Tamil Nadu Indland,
Indian flag of India


TAMIL NADU
INDLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Rústir Mahabalipuram (Mahavellipur) eru í grennd við ströndina, 60 km sunnan Madras.  Þarna lét Pallavas-ættin reisa byggingar á árunum 500-750.  Sjávarhofið (8.öld) með fíngerðum höggmyndum sínum er falleg bygging, sem öldur hafsins leika um.  Elztu minjarnar eru pagódurnar sjö:  fimm kelttahof í dravídískum stíl ('Fimm Raths' = Skrautvagnar), falleg fíla-höll og minna áberandi ljón.  Uppi á graníthrygg fyrir ofan eru fleiri hellahof.  Í Yamapuri-Mandapamhofinu eru lágmyndir af gyðjunni Durga ofan við buffalaóvættina Mahishasura.  Nálægt Krishna-Mandapam-hofið er stór lágmynd á láréttum fleti, sem sýnir 'iðrun Arjuna' eða farveg Ganges.  Báðum megin klettasprungu, sem táknar Ganges, koma menn, andar, meinlætamenn og alls konar dýr, þ.á.m. tveir fílar í náttúrulegri stærð, fljúgandi í átt að hinu heilaga fljóti.  Allar verurnar á lágmyndinni eru vel og glettnislega gerðar.

Vegurinn frá Mahabalipuram til Kanchipuram liggur fram hjá hólnum 'Tirukalikundram'.  Í hverju hádegi fóðra hofprestarnir þar tvo fálka.  Sam-kvæmt gamalli sögn hafa þeir flogið frá Varanasi (Benares) í norðri til Rameshwaram langt í suðri.

Skammt frá Tirukalikundram er eitt hinna stóru fuglaverndarsvæða Indlands, Vednathangal.

Sé ekið lengra á þjóðveginum, verður næst fyrir fyrrum höfuðborg Pallavasanna, Kanchipuram, sem Chola-ættin lagði síðar undir sig.  Í augum hindúa er hún ein hinna sjö helgu borga landsins.  Aðalhelgidómar Pallavas-anna er Kailasanatha-hofið (um 700), helgað Shiva, og Vaikuntaperumal-hofið, helgað Vishnu.  Hið síðarnefnda er lítið eitt yngra en hitt og talsvert ólíkt því.  Umhverfis aðalhelgidóminn eru yfirbyggðar svalir með súlum, fagurlega skreyttum sitjandi ljónum.  Hið fagra Ekambareswara-hof (Shiva) er frá árinu 1509.  það er 57 m hátt og óreglulegt í lögun.  Hliðið, tjarnirnar og salur með 540 myndskreyttum súlum eru athyglisverð.  Kanchipuram er líka þekkt fyrir silkivefnað (sari).

Meðfram hinni 3 km lönguleið til Litlu-Kanchipuram er fjöldi hofa.  Varadarajahofið (12.öld), helga Vishnu, dregur til sín þúsundir trúaðra á árlega hofhátíð.  Skartgripir hofsins eru sýndir, ef óskað er sérstaklega.

Það borgar sig að leggja lykkju á leið sína til Pondicherry (Puducheri), fyrrum franskrar nýlendu á ströndinni sunnan Madras, til að skoða franska byggingarstílinn og njóta vietnamskra veitingahúsa, sem eru sjaldgæf í Indlandi.

Það er hægt að kynnast nýju samfélagsformi í Auroville, 5 km norðan Pondicherry.  Í borginni, sem var stofnuð árið 1968, býr fólk alls staðar að úr heiminum og lifir eftir kenningum heimspekingsins Sri Arobindo Ghose (1872- 1950).

Borgin Chidambaram (210 km sunnan Madras) er kunn fyrir *Nataraja-hofið (herra dansins), helgað Shiva.  Það er í stíl Pandya-höfðingjaættarinnar (12.-14.öld).  Gríðarstórt hlið þess ('Gopuram') var byggt til varnar óvinaárás-um en helgidómur þess er fremur íburðarlítill.  Fjöldi skota og smámynda af byggingum gnæfa yfir hliðinu og þar yfir er hvelfing með páfuglsstélum við hvorn enda.

Borgin Tiruchchirapalli (350þ. íb.) er átta stunda lestarferð (285 km) suðvestan Madras.  Hún er mikilvæg samgöngumiðstöð.  Þar er klettavirki og Shiva-hof frá 1660-1670.  Í klettinum eru manngerð hellahof frá tímum Pallava-konunganna.

Í stóra hofinu (17.öld) við nágrannabæinn Srirangam er *Þúsundsúlna-salurinn.  Norðursúlnaröðin er eins og fylking riddara á prjónandi hestum, 2,75 m á hæð, og er ágætt dæmi um fullþroskaða höggmyndalist undir áhrifum frá hindúaríkinu Vijaynagar, sem leið undir lok árið 1565.

*Rajarajesvarahofið, sem Rajaraja Chola hinn mikli (985-1081) lét reisa í Thanjavur, er prýtt 58 m háum turni með 80 tonna steini efst.  Það þurfti að leggja 7 km langa skábraut upp að steinstæðinu til að koma honum fyrir.  Byggingarstíll Subramaniya-hofsins (18.öld), rétt hjá Rajarajesvara-hof-inu, er kallaður 'dravídískt rokokkó' vegna hinna fjörlegu skreytinga.

Stóra hofið í Tiruvalur (17.öld) í nágrenni Thanjavur og helgistaðir Kumbakonam eru skoðunarverðir.  Hoftjörn Kumbakonam er sögð fyllast af vatni úr Ganges á tólf ára fresti.  Það er atburður, sem laðar að óteljandi pílagríma.

Byggingarlist og skreytingar dravída rísa hæst í borginni Madurai (Madura; 650þ. íb.) á dögum Nayak-höfðingjaættarinnar en hnignaði síðan fljótt.  Nayak-ættin kom undir sig fótum í Madurai og Thanjavur eftir að Vijaynagar-ríkið leystist upp.

*Stóra hofið í Madurai, hið stórkostlegasta allra hindúahofa í Indlandi, var nærri fullbyggt á dögum Tirumala Nayak (1623-1660).  Það er helgað guð-inum Sundareswar (Shiva) og gyðjunni Minakshi með fisksaugun.  Á múrnum umhverfis hofið eru níu hliðturnar ('Gopuram'), sem eru þaktir höggmyndum af kynjaverum þjóðsagnanna.  Suðurturninn er 45 m hár og múrarnir, sem eru lítið eitt bogadregnir, undirstrika þokka hans og láta hann virðast hærri en hann er.  Fara þarf um völundarhús ganga og sala til að komast í helgidóma Minakshi og Sundareswar.  Vantrúuðum er óheimill aðgangur að en er leyft að skoða hofin að utanverðu.  *Þúsundsúlna-Mandapam' (1550), sem er safn, og Gullliljutjörnin með súlnagirðingunni eru skoðunverðir hlutar hofsins.

Gestir, sem 'lifa af' rykið og hitann í Madurai, geta jafnað sig í fjalla-bænum Kodaikanal (2340 m.y.s.) í 132 km fjarlægð.

Á syðsta odda Indlands, 'Kap Comorin' eða 'Kanya Kumari', er hið fagra, svarta graníthof óspjölluðu prinsessunnar.  Það er töfrandi að hlutsta á indverska hoftónlist í þessu umhverfi.  Í næsta nágrenni er minningarstaður um Mahatma Gandhi, sem margir heimsækja eins og slitin tröppuþrepin gefa til kynna.

Útsýnið yfir ströndina á Kumari-höfða er sérdeilis fagurt og rómantískt við fullt tungl á kvöldin.  Á lítilli eyju úti fyrir höfðanum er minnismerki um hindúaguðfræðinginn Vivekananda (1863-1902).

Frá Coimabtore í vesturhluta fylkisins Tamíl Nadu eru flugsamgöngur til Nilgiri-hæða í norðri.  Þar eru heilsubótarstaðirnir Ootacamund (2130 m.y.s.), sem minnir einna helzt á enskt landslag, Coonoor (1850 m.y.s.) og Kotagiri (1980 m.y.s.).


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM