Ferðamenn
verða að hafa gilt vegabréf og áritun, sem fæst í sendiráðum
Indlands erlendis. Fyrst
verður að biðja um eyðublað, sem fylla þarf út og senda til baka
með vegabréfinu ásamt 3 passamyndum og farseðli frá Indlandi.
Gildistími vegabréfs má ekki vera skemmri en sex mánuðir miðað
við brottför frá Indlandi. Áritunin
verður ógild eftir sex mánuði en leyfir allt að þriggja mánaða
dvöl í landinu. Hægt er
að framlengja dvölina um þrjá mánuði í hvert skipti hjá
"Foreign
Regional Registration Offices" í New Delhi, Bombay, Calcutta og Madras eða hjá lögreglustjórum í héraðshöfuðborgum.
Hver áritun til Indlands innifelur leyfi til að koma þrisvar
til landsins á tímabilinu til að auðvelda ferðir fólks til nágrannaríkja
landsins og til baka.
Fólk,
sem ferðast til Indlands í viðskiptaerindum, fær nú orðið heils árs
áritun með ótakmörkuðum fjölda ferða um landamæri landsins.
Dvalartími viðskiptafólks hverju sinni takmarkast þó við 3
mánuði.
Sum svæði landsins eru lokuð útlendingum.
Önnur eru hálfopin, s.s. verndarsvæði ýmiss konar, og sérstök
leyfi þarf til að heimsækja þau.
Slík leyfi gilda í 7-15 daga eftir svæðum.
Leyfi til ferðar til Darjeeling (Vestur-Bengal) fást í sendiráðum
og ræðisskrifstofum erlendis, "Foreigners
Regional Registration Offices" eða hjá
útlendingaeftirlitinu á alþjóðaflugvöllunum (New Delhi, Bombay,
Calcutta, Madras).
Fólk, sem kemur fljúgandi til Darjeeling, getur líka fengið
leyfin á flugvellinum í Bagdogra.
Í ferðum til Kalimpong (Vestur-Bengal) fást leyfi hjá 'Under Secretary
(Home Writers Building í Calcutta) eða varalögreglustjóranum í
Darjeeling.
Ferðamönnum er leyft að ferðast um Sikkim í 7 daga.
Erlendir gönguhópar fá allt að 15 daga leyfi en verða að hafa
löggildan, innlendan leiðsögumann með í för.
Umsóknir verður að senda til Innanríkisráðuneytisins í Nýju-Delhi.
Leyfi til dvalar á Andaman- og Nikobar-eyjum fæst við komuna þangað á
flugvellinum í Port Blair.
Hyggist fólk aðeins eyða tímanum í Port Blair og nágrenni, þarf engin
sérstök leyfi.
Ferðir til Shilong og Kaziranga krefjast einskis sérstaks leyfis, ef
flogið er til Gauhati og ekið þaðan beinustu leið.
Hyggist fólk ferðast um önnur bann- eða verndarsvæði, þarf það að
leggja inn umsóknir hjá sendiráðum eða ræðisskrifstofum a.m.k. sex
vikum áður en haldið er þangað eða snúa sér beint til
Innanríkisráðuneytisins í New Delhi.
Komi fólk frá smitsvæðum, er krafizt bólusetningarvottorðs gegn gulu.
Um leið og sótt er um áritun til Indlands er hægt að fá 'áfengisleyfi'
(All-India Liquor Permit), sem gildir alls staðar í landinu.
Hafi ferðalangur ekki slíkt leyfi við komuna til landsins, er
hægt að nálgast það hjá Ferðamálaráðinu í Bombay, Calcutta, New Delhi
eða Madras. Þetta leyfi
nær til neyzlu, kaupa og eignar áfengra drykkja.
Við brottför frá landinu er krafizt hafnar- eða flugvallarskatts. Bílar eru leigðir þeim, sem vilja aka sjálfir og hafa
alþjóðlegt ökuskírteini.
Tollur.
Tollfrjáls
innflutningur: 200
vindlingar eða 250 gr af tóbaki eða 50 vindlar, lítil flaska af
ilmvatni, ein flaska af sterku áfengi eða víni (allt að 0,95l) auk
persónulegra muna (myndavélar, ritvél, útvarp, segulband o.fl.; bezt
er að láta skrá slíka muni við komuna til landsins).
Komi fólk akandi í eigin bíl eða erlendu farartæki, þarf að
framvísa Carnet de Passage en Douane.
Útflutningur minjagripa, þ.m.t. indverskt silki og ull, er
ótakmarkaður.
Ekki má flytja út indverska gullskartgripi, sem kosta meira en
10.000.- rúpíur. Vilji
fólk flytja út forngripi, sem eru eldri en 100 ára, þarf að fá
sérstakt leyfi frá "Director General of the
Archaeological Survey of India", 11, Janpath,
New Delhi. Ekki má flytja
út dýrafeldi eða húðir.
Gjaldmiðill.
Gjaldmiðill Indlands er:
1 rúpía (rupee; Rs) = 100 paise.
Seðlar eru til í verðgildunum 1, 2, 5, 10, 20, 50 og 100 rúpíur.
Mynt: 1 og 2 rúpíur (kringlóttar) og 1, 2, 3, 5, 10 (skörðóttar,
kringlóttar og kantaðar), 20 (kringlóttar eða sexkantaðar), 25 og 50
paise.
Heimilt er að flytja inn ótakmarkaðar upphæðir erlends gjaldeyris en
gera verður grein fyrir upphæðum yfir US$ 1000.
Inn- og útflutningur innlends gjaldmiðils
er bannaður nema í ferðatékkum. Við gjaldeyrisskipti fær fólk kvittanir, sem hægt er að nota
við endurskipti.
Hótelreikninga verður að greiða með erlendum gjaldeyri.
Kreditkort.
American Express, BankAmericard (Visa), Diners Club, MasterCard
(Eurocard).
Umferðarreglur.
Vinstri umferð.
Hámarkshraði er 50 km í þéttbýli.
Tungumál.
Opinber tungumál eru 15 talsins.
Hindi er aðallega talað í norðurhluta landsins (devangari-skrift).
Enska er útbreidd.
Tími.
Tímamunur milli Íslands og Indlands er + 6½ tími allt árið.
Mál og vog.
Metrakerfið.
Víða er enska kerfið enn við lýði.
Rafmagn.
220 volta riðstraumur (50 hertz).
Millistykki nauðsynleg, því að evrópskar innstungur eru ekki alls
staðar.
Póstur og simi.
Flugpóstur:
Kort = 270 paise; bréf (<10gr) 425 paise.
Póstkassarnir eru rauðir.
Þriggja mínútna símtal milli Indlands og Mið-Evrópu kostar u.þ.b.
85 rúpíur.
Lögboðnir frídagar.
26. janúar, 15. ágúst, 2. oktober, 25. desember.
Breytilegir frí- og hátíðisdagar sjást í Hátíðadagatali.
Viðskiptatímar.
Opinberar stofnanir,
fyrirtæki, bankar, pósthús og verzlanir eru opnar á mismunandi tímum í
ríkjum landsins.
Almennt er opið frá mánud. til föstud. kl. 10:00-17:00 og hálfan
laugardaginn. Margir bankar loka á hádegi.
Veitingahús eru opin á misjöfnum tímum.
Því er ráðlegt að kynna sér viðskiptatíma hvers bæjar og borgar
áður en haldið þangað.
Ljós- og kvikmyndun.
Um allt landið er bannað að taka myndir af hernaðarmannvirkjum!
Víðast verður að fá leyfi til myndatöku á flugvöllum,
járnbrautastöðvum.
Myndatökuleyfi til eins mánaðar fást í sendiráðum eða
ræðisskrifstofum.
Fatnaður.
Frá apríl til september er bezt að klæðast víðum og léttum fötum í
suðurhlutanum og láglendissvæðum norðurhlutans, en þar og uppi í
fjöllum þarf hlýjan ullarfatnað á veturna.
Formlegs klæðnaðar er aðeins krafizt í fáum stórum hótelum og
veitingahúsum. Herrum nægir að vera í jakka og með hálsbindi.
Heilsan.
Það er eindregið mælt með bólusetningu gegn kóleru og taugaveiki og
malaríupillum. Auk þess
er ráðlegt að hafa við höndina lyf við iðrakvefi.
Ekki er hægt að drekka kranavatn ósoðið. |