Krakatau Indónesía,
Flag of Indonesia


KRAKATAU
INDÓNESÍA


.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Eyjan Krakatá á Sundasundi milli Súmötru og Jövu var í fyrndinni tignarleg eldkeila, sem stóð hátt upp úr sjó.  Í forsögulegu gosi mun eldkeilan hafa sprungið í loft upp og djúp askja myndaðist.  Aðeins nokkrar litlar eyjar á börmum öskjunnar stóðu upp úr sjó.  Eldstöðin var ekki dauð og ný eyja, sem var ekki nema brot af hinni gömlu, hlóðst upp í öskjunni.

Á áttunda áratugi 19. aldar jókst skjálftavirkni í grennd við eyjarnar verulega.  Þá hafði Krakatá  gosið seinast árið 1681, svo að ógnin af fjallinu var mönnum að mestu gleymd.  Jarðskjálftar eru algengir í Indónesíu, þannig að menn kippa sér lítt upp við þá.  Í maí byrjaði eyjan að gjósa miklu þeytigosi.  Aska þeyttist a.m.k. 10 km upp í andrúmsloftið.  Gosið rénaði fljótt og eftir rúma viku var það svo til hætt.  Hinn 19. júní hófst gosið að nýju með hálfu meiri krafti en fyrr. 

Í lok mánaðarins var staðfest að efsti hluti eyjarinnar væri horfinn.  Allan júlímánuð hristu jarðskjálftar og höggbylgjur stór svæði á Súmötru og Jövu.  Samt sá fólk ekki ástæðu til að yfirgefa heimili sín. Hinn 26. ágúst 1883 náði gosið hámarki með ægilegu sprengigosi, sem minnkaði eyjuna úr 34 km² í 11 km².  Þá heyrðust háværar sprengingar með 10 mínútna millibili, sem ómuðu um allar eyjar í nágrenninu, og gjóskuský steig upp í 25 km hæð.  Eðju rigndi yfir nálægustu eyjar.

Að morgni hinn 27. ágúst urðu þrjár hræðilegar sprengingar.  Í þeim splundraðist mestur hluti Krakatár og askja, sem var 300 m djúp og 6 km í þvermál myndaðist.   Sprengingin og gosið höfðu áhrif um allt sunnanvert Kyrrahaf, á Máritíus, í Ástralíu og á Kyrrahafsströnd Suður-Ameríku.  Sprengingjarnar heyrðust í mörg þúsund km fjarlægð, s.s. á eyjunni Rodriguez á Indlandshafi í 4800 km fjarlægð.  Rúður brotnuðu í 150 km fjarlægð og höggbylgjan (athmospheric shock) fór sjö hringi í kringum jörðina.  Loftvogir í Evrópu og BNA greindu breytingar á loftþrýstingi í 9 daga eftir þær.

Við sprengingarnar mynduðust risaflóðbylgjur, sem olli dauða tugþúsunda manna, sem bjuggu á næstu láglendissvæðum á Súmötru og Jövu.  Þessar flóðbylgjur (tsunami) náðu allt að 42 m hæð og þær gengu allt að 5 km á land upp.  Hollenska herskipið Berouw barst 2 km upp á land og strandaði 10 m fyrir ofan sjávarmál.  Milli 5 og 6 þúsund bátar á sundinu sukku og alls 36 þúsund manns drukknuðu af völdum síðustu flóðbylgjunnar, sem var stærst.  Bylgjurnar bárust víðar.  Þær voru m.a. mældar á Ermasundi, á vesturströnd BNA og á Taupo-vatni inni á miðju Nýja-Sjálandi.  Níu klukkustundum eftir síðustu sprenginguna sukku 300 bátar á Gangesfljóti í 300 km fjarlægð.

Við sprengingarnar myndaðist gífurlegt gjóskuský, sem náði 80 km í loft upp. U.þ.b. 18 km³ gosefna þeyttust upp í gufuhvolfið og áratugum saman féll aska úr eldfjallinu á 300.000 km² svæði.  Dagur varð að nótt í 40 klst.  Gríðarlegt magn gjósku barst upp í heiðhvolfið, þannig að geislun sólar á yfirborð jarðar minnkaði um 13%.  Tveimur árum síðar var geislunin enn þá 10% minni en venjulega í Frakklandi.  Næstu tvö árin eftir gosið mátti sjá óvenjulega tilkomumikil sólsetur og sólarupprásir.  Platútköll hjá slökkviliðum í austurfylkjum BNA voru óvenjutíð á þessu tímabili af þessum sökum.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM