Assýría írak,
Flag of Iraq


ASSÝRÍA
ÍRAK

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Assýría (hin forna Ashur, Ashshur eða Assur) er fornt ríki í Asíu, sem náði nokkurn veginn frá norðurlandamærum núverandi Írak í suðri, í Tígrisdalnum og meðfram einni af aðalþverám hennar, Zab, og myndaði eins konar þríhyrning á hvolfi.  Vesturhluti landsins var steppur, sem hentuðu einungis hirðingjum.  Austurhlutinn var nýtilegur til akuryrkju, með hæðóttu landslagi og grunnum árdölum.  Þessi hluti náði einnig til Zagros-fjalla.  Í norðri hækkaði það í stöllum til armensku fjallgarðanna.  Slétta Mesópótamíu teygðist til vesturs.  Suðurhluti landsins var fyrst kunnur undir nafninu Sumer, síðar Sumer og Akkad og loks Babýlónía.  Forngrikkir gáfu þessu landsvæði hagsældar nafnið Mesópótamía.  Aðalborgir Assýríu, Ashur (Sharqat), Nineveh (Kuyunjik-uppgraftarsvæðið) og Dur Sharrukin (Khorsabad), voru allar á því svæði, sem tilheyrir nú Írak.

Fundur tveggja hauskúpna Neanderdalsmanna í helli á norðaustujaðri svæðisins frá upphafi síðsteinaldar staðfesta að fólk hefur búið í þessum heimshluta, sem fékk nafnið Assýría frá örófi alda.  Fólk með fasta búsetu hóf ekki ræktun þar fyrr en í kringum 6500 f.Kr.  Þjóðerni fólks í þessu fyrsta landbúnaðarsamfélagi er ekki þekkt.  Íbúarnir geta hafa verið af undirætt aría, sem talaði líklega óbeygt tungumál.  Á þriðju teinöld f.Kr. réðu líklega semítískir hirðingjar svæðinu og tungumál þeirra þróaðist til beygðrar tungu, líkt babýlónísku, sem var ríkjandi í þessum heimshluta.  Assýrískt ritmál var lítillega bætt útgáfa af babýlóníska fleygletrinu.

Á sjöundu teinöld f.Kr. ræktuðu bpndur í Assýríu hveiti og bygg og kvikfé (nautgripi, geitur, sauðfé og svín).  Þeir byggðu hús sín, sem sum voru allt að 4 herbergja, úr þéttum leir.  Þeir notuðu hringlaga ofna til að baka úr möluðu hveiti og geymdu kornbirgðir sínar í stórum, lokuðum leirkrukkum.  Þetta fólk óf dúka úr þræði, sem var spunninn með snældum.  Það gerði sér hnífa úr hrafntinnu og tinnu og notaði steinmeitla sem hlújárn og skaraxir.  Leirkeragerð þess var einstök, að mestu vandlega bakaður leir, sem var fagurlega skreyttur máluðum munstrum.  Hrafntinna og aðrar harðar steintegundir voru notaðar til að framleiða vasa, perlur, verndargripi og innsigli.  Kvenmannsstyttur voru gerðar úr leir til trúarlegra athafna.  Hinir látnu voru oft grafnir í fósturstellingu milli íbúðarhúsanna í stað grafreitanna.


Menning og siðir.  Menning Assýríumanna líktist hinni babýlónísku að mestu leyti.  Bókmenntir voru þar á meðal, nema konunglegu annálarnir.  Lagabálkar og réttarskjöl líktust hinum babýlónísku og súmersku.  Refsingar voru harðari og hrottafengnari hjá Assýríumönnum.  Trúarsiðir og átrúnaður líktist hinum babýlónísku.  Höfuðguð Assýríumanna, Ashur, var í sömu mynd og Marduk Babýlóníumanna.  Mikilvægasta arfleifð Assýríumanna liggur í listsköpun og byggingarlist.  Á þriðju teinöld f.Kr. varð mestur hluti Miðausturlanda fyrir áhrifum menningar súmera í suðri.  Hof frá þessum tíma, sem var grafið upp í Ashur-borg, hýsti styttur, sem líktust styttum, sem fundust í Sumer.  Í kringum 2300 f.Kr. var Assýría hluti af heimsveldi Sumer og Akkad.  Í kjölfar hruns þess (2000 f.Kr.) ruddust amorítískir hirðingjar frá Arabísku eyðimörkinni inn í landið og náðu mestum hluta Mesópótamíu undir sig.  Í kringum 1850 f.Kr. höfðu assýrískir kaupmenn náð undir sig hlutum af Anatólíu (Litlu-Asíu), þar sem þeir héldu uppi blómlegum viðskiptum með kopar, silfur, gull, tin og vefnaðarvörur.

Um 1810 f.Kr. tókst assýríska konunginum Shamshi-Adad (1813-1780) að ná undir sig landinu frá Zagros-fjöllum að Miðjarðarhafi.  Hann var líklega fyrstur þjóðhöfðingja til að koma á fót miðstýrðu heimsveldi í Miðausturlöndum.  Hann skipti löndum sínum í héruð með sérstakri stjórn, kom upp sendiboðakerfi og gerði manntal reglulega.  Þetta fyrsta, assýríska heimsveldi var ekki langlíft.  Sonur konungsins, Ishme-Dagan I (1780-1760 f.Kr.), lét í minni pokann fyrir konungi Babýlóníu 1760 og Assýría varð hluti babýlóníska heimsveldisins.  Þetta heimsveldi var heldur ekki langlíft.  Kassízkir hirðingjar réðust inn í landið á 16. öld f.Kr. og náðu völdum.  Annar kynstofn, Hurrianar, sem voru ekki heldur af semízkum uppruna og bjó í fjöllunum, náði undir sig mestum hluta Norður-Mesópótamíu, alla leið til Palestínu í vestri.  Skömmu eftir að hurrianar unnu afrek sín komu indó-evrópskir flokkar og blönduðust hurriönum að hluta.  Þessir miklu þjóðflutningar ollu mesta óreiðutímabili í sögu Mesópótamíu.

Í kringum 1500 f.Kr. varð Assýría hluti af konungsríkinu Mitanni, sem hafði ná undir sig allir norðanverðri Mesópótamíu.  Snemma á 14. öld f.Kr. sigruðu hittítar Mitanni.  Í óreiðunni, sem skapaðist, tókst Assýríukonungi, Ashur-uballit I ( 1364-1328) að frelsa landið og ná undir sig nokkrum svæðum, sem tilheyrðu Mitanni.  Nokkrir öflugir stjórnendur tóku við af Ashur-uballit I. Þeim tókst að færa landamæri ríkisins út og halda voldugum nágrönnum í skefjum (urartíum, hittítum, Babýlóníumönnum og lullubíum).

Ný alda þjóðflutninga, sem breytti valdahlutföllum í Vestur-Asíu mikið, hófst í kringum 1200 f.Kr.  Fjöldi hópa, sem kallaðist sjávarfólkið, velti hittítum úr sessi í Anatólíu og fóru inn í Sýrland og Palestínu.  Indó-evrópskt fólk, mushki, sem settist að í Austur-Anatólíu, ógnaði Assýríumönnum.  Í vestri voru arameskir hirðingjar á ferðinni.  Assýríumenn börðust grimmilega gegn þessum öflum og tókst að mestu að hrinda árásum þessara nýju nágranna.  Her landsins varð frægur fyrir grimmd og fór um öll Miðausturlönd sem svipa refsingar og ógnar.

Þessi herför Assýríumanna var í fyrstu eins og víkingaleiðangur.  Tiglath-pileser I (1115-1076) varði landamæri ríkisins gegn arameum og mushki og fór í herleiðangra alla leið að Van-vatni í Urartu (nú í Austur-Tyrklandi) og til Palmyra (Sýrland).  Víðast flúðu íbúar þessara svæða undan framrás herja hans en hinir voru annaðhvort stráfelldir eða fluttir til Assýríu.  Þorp þeirra og borgir voru rændar og jafnaðar við jörðu en engin tilraun var gerð til að innlima þessi svæði.  Smám saman breyttust aðferðir Assýríumanna og þeir fóru að innlima hernumdu svæðin í ríki sitt.

Ashumasirpal II, sonur Tukulti-Ninurta II, sat á valdastól 884-859 f.Kr. og færði út landamærin til norðurs og austurs.  Hinar grimmilegu herferðir hans ollu landauðn á landamærum ríksins.  Hannn var gætinn og áreitti ekki hina voldugu nágranna, Urartu í norðri, Babýlóníu í suðri og Aram í vestri.  Í einni herferðinni komust herir hans alla leið að Miðjarðarhafi.  Á heimleiðinni felldu hermennirnir sedrustré í hlíðum Amanus-fjalla til að flytja til Calah-borgar, þar sem miklar framkvæmdir stóðu yfir.  Hún varð síðan höfuðborg í stað Ashur.  Fjöldi áritaðra minnismerkja um Ashurnasirpal hafa fundizt í rústum Calah, þannig að saga hans sem þjóðarleiðtoga er einhver hin bezt varðveitta í Miðausturlöndum.

Shalmaneser III (859-824), sonur Ashumasirpal, fór í 32 herferðir á 35 ára valdaferli sínum.  Margar þeirra lágu til landa vestan Efratár, einkum gegn Aram.  Honum varð nokkuð ágegnt og ávann sér virðingu bandamanna Aram, s.s. Ísrael, en honum tókst ekki að leggja Aram undir sig.  Tvö minnismerkja hans, sem eru í Brezka safninu, eru sérstaklega áhugaverð:  Svartur einsteiningur með mynd af Jehu, konungi Ísraels, að kyssa fætur Shalmaneser og hamraður bronsskjöldur, sem kallast Hlið Balawat.

Í lok veldistíma Shalmaneser brauzt út uppreisn í höll konungsins og nokkurra ára borgarastríð fylgdi í kjölfarið.  Assýríu hnignaði og landið féll í gleymsku.  Um miðja 8. öldina f.Kr. lifnaði aftur yfir landinu við valdatöku tiglath-pileser III (745-727 f.Kr.).  Hann tók ótrauður við að gera Assýríu að heimsveldi.  Hann byrjaði á því, að takmarka völd aðalsmanna, stofna stöðugan her, sem var að mestu byggður á erlendum málaliðum, og skipulagði herferðir sínar með því markmiði að innlima unnin landsvæði.  Þjóðirnar, sem hann sigraði, voru reknar frá löndum sínum og látnar setjast að í Assýríu, þar sem auðveldara var að bæla þjóðernishyggju þeirra.  Hann losaði Assýríu undan áþján aramesku ættflokkanna, sem kúguðu íbúa Tígrisdalsins, rak Urartía frá Sýrlandi, innlimaði aramesku ríkin Arpad og Damaskus, undirokaði borgir Palestínu og lýsti sjálfan sig konung Babýlóníu.

Sargon II (722-705 f.Kr.), sem tók við völdum af Shalmaneser V (727-722), færði veldi Assýríu út til allra átta, frá Suður-Anatólíu að Persaflóa.  Í upphafi veldistíma hans rak hann Ísraelsþjóðina úr landi en Shalmaneser V hafði lagt Ísrael undir skömmu áður en hann lézt.  Á valdatíma sínum leiddi Sargon II herleiðangra gegn Urartu og Medes, innlimaði fjölda ríkja í Sýrlandi og Suður- Anatólíu og sigraði aramea í miðjum Tígrisdalnum og kaldea í Neðri-Efratdal.  Til að tryggja stjórn í þessu stóra heimsveldi, sem náði frá landamærum Egyptalands að Zagros-fjöllum og frá Tárusfjöllum til Persaflóa, skipti hann þessu landsvæði í 70 héruð, sem landstjóri stjórnaði.  Í höfuðborginni Calah kom hann upp stjórnsýslumiðstöð fyrir allt landið og fékk syni sínum, Sennacherib (705-681 f.Kr.) nokkur völd í hendur.  Á síðari hluta valdatíma sins byggði Sargon II nýja borg, Dur Sharrukin, norðan Nineveh, byggði höll sína yfir borgarmúrana og skreytti hana með áberandi lágmyndum.  Hann stofnaði líka bókasafnið í Nineveh og hvatti til viðskipta og landbúnaðar á valdatíma sínum.

Upphaf hnignunarinnar.  Assýríumenn náðu hátindi veldis sins undir stjórn Sargons II.  Þjóðirnar áttu sameiginlegt tungumál, trúarbrögð og menningu, þannig að búizt var við að þetta heimsveldi stæði traustum forum til frambúðar.  Eftirmenn Sargosar II beindu kröftum sínum að innlimun Egyptalands og Elam og þess lands, sem enn var eftir í Babýlóníu.  Til að tryggja framgang þessara markmiða, drógu Assýríumenn liðsafla frá norður og norðausturhluta heimsveldisins, þannig að medear og skítar, sem þar voru fjölmennir, fengu tækifæri til að eflast.

Sennacherib fékk völd yfir löndunum, sem faðir hans hafði sigrað og ógnaði Egyptum við landamærin.  Hann flutti höfuðborgina frá Dur Sharrukin til Nineveh, þar sem hann reisti höll.  Hann var fyrsti konungur landsins, sem notaði sjóher.  Með honum bældi hann niður uppreisn kaldea árið 694 f.Kr.  Babýlónía studdi kaldea og Sennacherib gerði hatramar árásir á báða aðila árið 689 f.Kr. og náði Babýlóníu á sitt vald, lagði hana í eyði og hleypti vatni yfir, þótt hún væri álitin heilög borg.  Esarhaddon (681-669 f.Kr.), sonur Sennacherib var hliðhollari Babýlóníumönnum og aðstoðaði við endurbyggingu borgarinnar.  Honum tókst að komast með heri sína inn í Egyptaland, þar sem hann náði höfuðborginni Memfis á sitt vald.  Sonur hans Ashurbanipal hélt áfram landvinningum í Egyptalandi og komst suður að Þebu.  Hann eyddi Susa (Shush í ÍranI, höfuðborg elamíta.  Hann var rómaður fyrir sigra sína en einnig bókasafnið mikla, sem hann stofnaði í höll sinni í Nineveh.

Hrun heimsveldisins.  Þegar Ashurbanipal dó árið 627 f.Kr. hófu aðalsmenn uppreisn og fátt er vitað um atburði í Assýríu eftir það.  Medear tóku Ashur-borg árið 614 f.Kr. og Nineveh árið 612 f.Kr. með aðstoð Babýlóníumanna.  Assýríski herinn undir stjórn síðasta konungsins, Ashur-uballit II (612-609 f.Kr.) hörfaði til Harran nokkru norðaustan höfuðborgarinnar.  Þessi ósigur er talinn marka endalok heimsveldisins.

Völd Assýríumanna byggðust næstum eingöngu á hernaðarmætti þeirra .  Herinn byggðist á þungvopnuðum og léttvopnuðum herdeildum.  Hermenn beggja báru spjót, boga og stutt sverð en einugis þungvopnuðu herdeildirnar báru brynjur.  Hestaherdeildirnar voru svipað búnar og notuðu ekki hnakka.  Þungir hervagnar voru búnir þriggja hermanna áhöfn hver og umsátursturnar og slöngvibyssur voru notaðar til að brjóta niður múra og víggirðingar.

Konungurinn var yfirmaður heraflans og var venjulega með hernum í forum.  Þótt hann ætti að heita alvaldur, tóku landstjórar og aðalsmenn oft ákvarðanir í hans nafni.  Metnaður þeirra og ásælni var stöðug ógnun við líf konunganna.  Hallarbyltingar og óeirðir voru algengar, einkum þegar kom að lokum valdatíma konunga og til stóð að velja nýjan konung.  Þessi veikleiki í stjórn heimsveldisins varð því að lokum að falli.

 TIL BAKA        Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir         HEIM