Flóabardagi Írak,
Flag of Iraq


FLÓABARDAGI
ÍRAK

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Flóabardagi var háður í Kuveit og Írak í janúar og febrúar 1991.  Upphaf þessa skamma stríðs var innrás Íraka í Kuveit undir stjórn Saddam Hussein á þeim forsendum, að Kuveit væri sögulegur hluti Íraks og Kuveitar væru að stela olíu af umdeildu olíusvæði við landamærin.  Tilgangurinn var augljóslega að ná valdi yfir olíubirgðum Kuveit.  Herafli Kuveit stóðst Írökum ekki snúning og landið var sett undir harðhenta setuliðsstjórn.  Írak innlimaði Kuveit opinberlega 8. ágúst.  Á tímabilinu ágúst til nóvember samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fjölda ályktana, sem náðu hámarki í kröfunni um brottför Íraka frá Kuveit fyrir 15. janúar 1991.  Fjölþjóðlegur her á vegum Sameinuðu þjóðanna, alls 500.000 manna land-, sjó- og flugher var kvaddur saman gegn 540.000 manna her Íraka.  Fjölþjóðlegi herinn var aðallega frá BNA, Sádi-Arabíu, Englandi, Egyptalandi, Sýrlandi og Frakklandi.  Hernaðaraðgerðin var kölluð „Eyðimerkurskjöldur” og var ætlað að hindra frekari árásir á Sádi-Arabíu.

Yfirmaður heraflans var bandaríski hershöfðinginn H. Norman Schwarzkopf.  Bandamenn hófu gríðarlegar loftárásir á hernaðarmannvirki í Írak og Kuveit innan 24 klst frá því, að frestur Sameinuðu þjóðanna rann út.  Bandamenn notuðu hátæknivorp, s.s. leysistýrðar sprengjur og eldflaugar, auk hinna hefðbundnu.  Þessi hernaðaraðgerð var kölluð „Eyðimerkurstormur”.  Eftir að bandamenn höfðu náð yfirburðastöðu eyðilögðu þeir stjórnstöðvar Íraka, einkum í Baghdad og Al Basrah, samgönguleiðir og fjarskiptanetið milli Baghdad og hersveita landsins og héldu uppi stöðugum árásum á landher Íraka, sem var í skotgröfum meðfram landamærum Sádi-Arabíu og 125.000 manna sérsveitir landsins í suðausturhluta þess og í norðurhluta Kuveit.  Mannfall í liði bandamanna var tiltölulega lítið.  Nokkrar írakskar flugvélar voru skotnar niður og miklu fleiri voru eyðilagðar í byrgjum eða komust undan á flótta.  Írakar reyndu að hefna ófaranna með því að nota færanlega skotpalla til að skjóta eldflaugum (scud) inn í Sádi-Arabíu og Ísrael, sem studdi stríðsreksturinn án þess að taka þátt í hernaðinum, í þeirri von að arabar sameinuðust gegn bandamönnum.  Bandamenn svöruðu þessum aðgerðum með gagneldflaugum og árásum á færanlegu skotpallana.

Eftir mikið og sívaxandi mannfall, bæði borgara og hermanna, samþykktu Írakar um miðjan febrúar að flytja herafla sinn frá Kuveit.  Bandamenn höfnuðu fjölda skilyrtra tilboða frá Írökum, sem barst fyrir milligöngu fyrrum Sovétríkjanna.  Bandamenn hófu skipulagðar loftárásir og kölluðu aðgerðina „Eyðimerkursverð”.  Þeim tókst að rjúfa varnarlínur Íraka við landamæri Sádi-Arabíu og fóru eins og eldur í sinu í gegnum Suður-Írak og komust að baki aðalher Íraka og komu í veg fyrir að sérsveitir Íraka gætu flúið eftir aðalleiðum.  Innan 100 klst var Kuveitborg tekin af Írökum og tugir þúsunda írakskra hermanna gerðust liðhlaupar, gáfust upp eða voru teknir höndum eða drepnir.  Mannfall bandamanna var ótrúlega lítið.  Hinn 28. febrúar lágu 149 þeirra í valnum og 513 voru særðir.  Eyðileggingin í Kuveit var gífurleg, því að írakskir hermenn á flótta rændu og rupluðu í Kuveitborg og kveiktu í flestum olíulindum landsins.

Fulltrúar Íraka féllust á skilyrði bandamanna um bráðabirgðavopnahlé 3. marz og stöðvun bardaga 6. apríl.  Írakar samþykktu að greiða Kuveit stríðsskaðabætur, gefa upp geymslustaði efna- og sýklavopna og að eyða gjöreyðingarvopnum sínum.  Í kjölfarið bar sífellt meira á kvörtunum eftirlitssveita Sameinuðu þjóðanna, sem áttu að fylgjast með því, að Írakar stæðu við þennan samnging, vegna tregðu og blekkingaleiks Íraka, þegar þeir áttu að sýna fram á framkvæmdina.  Þessi þróun olli því, að Sameinuðu þjóðirnar afléttu ekki viðskiptabanni sínu á Írak.  Shíta-múslimar í suðurhluta landsins og kúrdar í norðurhlutanum gerðu misheppnaðar uppreisnir, sem var mætt með mikilli hörku.  Bandamenn afmörkuðu verndarsvæði fyrir kúrdana og shítana með flugbanni írakskra flugvéla yfir þessum landshlutum.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM