr, þegar ættflokkar frá Arabíu breiddu út fagnaðarboðskap islam og lögðu Mesópótamíu undir sig.  Landvinningar araba utan Arabíu, snemma á þessu tímabili, voru tiltölulega auðveldir vegna þess, að átök milli heimsveldis sassanída  og Býzantínumanna hafði dregið úr mótstöðuafli þessara landa.  Múslimar komu sér upp fyrstu höfðingjaættinni, Umayyad, og gerðu Damaskus í Sýrlandi að höfuðborg sinni.  Ágreiningur um ríkiserfðir í kringum 750 og milli arabískra og persískra múslima leiddi til þess, að Abbasídættin í Írak komst á legg og höfuðborg hennar var Baghdad.

Abbasídættin var við völd 750-1258 og á þeim tíma blandaðist menning arabískra múslima og menntun persískri stórnunarlist og öðrum listum.  Á þessum tíma voru verk margra grískra og rómverskra heimspekinga og vísindamanna þýdd á arabísku og stundum var kenningum þeirra hrært saman við arabísk gildi og menningu.

Sögur Scheherazaed eins og þær birtast í „Arabískum nóttum” gefa hugmynd um lífið við hirð eins abbasídakonunungsins, Kalíf Harun ar-Rashid.  Sögurnar ná líka til Sindbaðs sæfara, Alí Baba og þjófanna fjörutíu og Alladíns og lampans.  Þær lýsa fatnaði, hirðlífi og stjórnsýslu þessa tíma og hlutverkum stórvesíra (konunglegra ráðherra) við stjórn ríkisins eins og þau voru í Persíu fyrrum.

Glæsileiki abbasídatímans fölnaði, þegar áhrifa frá hinu tyrkneska heimsveldi seljúka fór að gæta.  Esfahan, nú í Íran, var aðalmiðstöð þeirra.  Tyrkir við hirðina í Baghdad voru í áhrifastöðum.  Hlutverk stórvesíranna óx og í upphafi 12. aldar var kalífinn aðeins konungur að nafninu til.  Þótt Tyrkir næðu öllum völdum í kalífaríkinu, breyttist skipulag ríkisins ekki fyrr en mongólar náðu Baghdad á sitt vald árið 1258.  Þá leið kalífaríki abbasída undir lok, þótt ættin héldi völdum í Egyptalandi.  Írak varð að samsafni smárra konungsríkja.

Tyrkneska höfðingjaættin Osman náði lokst fótfestu í Anatólíu og stofnaði furstadæmi, sem varð síðar að Ottómanaveldinu.  Þeir ruddu síðustu leifum áhrifa Býzantínumanna brott.  Þeir unnu Baghdad árið 1534 og sendu þangað landstjóra.  Nokkrum sinnum reyndi höfðingjaætt í Íran (Safavídar) án árangurs að ná undir sig hlutum af Írak.  Soldán Ottómana réði Egyptalandi, Sýrlandi og hlutum Arabíu, þ.m.t. Mekka og Medína.

Árangursrík stjórn Íraks byggðist á friðsamlegri sambúð við ættflokka bedúína, sem voru margir mjög áhrifa- og valdamiklir í dreifbýlinu.  Stjórn Ottómana studdi áhrifamestu ættflokkana til að halda þeim á mottunni.  Ottómanar veittu áhrifamiklum ættarhöfðingjum fjárhagsstuðning til að halda uppi lögum og reglu og hindra árásir á borgir landsins.  Þetta kerfi dugði vel um aldir.

Í lok 19. aldar jókst stuðningur nokkurra ráðandi afla innan Ottómanastjórnarinnar við stefnu, sem ýtti innfæddum ættflokkum til hliðar.  Einn þessara hópa var Ungir Tyrkir, sem börðust fyrir útbreiðslu tyrknesku og alræði Tyrkja í ríkinu.  Þegar þeir komust til valda, sendu þeir landstjórnir, sem léku aðra þjóðflokka illa, til hinna ýmsu héraða ríkisins.  Írakar í borgum og sveitum landsins sýndu þessum nýju stjórnunaraðferðum mikla andstöðu og menntamenn landsins fóru að gera áætlanir um aðskilnað landsins frá Ottómanaveldinu.

Ottómanar studdu Þjóðverja í fyrri heimsstyrjöldinni.  Bretar, sem lögðu áherzlu á vörzlu leiðarinnar til Indlands um Miðausturlönd, gerðu Egyptaland að verndarsvæði og studdu hasemítahöfðingjana í Mekka og Medína í uppreisn þeirra gegn Ottómönum.  Bretar sendu líka könnunarleiðangur frá Indlandi til Íraks, ekki eingöngu til að tryggja almenna hagsmuni sína í Miðausturlöndum, heldur einnig til að gæta hagsmuna Brezk-Íranska olíufélagsins.  Hersveitir Breta lentu við Al Faw í nóvember 1914 og héldu til Al Kut, þar sem tyrkneskar hersveitir umkringdu þær og hvöttu þær til að gefast upp.  T.E. Lawrence, sem varð síðar kunnur sem Arabíu-Lárens, reyndi árangurslaust að kaupa brezku hersveitunum grið.  Þær gáfust loks upp fyrir Tyrkjum í apríl 1916.  Bretar sendu fleiri hersveitir til landsins og hernámu Baghdad í marz l917.

Í lok styrjaldarinnar samþykkti Þjóðabandalagið að Bretar stjórnuðu Írak þar til landsmenn hefðu kosið sér stjórn.  Margir Írakar höfðu horn í síðu Breta og margir ættflokkar gerðu uppreisn í norðurhluta landsins 1920.  Bretar brugðust þannig við, að setja meðlim hasemítafjölskyldunnar, Ali ibn Husayn, í konungsstól sem Faisal konung árið 1921.  Írak fékk sjálfstæði 1932 en Bretar héldu þó nokkrum yfirráðum í innanríkismálum og viðskiptum með sérstökum samningi.  Árið 1945 varð írak meðlimur í Sameinuðu þjóðunum og Arababandalaginu.

Í landinu ríkti þingbundinn konungur til 1958, þegar hópur liðsforingja í hernum gerðu byltingu og ráku stjórnina frá völdum.  Hinn ungir konungur hasemíta, Faysal II, og krónprinsinn, Abd al-Ilah, voru báðir líflátnir.  Þá var lýst yfir lýðræði í landinu undir stjórn Abdul Karim Kassem, stórfylkisforingja.

Aðrir aðilar byltingarinnar voru líka í valdaleit.  Nýjum stjórnmálaflokki, Bath, tókst að telja hernum trú um að Kassem væri óhæfur og honum yrði að koma frá völdum.  Árið 1963 bylti formaður Bath-flokksins, Ahmad Hassan al-Bakr, Kassem úr stóli og lét drepa hann.  Þá var stofnað byltingarráð undir stjórn forseta, Abd as-Salam Arif, sem var ekki meðlimur Bath-flokknins.

Árið 1965 brutust út átök milli stjórnarandstæðinga og Bath-manna í byltingarráðinu.  Annar hópurinn vildi sameiningu við Egyptaland en hinn vildi nánara samband við Sýrland.  Tilraun til að víkja Arif úr embætti mistókst en síðar fórst hann í þyrluslysi.  Byltingarráðið kaus pá bróður hans, Abd ar-Rahman Arif, í forsetaembættið.  Átök milli Bath-manna og Egypzku sameiningarmanna héldu áfram til 1968, þegar Bakr bylti forsetanum úr sessi.

Undir hans stjórn jukust átök milli hers landsins og kúrda.  Síðla á þriðja áratugnum unnu Írak og Íran saman að því að halda kúrdum í skefjum báðum megin landamæranna.  Eftir byltinguna 1958 fóru bæði ríkin að styðja kúrda handan landamæranna til skæruliðastarfsemi.  Árið 1974 ákvað Írak að herja á norðurhéruðin til að bæla þessa starfsemi niður.  Í marz 1975 komst Írak að samkomulagi við Íran um lok þessa stuðnings.  Fjöldi kúrda flúði til Írans.  Stjórn Bakr efldi samband landsins við Sovétríkin, sem studdu þá í stríðinu við kúrda.

Sambandið við Íran var þrungið spennu.  Þegar keisaranum var velt úr sessi árið 1979, studdi Írak nýju ríkisstjórnina í fyrstu en stríð brauzt út á milli landanna árið eftir, þegar Írakar sögðu upp samningi við Íran um aðgang að Shatt al-Arab flutningaleiðinni.  Þarna bjó einnig að baki sú staðreynd, að Íranar vildu vinna öllum árum að útbreiðslu byltingarinnar til Íraks.

