Karbala (Kerbela) er borg í Mið-Írak, 88 km suðvestan Baghdad, sem hún
er tengd með járnbraut. Hún er helgasta borg landsins vegna „Orrustunnar
við Karbala” árið 680 milli sunníta- og shítamúslima. Sonarsonur
Múhameðs, leiðtogi shíta, féll í orrustunni og grafhýsi hans er einhver
mesti helgistaður shítamúslima og pílagrímastaður. Grafhýsið var
eyðilagt 1801 en endurbyggt fljótlega. Shítamúslimar telja sig eiga
visa vist í paradís, fái þeir legstað í Karbala, og því eru grafasvæði
gríðarstór. Borgin er einnig brottfararstaður pílagríma á leiðinni til
Mekka.
Karbala er enn þá verzlunarstaður. Gamli borgarhlutinn er umgirtur
múrum. Nýjar byggingar eru sunnan hans. Karbala hefur oft
verið vettvangur ófriðar milli alþýðu og stjórnarherra, bæði innlendra og erlendra.
Næstum helmingur borgarbúa er af íröskum uppruna. Vestan Karbala,
í eyðimörkinni, eru rústir kastala al-Ukhaidir. Byggingartími og
tilgangur hans eru á reiki, en líklega var hann byggður síðla á 8. öld.
Byggingarstíllinn er kenndur við Sasan. Áætlaður íbúafjöldi árið
1985 var 185 þúsund.
Orrustan við Karbala.
Hinn 10. október (10. Muharram AH 61) laust saman herjum Husayn ibn
‘Ali, sonarsonar Múhameðs, og arftaka kalífadæmisins, Yazid I af
Umayyad-ætt. Husayn féll og höfðingjaættin tryggði sig í sessi. Síðan
þessir atburðir gerðust hefur 10. október verið helgur sorgardagur (‘Ashura’)
meðal fylgjenda Husayn.
Þegar
Yazid I tók við völdum af föður sínum vorið 680, efndu skæruliðar
tengdasonar hins látna spámanns Múhameðs, til uppreisnar í Kufah og buðu
Husayn að leita skjóls há þeim og buðu honum kalífadæmið Írak að loknum
átökunum. Yazid I, sem hafði njósnir af uppreisn shíta í Kufah, sendi
‘Ubayd Allah, landstjóra í Basra til að koma á lögum og reglu. Hann
kvaddi ættarhöfðingjana saman og gerði þá ábyrga fyrir hegðun þegna
sinna. Husayn lagði engu að síður af stað frá Mekka með fjölskyldu sína
og bjóst við konunglegum móttökum íbúa Kufah. Þegar hann kom til
Karbala, vestan Efratfljóts, beið hans her ‘Ubayd Allah undir stjórn
‘Umar ibn Sa’d, sonar stofnanda Kufah. Lið Husayns lenti í orrustu og
treysti á aðstoð frá Kufah en var brytjað niður.
Hollir
fylgismenn Husayns í Kufah, sem voru í rauninni valdir að þessum
hörmulega atburði, litu hann sem harmleik og hann fékk fljótlega á sig
rómantískan og andlegan blæ. ‘Umar, ‘Ubayd Allah og jafnvel Yazid fengu
á sig morðingjastimpil og æ síðan hafa shítamúslimar bölvað þeim. Meðal
þeirra er 10. Muharram almennur sorgardagur. Írakar, þó einkum
Karbalabúar, halda helgileika byggða á harmsögu fjölskyldu Husayns.
Grafhýsi hins hálshöggna pílslarvottar Husayns í Karbala er meðal
helgustu staða heims. |