Indónesíski
eyjaklasinn Sula er í Maluku-héraði austan Mið-Sulawesi og milli Mólúkkahafs
í norðri og Bandahafs í suðri.
Stóru eyjarnar eru Taliabu (stærst, 2900 km²), Mangole og
Sanana (Sulabesi). Heildarflatarmál
eyjaklasans er 4850 km². Taliabu
og Mangole eru aðskildar mjóu Capalulu-sundinu og eru fjallendar, þaktar
þéttum skógum og strjálbýlar.
Á Taliabu rísa fjöllin í 1157 m.y.s.
Sanana er þéttbýl og ræktuð.
Fuglalífið á Sula-eyjunum og Buru-eyju í suðaustri bendir
til þess, að eyjarnar hafi verið tengdar með landbrú í fyrndinni.
Eyjaskeggjar framleiða
timbur til skipasmíða og eru góðir sæfarar.
Þeir safna trjákvoðu (damar) í skógunum og rækta hrísgrjón,
maís, tóbak og sykurreyr, aðallega á Sanana.
Sagópálmarnir eru grundvöllur næringar á Taliabu og Mangole.
Léleg kol finnast í jörðu á Sanana.
Íbúarnir vefa kufla (sarong) og bastmottur. Þeir eru líkir íbúum Buru- og Ceram-eyja og gætu verið
af malæ-pólynesískum stofni frá Austur-Sulawesi.
Flestir þeirra eru andatrúar en múslimum fjölgar.
Aðalborgin er Sanana á norðausturströnd samnefndrar eyjar.
Þar er góð höfn og aðsetur stjórnanda eyjaklasans.
Fyrrum áttu sjóræningjar þar fylgsni.
Lekitobi í suðvesturhlutanum er aðalborgin á Taliabu.
Auponhia á suðvesturhluta Mangole, er aðalbær þeirrar eyjar.
Sulu-eyjaklasinn var fyrrum hluti yfirráðasvæðis soldánsins
í Ternate en Hollendingar náðu yfirráðum 1683.
Áætlaður íbúafjöldi eyjaklasans árið 1997 var tæplega
113.000. |