Árið 1979 sagði Bakr af sér sem forseti og árið 1980 tók Saddam Hussein at-Takriti við.  Hann efndi til fyrstu kosninga til löggjafarþings síðan konungi hasemíta var velt úr sessi 1958.  Stríðið milli Íraks og Írans hélt áfram og magnaðist, þrátt fyrir tilraunir til að stilla til friðar.  Írakar gerðu sprengjuárásir á margar borgir í Íran og notuðu til þess eldflaugar, sumar hlaðnar sýklavopnum.  Samið var um vopnahlé í ágúst 1988.

Í júlí 1990 sökuðu Írakar Kuveita um offramleiðslu og stuld á olíu frá umdeildu svæði við landamæri ríkjanna.  Eftir að samingaumleitanir fóru forgörðum snemma í ágúst réðust írakskar hersveitir inn í Kuveit, lögðu undir sig höfuðborgina, ráku stjórnina frá völdum og innlimuðu landið.  Þegar öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti viðskiptabann á Írak, hófst mikill vígbúnaður bandamanna í Sádi-Arabíu undir stjórn BNA til varnar Sádiaröbum, ef þörf krefði.  Innan sólarhrings frá því, að skilyrði Sameinuðu þjóðanna um brotthvarf Íraka frá Kuveit var liðinn 15. janúar 1991 réðust bandamenn (37 þjóðir) á Írak á landi, sjó og úr lofti.  Þessi hernaður var kallaður „Eyðimerkurstormur”.  Írakar voru hraktir út úr Kuveit, þegar bandamenn réðust á þá á landi 27. febrúar 1991.  Orrustan stóð í 100 klst.  Írakar beygðu sig undir vilja Sameinuðu þjóðanna, að nafninu til a.m.k. og lofuðu að eftirlitsmönnum skildi veittur aðgangur að vopnabúrum til að tryggja útrýmingu gereyðingarvopna og sýklavopna.  Kúrdar komust í sviðsljósið eftir að Írakar bældu uppreisn þeirra niður með mikilli hörku og líklega notkun sýklavopna.  Uppreins shíta í suðurhluta landsins var einnig bæld niður.

Margir hafa velt fyrir sér, hvers vegna bandamenn gengu ekki milli bols og höfuðs á Saddam Hussein í Flóabardaga.  Hann hefur stöðugt streitzt við og neitað að fara eftir samningum um eftirlit með eyðingu framangreindra vopna.  Sumarið 2002 hófu BNA undir stjórn Bush yngri forseta undirbúning að innrás í Írak til að koma Hussein frá völdum, þar sem hann er talinn hafa stutt og styðja enn þá alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi.

Innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra hófst síðan og Bush yngri, forseti, lýsti stríðinu loknu í apríl 2003.  Allt frá þessum svokölluðu stríðslokum hafa menn Saddams Husseins, sem var í felum til 12. desember 2003, ásamt öðrum skæruliðahópum, staðið að árásum á heri bandamanna, útibú Sameinuðu þjóðanna í Bagdad og  Rauða krossinn með miklu mannfalli á báða bóga. 

Saddam fannst að kvöldi föstudags eftir að bandamenn höfðu fengið vísbendingar um hæli hans.  Það tók nokkra leit, þar til hann fannst skítugur og lúsugur í neðanjarðarbyrgi, hálfgerðri rottuholu, og var líklega fluttur til höfuðstöðva Bandaríkjahers í Qatar.  Hann gafst mótþróalaust upp, þótt hann hefði skammbyssu sér við hlið í holunni.  Bandaríkjaþing samþykkti loks 3. nóvember 2003 fjárveitingu til áframhaldandi hernaðar og uppbyggingar í Afghanistan og Írak, alls US$ 87 miljarða.

Saddam Hussein var dæmdur til dauða fyrir glæpi gegn mannkyni í desember 2006 og líflátinn (hengdur) milli jóla og nýárs.  Þessi aftaka mæltist mjög misjafnlega fyrir um allan heim, m.a. vegna þess, að ekki var haft fyrir því að bera hann öllum þeim sökum, sem voru eftir á borðinu.  Margir óttast, að hryðjuverkin í Írak og annars staðar í heiminum aukist um allan helming vegna aftökunnar.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM