Babýlónía
(Hlið guðanna) var fornt konungsdæmi í Mesópótamíu, sem hét
upphaflega Sumer og Akkad, milli fljótanna Tígris og Efrat, sunnan núverandi
Baghdad í Írak. Menning
íbúanna blómstraði frá 18.-6. öld f.Kr. í þéttbýli líkt og meðal
súmera áður fyrr. Engu að
síður byggðist hún meira á landbúnaði en iðnaði.
Borgir landsins voru í kringum 12 talsins, umkringdar stórum og
smáum þorpum. Konungurinn
var valdamesti maður þjóðarinnar og hafði alræðisvald á sviðum
lagasetningar, dómsmála og framkvæmda.
Hann stjórnaði landstjórum og öðrum embættismönnum um allt
land.
Babýlóníumenn
löguðu menningu súmera að þörfum sínum og tókst svo vel til, að
hún hélzt að mestu óbreitt í 1200 ár.
Hún hafði áhrif á nágrannaþjóðirnar, einkum í Assýríu,
sem tók hana upp næstum óbreytta.
Ótrúlega mikið af bókmenntum Babýlóníu hefur fundizt við
uppgröft fornminja og komizt í hendur sagnfræðinga og annarra
menntamanna. Meðal
allramerkustu uppgötvananna var hið frábæra lagasafn, sem er oft
kallað Hammurabi-lögin, frá 18. öld f.Kr.
Það, ásamt öðrum skjölum og bréfum, gefur ótrúlega skýra
mynd af skipulagi efnahagsmála og þjóðlífs Babýlóníumanna.
Þjóðfélagið
skiptist í þrjár stéttir, awilu (æðsta stétt), mushkenu (frjálst
fólk) og wardu (þrælar). Flestir
þrælar voru stríðsfangar en sumir Babýlóníumenn (mushkenu), sem höfðu
brotið af sér. Foreldrar gátu selt börn sín í ánauð, ef þeir þurftu.
Húsbóndi gat kallað ánauð yfir fjölskyldu sína vegna
skulda en hún mátti aldrei verða lengri en 3 ár.
Þrælar voru eign húsbænda sinna eins og hver annar búpeningur.
Það mátti brennimerkja þá og hýða og alvarlegar refsingar
lágu við flóttatilraunum. Yfirleitt
var farið vel með þræla, því það var hagur húsbændanna, að þeir
væru sterkir og heilbrigðir. Þeir
höfðu ýmis lagaleg réttindi og máttu stunda viðskipti, fá lánaða
peninga og kaupa sér frelsi. Söluverð
þræla fór eftir framboði og eftirspurn og hæfileikum viðkomandi.
Fullorðinn maður kostaði 20 shekels af silfri, sem jafnaðist
á við 35 skeppur af byggi. Staða
Mushkenu í þjóðfélaginu sést í lagabálkum Hammurabi.
Fjölskyldulíf.
Fjölskyldan var undirstaða þjóðfélagsins. Foreldrar réðu gjaforði barna sinna og hið opinbera staðfesti
trúlofanir um leið og verðandi brúðgumi hafði fært föður brúðarinnar
gjöf. Giftingarathöfninni
lauk venjulega með undirritun sáttmála á töflu.
Þótt hjónabönd væru byggð á hagkvæmnissjónarmiðum,
bendir ýmislegt til kynlífssambanda áður en fólk giftist.
Babýlónískar konur höfðu nokkurn, mikilvægan, lagalegan rétt.
Þær gátu átt eignir, stundað viðskipti og verið vitni í réttarhöldum.
Eiginmenn gátu skilið við konur sínar af litlum ástæðum og
máttu kvænast öðurm konum, ef eiginkonurnar voru óbyrjur.
Börnin lutu algerlega aga foreldranna, sem gátu gert þau
arflaus eða selt í ánauð. Algengt
var að fólk ættleiddi börn og þau voru oftast alin upp með alúð
og ást.
Borgir.
Ekki er hægt að áætla fjölda íbúa borga landsins með
neinni nákvæmni vegna þess að ekki hafa fundizt nein manntalsskjöl.
Líklega var fjöldinn í borgunum á milli 10.000 og 50.000.
Borgarstrætin voru þröng, hlykkjótt og óregluleg.
Háir, gluggalausir veggir snéru að þeim.
Göturnar voru ekki steinlagðar og engar afrennslislagnir lágu
um þær. Meðalhúsið var lítið, einnar hæðar og úr sólþurrkuðum
leir. Þar voru nokkur
herbergi umhverfis inngarð. Velmegandi
fjölskyldur byggðu tveggja hæða múrsteinshús með u.þ.b. 12
herbergjum. Þau voru múrhúðuð og hvítkölkuð að innan og utan.
Á jarðhæð var betri stofa, eldhús, salerni, herbergi þjónustufólks
og stundum lítil kapella. Meðal húsgagna voru lág borð, hábektir stólar og rúm
úr viði. Eldhúsáhöld
voru úr leir, steini, kopar og bronsi og körfur og kistur voru úr
sefi og viði, æhúðir og ullarteppi voru á veggjum og gólfum.
Oft
voru íbúðarhús byggð ofan á grafhvelfingum, þar sem látnum fjölskyldumeðlimum
var komið fyrir eftir andlátið.
Babýlóníumenn trúðu á líf eftir dauðann.
Þess vegna var ýmislegt nytsamlegt, pottar, verkfæri, vopn og
skartgripir, grafið með hinum látnu.
Tækni.
Babýlóníumenn erfðu tækniafrek súmera tengd áveitum og
landbúnaði. Viðhald skurðakerfa,
varnargarða, dreifikerfa og uppistöðulóna krafðist talsverðrar
verkfræðikunnáttu. Gerð
teikninga og mælingar kröfðust hallamála og mælistikna.
Við úrtreikninga notuðu þeir sexukerfið í stað okkar
tugakerfis. Mælingar á
lengd, flatarmáli, rúmmáli og þunga voru byggðar á súmerskum aðferðum.
Búskapurinn var flókinn og byggðist á aðferðum, sem byggðust
á framsýni, iðni og hæfileikum.
Eitt skjalanna, sem fundust frá þessum tíma og var notað sem
kennslubók í skólum landsins, var í rauninni ekkert annað er leiðarvísir
fyrir bændur. Þar er fjöldi
leiðbeininga, sem ná yfir allt frá vökvun akra til hreinsunar korns.
Iðnaðarmenn
voru leiknir í járngerð, þæfingu, aflitun og litun, framleiðslu málningar,
lita, snyrtivara og ilmvatna. Skurðlækningar
voru notaðar samkvæmt Hammurabi-lögunum, sem ná líka yfir skyldur
skurðlækna. Lyfjagerð
var vafalaust stunduð, þótt sækja verði heimildir um hana alla leið
til súmerskra skjala, sem eru nokkrum öldum eldri en Hammurabi.
Löggjöf
og ritun.
Lög og réttur
voru lykilatriði í daglegu lífi. Réttlæti var útdeilt í dómskerfinu og hver dómur var
skipaður 1-4 dómurum. Borgaöldungar
voru oft látnir skera úr í ýmsum málum og dómarar gátu ekki
breytt úrskurði þeirra en hægt var að áfrýja honum.
Sönnunargögn voru annaðhvort munnlegur eða skriflegur
vitnisburður. Eiðar voru mikilvægir í framkvæmd dómsvaldsin.
Dómar gátu kveðið á um líflát, hýðingar, þrælkun og útlegð.
Skaðabætur voru á bilinu 3-30-falt verðmæti þess, sem bæta
þurfti.
Til
að tryggja framkvæmda laga og efnahagsmála notuðu Babýlóníumenn
ritmál súmera. Þeir notuðu
sömu aðferðir við menntun ritara, skjalavarða og annarra embættismanna
og námsskrár prestaskóla byggðust aðallega á skráningu og utanaðlærdómi
texta og orðabóka með löngum listum orða og orðasambanda, nöfnum
trjáa, dýra, fugal, skordýra, landa, borga, þorpa og steintegunda
auk fjölda flókinna reiknitaflna og dæma.
Bókmenntanám fólst í afritun þjóðsagna, söguljóða, sálma,
sorgarkvæði, máltæki og ritgerðir á tungum Babýlóníumanna og súmera.
Sagan.
Ekki er hægt að dagsetja löng tímabil í fornsögu Miðausturlanda
með neinni nákvæmni. Listi
yfir konunga súmera nær til valdaloka höfðingjaættarinnar Isin í
kringum 1790 f.Kr. en tímasetning fyrir valdatíma Akkad-höfðingjaættarinnar
(2340 f.Kr.) er ónákvæm. Tímasetning
er alláreiðanleg milli höfðingjaættanna Akkad og til loka 1. ættar
í kringum 1595 f.Kr. Síðan
kemur sjö alda óljóst tímabil.
Þrjár aðalaðferðir eru notaðar við tímasetningu
fornaldarinnar í Miðausturlöndum og er þá miðað við ártölin
1848, 1792 eða 1728 f.Kr.
Súmerar.
Í lok þriðju teinaldar f.Kr. náði konungsríki Sumer og
Akkad yfir stór landsvæði undir stjórn súmerskrar höfðingjaættar,
sem var kölluð þriðja ættin frá Úr.
Aðalástæða hruns þessa konungsdæmis var flutningur semítískra
hirðingja, amoríta, frá Arabísku eyðimörkinni til vesturs.
Þeir náðu mörgum mikilvægum borgum á sitt vald (Isin,
Larsa, Babýlon og Eshnunna, nú Tell Asmar), þar sem þeir komu sér
upp nýjum höfðingjaættum. Í
kringum 2000 f.Kr. var síðasti konungur ættarinnar frá Úr tekin höndum
við Elamites. Konungsríkið
Sumer og Akkad heyrði sögunni til og borgarastríð brauzt út. Borgarar Isin reyndu í fyrstu að stjórna Sumer og Akkad en
íbúar Larsa buðu þeim byrginn og stöðugur ófriður ríkti milli
borganna. Um 1790 f.Kr. tókst
Rim-Sin konungi í Larsa (1823-1763 f.Kr.) að leggja Isin undir sig.
Þessi atburður þótti svo mikilvægur, að hann markaði tímamót
í hinum varðveittu annálum, þótt næsta tímabil yrði stutt.
Hammurabi.
Rim-Sin gat ekki nýtt sér sigurinn vegna þess að samtímis tók
Hammurabi við völdum í hinni tiltölulega litlu borg Babýlon. Hann var klókur samningamaður og góður herstjórnandi.
Hann sigraði Rim-Sin og konunga Elam, Mari og Exhnunna og um
1760 f.Kr. varð hann konungur þessara ríkja allt frá Persaflóa að
ánni Habur. Saga Babýlóníu
er talin hefjast á þessum tímamótum.
Hammurabi
var fádæma hæfur stjórnandi og lét sig allt skipta.
Hann fylgdist m.a. með hreinsun áveituskurða og bætti mánuði
við dagatalið. Hann var góður
löggjafi eins og sjá má af lögum hans.
Hann var líka áhrifamikill trúarleiðtogi og guð Babýlon,
Marduk, varð að höfuðguði allra annarra.
Kassítar
og 2. höfðingjaættin frá Isin.
Á valdatímum Hammurabis og sonar hans, Samsu-iluna (1750-1712
f.Kr.) risu menning og völd Babýlóníu hæst.
Nokkrar helztu borgir Babýlóníu fóru að kvabba um sjálfstæði
og kassítar réðust inn í landið á valdatíma Samsu-iluna.
Þótt honum tækist að hrinda árásunum komu þeir sér fyrir
í landinu næstu aldirnar. Hann
varð einnig að glíma við uppreisnarforingjann Iluma-ilum, sem sölsaði
undir sig völdin í suðurhluta landsins við Persaflóa, svokölluðu
Sjávarlandi.
Á
dögum arftaka Samsu-iluna misstu þeir smám saman meira af völdum sínum
og yfirráðasvæði. Í
kringum 1595 f.Kr. skálmaði her hittíta alla leið suður að Babýlon,
tók herfang og þræla með sér til Anatólíu og skildi konungsríkið
eftir í uppnámi. Um hríð
náði höfðingjaætt Sjávarlandsins völdum í Babýlóníu.
Um miðja 16. öldina f.Kr. náði konungur kassíta, Aqum (1570
f.Kr.) Babýlóníu á sitt vald og færði veldi sitt út frá Efrat
til Zagros-fjalla. Undir
stjórn kassíta varð Babýlónía aftur að mikilvægu stórveldi.
Í upphafi 15. aldar f.Kr. var landið eitt fjögurra stórvelda
í Vestur-Asíu. Hin voru
Egyptaland, Mitanni og Hittítaveldið.
Eftir
að Assýríumenn urðu sjálfstæðir frá Mitanni snemma á 14. öldinni
f.Kr. byrjuðu konungar þeirra að skipta sér af málefnum Babýlóníu
og reyndu að ná þar völdum. Þeim
tókst það loks og Babýlónía var svo veik fyrir, að landið féll
í hendur elamíta, sem réðust inn í það úr austri. Þeir settu kassítakonunginn af og gerðu landið að léni.
Uppreisn brauzt út í Suður- og Mið-Babýlóníu og 2. Isinættin
(1125-1103 f.Kr.) náði völdum. Elamítar
voru hraktir brott og gerð var innrás í Assýríu.
Skömmu síðar komu stórir hópar arameskra hirðingja til Babýlóníu
og landið var suðupottur pólitískrar ólgu í tvær aldir.
Tímabil
kaldea.
Einn ættflokkanna,
sem bjuggu umhverfis Babýlóníu, var hinir öflugu kaledear.
Þeir settust að og ríktu í héraði við Persaflóa.
Frá 9.-6. öld f.Kr. áttu þeir mikinn þátt í sögulegri þróun
í Asíu. Konungar þeirra áttu þátt í hruni Assýríu og stofnun
Babýlóníu, sem varð síðar Kaldea, valdamiðstöð Mesópótamíu. Einn beztu konunga kaldea var Merodach-baladan II (722-710
f.Kr.), sem barðist með kjafti og klóm gegn fjórum voldugum konungum
Assýríu, (Tiglath-pileser II (745-727 f.Kr.), Shalmaneser V (727-711
f.Kr.), Sargon II (722-705 f.Kr.) og Sennacherib (705-682 f.Kr.), sem
eyddi Babýlon. Eftirmenn
Sennacherib, Esarhaddon (681-669 f.Kr.) og Ashurbanipal, náðu aftur tökum
á Babýlóníu, þrátt fyrir fjölda uppreisna og liðhlaup.
Árið 626, þegar Assýría var í mikilli upplaustn og var ógnað
af medes, skítum og kimmerum, lýsti kaldeumaður, Nabopolassar
(626-605 f.Kr.) sig konung Babýlóníu.
Hann gerði bandalag við medes og aðstoðaði við að brjóta
niður veldi Assýríumanna.
Egyptar
nýttu sér veikari stöðu Assýríu og hófu sókn inn í Palestínu
og Sýrland. Árið 605
f.Kr. réðist Nebukadnesar II gegn Egyptum og sigraði þá við
Carchemish (í Sýrlandi nútímans).
Hann ríkti í 43 ár og færði veldi Babýlóníu yfir mestan
hluta Mesópótamíu. Í
biblíunni er hann nefndur sem tortímandi Jerúsalem og konungurinn,
sem flutti gyðinga í ánauð til Babýlóníu.
Fornleifafræðingar þekkja hann sem mikilvirkan í gerð
mannvirkja og endurbyggingu þeirra.
Hann endurbyggði Babýlon, höfuðborg sína, ríkmannlega og lét
endurbyggja fjölda hofa um allt land.
Endurfædd
Babýlónía átti ekki langa lífdaga fyrir höndum.
Að Nebúkadnesar látnum 652 f.Kr., slógust margir hópar og
einstaklingar um völdin. Árið
556 f.Kr. varð Nabonidus, fyrrum landstjóri Nebúkadnesars, konungur
Babýlóníu (556-539 f.Kr.). Hann
var nokkuð dularfullur maður og honum tókst að fá hina áhrifamiklu
prestastétt í Babýlon á móti sér.
Hann lét syni sínum, Belshazzar, eftir stjórn borgarinnar og
bjó um tíma í borginni Harran og síðar í vininni Teima í Arabísku
eyðimörkinni. Árið 539
sigraði persneski konungurinn Cyrrus mikli Babýlóníumenn eftir að
hann hafði lagt Media að velli. Nabonidus
var tekinn til fanga við Sippar (í grennd við núverandi Baghdad í
Írak) og Persar náðu Babýlon án bardaga.
Þannig varð Babýlónía hluti af Persaveldi og missti sjálfstæði
sitt.
Arfleifð
Babýlóníu. Babýlóníuríki
var orðið 12 alda gamalt, þegar það leið undir lok.
Þjóðfélagið, efnahagslífið, listir og byggingarlist, vísindi
og bókmenntir, dómskerfi og trúarbrögð breyttust talsvert á þessu
tímabili en þegar á heildina er litið var lítið um
grundvallarbreytingar. Menning
Babýlóníu, sem byggðist í meginatriðum á menningu súmera, hafði
mikil áhrif á gamla heiminn, einkum hebrea og Grikki.
Áhrifin eru greinileg í verkum ljóðskálda (Hómer og
Hesiod), stærðfræði (Euklides), störnufræði, störnuspáfræði,
skjaldamerkjafræði og biblíunni. |