Indónesía sagan,
Flag of Indonesia


INDÓNESÍA
SAGAN

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Indónesía er fjölmennasta ríki Sa-Asíu.  Fyrir rúmum 25 árum var íbúafjöldinn 96 milljónir (nú u.þ.b. 180 milljónir).  Á Java (700 íb./km²), Bali og Madura búa 2/3 hlutar allara íbúa ríkisins.  Í Jakarta búa 11.000 manns á km².  Dregið hefur verulega úr fólksfjölgun og ríkisstjórnin hefur flutt mikinn fjölda fólks nauðugan frá þéttbýlustu eyjunum til hinna dreifbýlli.  Rúmlega 15% íbúa Indónesíu eru undir 15 ára aldri, 45% milli 15 og 45 ára.  Flestir íbúanna eru af malæpólinesískum uppruna.  Kínverjar, sem eru u.þ.b. ein milljón, eru mikils ráðandi í atvinnulífinu.  Þótt þeir séu langflestir fæddir í Indónesíu, sæta þeir oft ofsóknum og fjandskap íbúa af öðrum uppruna og margir hafa talið sér óvært þar og flutzt brott.

90% Indónesa eru sunnítar (islam).  Kristnir eru 6%, hindúar 1,5%, þar að auki eru búddistar, konfúsíar, andatrúarfólk og aðrir trúarhópar.

Elztu merki um búsetu manna í Indónesíu fundust á Jövu, þar sem leifar frummanns (u.þ.b. 500.000 ára) voru uppgötvaðar.  Á fjórða áratugnum fundust nokkrar hauskúpur solomannsins, sem sagður er líkjast neandertalsmanninum.  Merki um fornsteinaldarmenningu á Súmötru, Kalimantan og Sulawesi líkjast þeim, sem fundizt hafa í hálendi Indlands, enda tengdu þá margar landbrýr eyjarnar og meginlandið.  Á miðsteinöld lifði fólk af áströlskum uppruna á Jövu, en í kjölfar þess komu melanesar, sem skildu eftir sig spor við Sampang.  Á nýsteinöld komu fornmongólar og veddíðar til Indónesíu.  Þeir notuðu einföld verkfæri við vefnað.  Frá 2000 f.Kr. til okkar tímatals komu fylgjur þjóðflokka frá meginlandinu.  Síðustu aldirnar f.Kr. komu kaupmenn og andans menn frá Indlandi.  þeir fluttu ekki bara trú sína með sér (búdda- og hindúatrú), heldur útþenslustefna ríkja sinna.  Suður-Kínahaf varð að deiglu suður- og austurlenzkrar menningar og trúarbragða.  Á 7. öld var stofnað hindúakonungsríkið Srivijaya á suðausturhluta Súmötru.  Miðbik þess var í grennd við borgina Palembang og það réði samgöngum um Malakka- og Sundasund.  Indversk menning og trúarbrögð höfðu áhrif á ráðandi stéttir á þéttbýlustu eyjunum.  Á 8. til 9. öld risu hin stórkostlegu hof, Borobudur og Prambanan.

Þegar Sailendrahöfðingjaættin var við völd, var stjórnsetrið flutt til Jövu.  Majapahitríkið óx á 13. til 16. öld og náði loks yfir mestan hluta indónesíska eyjaklasans.  Enn þá minna hinir ljóð-sögulegu sjónleikir Ramayana og Makabarata á þetta grózkuskeið.  Eftir 15.öld breiddu arabískir kaupmenn islam út og á fyrri hluta 16. aldar hnignaði Majapahitríkinu og furstadæmin Demak á Austur-Jövu og Bantam á Vestur-Jövu voru stofnuð.  Portúgalar í kryddleit byggðu frá fyrri hluta 16. aldar virki víða á austurhluta eyjaklasans.  Nálægt öld síðar hröktu Hollendingar þá brott og byggðu sér bækistöðvar á Java.

Árið 1602 var hollenzka Austurasíufélagið stofnað.  það jók veldi sitt undir stjórn Jan Pieterzoon Coen aðallandstjóra, sem stofnaði borgina Batavíu (nú Jakarta).  Þar með var skotið stoðum undir nýlenduveldi Hollendinga í Sa-Asíu.  Á meðan Napóleonsstyrjaldirnar geisuðu í Evrópu, féllu Austur-Indíur til Breta.  Árin 1811 - 1816 réði Sir Stamford Raffles á Jövu.  Árið 1816 fengu Hollendingar Austur-Indíur aftur.  Nýlenduveldið varð að bæla niður margar uppreisnir.  Árið 1825 hófst Diponegorouppreisnin, sem tók 5 ár.  Árin 1873 - 1904 geisaði Acehstríðið.  Á fjórða áratugi 19.aldar létu Hollendingar af arðráni og nauðungarvinnu og reistu plantekrur.  Eftir 1870 var Indónesía opnuð fyrir evrópsku fjármagni og fjárfestingum.  Árið 1883 sprakk eldfjallið Krakatá og tugir þúsunda fórust.  Árið 1885 uppgötvaðist olía á Súmötru og Konunglega hollenzka Shell olíufélagið var stofnað.

Barátta innfæddra gegn valdhöfunum á þessari öld var að mestu á vegum sjálfstæðissamtaka múslima og árið 1920 var kommúnistaflokkur Indónesíu stofnaður.  Hann stóð fyrir uppreisn árið 1927, en hún fór út um þúfur.  Síðan sameinuðust baráttumenn fyrir sjálfstæði í þjóðernissinnaflokki Indónesíu, sem Sukarno, síðar forseti, var í forsvari fyrir.

Á fyrri hluta 19.aldar tókst kínverskum innflytjendum að koma sér fyrir í lykilstöðum í viðskiptalífi landsins.  Síðan hefur verið stöðugt sundurlyndi milli þeirra og fólks af malaískum uppruna.

Í síðari heimsstyrjöldinni hernámu Japanar Hollenzku-Vesturindíur og rufu þar með aldalöng yfirráð Evrópubúa.

Indónesískum þjóðernissinnum tókst að stofna ríki að henni lokinni og lýstu yfir sjálfstæði Indónesíu hinn 17. ágúst 1945 og Sukarno varð fyrsti forseti lýðveldisins.  Höfuðborgin varð Jakarta.

Árin 1947 og 1948 reyndu Hollendingar að ná fyrri yfirráðum en urðu að viðurkenna sjálfstæði landsins á ráð-stefnu í Den Haag árið 1949.  Indónesía var í tengslum við hollenzku krúnuna til árisins 1954.  Um mitt ár 1959 lögfesti Sukarno hið takmarkaða lýðræðisform og reyndi að koma á jafnvægi milli hinna sundurleitu trúarhópa, stjórnmálaflokka og hersins.  Viðskiptum voru líka settar skorður til að koma í veg fyrir að áhrif erlendra stórfyrirtækja yrðu of mikil.  Ekki tókst betur til en svo, að mikil ólga og óeining hristi stoðir lýðveldisins og náði hámarki í Darul-islamuppreisninni.

Hollenzka-Nýja-Gínea komst undir Indónesíu árið 1963.  Skömmu síðar hófst árásarstefna Sukarnos gegn Malasíu með stuðningi kommúnista og reynt var að fá stuðning frá Kína.  Haustið 1965 gerðu kommúnistar uppreisn, sem Suharto hershöfðingi bældi niður og í kjölfarið voru bæði þeir og kínverjar ofsóttir.  Í marz 1966 tók herstjórn Suhartos völdin.  Hún kom í veg fyrir frekari ofsóknir og reyndi með aðstoð vestrænna ríkja að leiðrétta mismunun í viðskiptalífinu.  Árið 1967 var stjórn-málasambandi við Kína slitið.

Indónesía var eitt stofnríkja ASEAN og ári síðar lét Suharto kjósa sig forseta.  Árið 1969 lauk innlimun Vestur-Nýju-Gíneu.  Í almennum kosningum 1971, 1977 og 1982 tryggðu dyggir stuðningsmenn herstjórnarinnar, Sekber Golkar, henni sigur.  Þrátt fyrir alþjóðleg mótmæli, sölsaði Indónesía Austur-Timor undir sig árið 1976 (áður Portúgalska-Austur-Timor).

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM