Efrat
kemur upp í Tyrklandi og rennur um Sýrland og Írak áður en hún
fellur í Persaflóa um Shatt Al-Arab. Hún, ásamt Tígris, fluttu mestan hluta þess vatns, sem þurfti
til að menning Mesópótamíu þrifist og dafnaði.
Efrat er enn þá mikilvæg þessum heimshluta og nýting hennar
veldur stöðugri spennu þar. Áin
er u.þ.b. 2735 km löng og
meðalflæði hennar er 887 m³/sek.
Vatnasvið hennar er í kringum 444.000 km² og tæplega 30% þess
eru í Tyrklandi en þaðan koma þó 94% vatnsmagnsins.
Þar mynda margar ár, s.s. Karasu, Murat o.fl., sem sameinast nærri
Elazig, Efri-Efrat. Áin
rennur inn í Sýrland u.þ.b. 120 km norðaustan Halab-borgar (Aleppo).
Stór á, Khabur, sem á upptök í Suðaustur-Tyrklandi og Norðaustur-Sýrlandi,
rennur til hennar nokkurn veginn samsíða Tígris.
Farvegur Efrat er einnig samsíða Tígris og eftir að þessar
meginmóður renna inn í Írak er vegalengdin milli þeirra óvíða
meiri en 160 km. Þær
renna saman nærri Al-Basrah í Írak og Efrat myndar vesturmörk svæðisins
al-Jazirah (Eyjan). Neðan ármóta beggja ánna heitir hún Shatt Al-Arab.
Efrat
er getið í biblíunni (Móses I 15:18; Móses V 1:7 og 11:24; Jósúabók
1:4). Sögulega séð er áin
einhver hin mikilvægasta í heimi.
Dalur Tígris og Efrat voru fæðingarstaðir hinna fornu
menninga Assýríumanna, Babýlóníumanna og Súmera.
Fornborgirnar Babýlon og Úr voru byggðar við ána.
Öldum saman lágu mörk Rómarveldis við árnar og á dögum
Austur-rómverska keisaradæmisins blómstraði fjöldi borga og listamiðstöðva
við þær. Fornleifarannsóknir
á bökkum ánna hafa leitt í ljós ótrúlegan auð fornminja og sögulegra
upplýsinga.
Efrat
var og er gífurlega mikilvæg til áveitna og af þessum sökum ríkir
mikil spenna milli landa (Tyrklands, Sýrlands og Íraks) um nýtingu
hennar til raforkuframleiðslu og áveitna. Tyrkir byggðu gríðarmikla stíflu, Ataturk, sem er meðal
margra slíkra, byggðra og óbyggðra, í tengsum við landnýtingu í
Suðaustur-Anatólíu. Stöðuvatnið
bak við hana er 815 km² að flatarmáli og það tók einn mánuð að
fylla það. Þessar aðgerðir
ollu mikilli röskun á flæði árinnar og truflaði nýtingu hennar í
Sýrlandi og Írak. Sýrlendingar
vígðu stórt orkuver við Byltingarstífluna (al-Thawrah) árið 1973,
þar sem uppistöðulónið, Assadvatn, varð 640 km² að flatarmáli.
Árið 1975 lá við stríði milli Íraks og Sýrlands vegna
vatnsnýtingarinnar. Landbúnaður
í Írak er stundaður á svæðum, þar sem vatnsskortur er mikill, þannig
að bændur eiga allt sitt undir áveitum.
Hámarksrennsli árinnar inn í Írak er á tímabilinu apríl-maí.
Áin jafnast á við 40% árlegra vatnsbirgða landsins.
Rennslissveiflur valda stundum miklum þurrkum og töfum á
flutningum nauðsynja. Al-Haditha-stíflan
var byggð til að geyma vatn fyrir Írak en gagnið af henni hefur verið
takmarkað. Allt frá 1950
hefur verið hægt að beina flóðvatni úr Tígris um Tharthar-lægðina
til Efrat en er þó ekki nema takmörkuð lausn á vandamálum Íraks.
Saltinnihald árvatnsins í Írak er mikið vandamál.
Árvatnið verður salt vegna steinsalts í jörðu og notkunar
ýmissa efna meðfram efri bökkum árinnar.
Ríkin þrjú við ána munu halda áfram að gera sér sem
mestan mat úr ánni og því verður hún áfram efni til aukinnar pólitískrar
spennu í þessum heimshluta. |