Hið
litla og fyrrum sjálfstæða Himalajaríki Sikkim er rómað sem
„Fjalla- og orkideulandið”. Það
minnir að mörgu leyti á Tíbet, einkum uppi í háfjöllum
(Khang-chendzonga = Hús fjársjóðanna fimm = þriðja hæsta fjallið
í heimi; 8598m). Sikkim er
22. fylki landsins. Að því
liggja Tíbet í norðri, Bútan í austri, Nepal í vestri og
Vestur-Belgal í suðri. Heildarflatarmál
þess er 7298 km². Það
liggur á milli 250 og 8500 m.y.s. og því er landslag og náttúra mjög
fjölbreytt og falleg, allt á milli græns litar hitabeltisins til hvítra
jökla háfjall-anna. Í skógi
vöxnum hlíðum, sem tærir lækir falla um, er enn þá friður og ró
fyrir margar sjaldgæfar dýrategundir, s.s. svart- og
brúnbirni, sauðhirti, villisvín, hlébarða og sambardádýr.
Árnar og lækirnir eru fullir af laxi og silungi og rúmlega 600
fuglategundir verpa á svæðinu. Þarna
er gífurlegur fjöldi ýmissa tegunda fiðrilda og annarra skordýra.
Allt upp í 2500 m hæð vaxa rúmlega 30 tegundir lyngs
('rhododentron'; Ericacae). Blómstrandi
kirsuberjatré, bæði vor og haust, eru yndisleg.
Rúmlega 600 tegundir orkidea blómstra á mismunandi tímum allt
árið, en eru fegurstar vor og haust.
Nafnið Sikkim er
dregið af orðinu Sukhim, sem þýðir friður og hamingja. Tíbetar
kalla fylkið 'Dejong', sem þýðir „Hinn faldi dalur hrísgrjónanna”.
Íbúafjöldinn eru u.þ.b. 250.000 og Leptsar eru taldir
frumbyggjar þessa lands-hluta en þeir búa líka í Nepal og Bhotia.
Búddatrú rauðhettureglunnar er ríkj-andi.
Meirihluti íbúanna talar og skilur tungublöndu, sem heitir
nepali, en víða er talað leptsa og bhotia.
Í borgum og bæjum skilja og tala margir ensku.
Sikkim
á mikinn menningararf, sem byggist á hefðum og siðum hindúa og búddatrúarmanna. Mikilvægustu búddahátíðirnar eru helgaðar guðinum
Khang-chendzonga og nýárinu en hindúar halda hina fimmtán daga
Durrerahátíð með stríðsdönsum í oktober til nóvember ár hvert.
Sikkim
hefur verið að opnast betur fyrir ferðamönnum síðan 1975, þegar ríkið
varð hluti af Indlandi, og stöðugt er unnið að uppbyggingu í ferða-þjónustu.
Þegar á tímum konunganna ('Chogyals') opnuðu íbúarnir ríki
sitt fyrir Indverjum og öðrum útlendingum.
Hótel hafa risið víða og vegakerfið hefur lagast verulega,
þannig að vegir með bundnu slitlagi liggja til langflestra ferðamannastaða. Bezt er að ferðast utan monsún- og hávetrartímans, frá
miðjum febrúar til maíloka og frá oktober til desember. Á veturna eru hlý föt nauðsynleg og á sumrin léttur baðmullarfatnaður.
Flestir,
sem heimsækja Sikkim, koma frá
Darjeeling (1900-2300 m.y.s.), nyrzt í nágrannafylkinu
Vestur-Bengal. Nafn bæjarins er dregið af tíbetska orðinu ' Dorje Ling',
sem þýðir 'Heimkynni þrumufleygsins' eða 'Veldissproti Lama'.
Bærinn er þekktasti og líklega fegursti heilsubótarstaður í
Himalajafjöllum. **Útsýnið
til jökulkrýndra fjallanna umhverfis er frábært, þegar þokan hylur
ekki sýn, en þokutíminn er aðallega frá maí til oktober.
Aðgangur
að Darjeeling og nágrenni er takmarkaður fyrir ferðamenn, nema þeir
komi fljúgandi til Bagdogra-flugvallar (10 km frá Shiliguri) og
hyggist ekki dvelja lengur en 15 daga.
Leyfi til að ferðast þangað landveginn fást hjá innanríkisráðuneytinu
og eru í raun aðeins formsatriði.
Sé ferðast frá Kalkutta, er bezt að fara með næturlestinni
til New Jalpaiguri og þaðan áfram með leigubíl, rútu eða með *smásporbrautinni
(87 km; sporbreidd 610 mm) um ævintýralega leið um fjöllin.
Borgin
Darjeeling er á röð stalla á mjóum fjallshrygg.
Þar eru merki-lega mörg róleg hótel auk fjölda heilsuhæla,
lysti- og grasagarða. Í
fallegum skógi vöxnum fjöllunum umhverfis er hægt að njóta heilsubótargangna.
Íbúarnir eru litskrúðugt samsafn leptsa, bhotia, tíbeta,
nepala og gúrka.
Þremur
km neðan borgarinnar er tíbetskt klaustur.
Vinsæl gönguleið liggur upp á 'Tígrahæð' (2595m; 12 km suðaustar;
skáli), þaðan sem er dásam-leg *útsýni til Khang-chendzonga og óteljandi
annarra tinda Himalajafjalla. Það
er ævintýri líkast að fylgjast með sólarupprásinni þaðan.
Kalimpang
var áður landamæramarkaður fyrir ull frá Tíbet, sem var flutt þangað
á múlösnum. Það er hægt að komast þangað frá Darjeeling eða
Shiliguri til tveggja sólarhringa heimsóknar með sérstöku leyfi frá
yfirforingjanum í Darjeeling.
Höfuðborg
Sikkim,
Gangtok
(15þ.
íb.), er mjög fallega í sveit sett á fjallshrygg með útsýni til
tinda Himalajafjalla. Gul,
rauð og blá þök húsa borgarinnar, sem eru í sikkimstíl, ljá
henni einstakan blæ, þótt lítið standi eftir af stuttri en viðburðarríkri
sögu hennar.
Á
áberandi stað, nærri fyrrum konungshöllinni, þar sem hæst ber í
borginni, er 'Tashiling' (1983), stjórnarráðið með bláu þaki.
Skammt þaðan er konunglega kapellan 'Tsuk-ka-khang' með fjölda
helgilistaverka, veggmynda og fagurlega skreyttum ölturum með myndum
af búdda, bodhisattwa og öðrum guðlegum verum.
Næst Tashiling er villdýragarður, sem er líka áhugaverður
fyrir plöntuskoðara. Í
miðjum garðinum er skríni, byggt utan um eftirmynd styttunnar af
hinum prédíkandi Búdda frá Sarnath.
Nokkurra mínútna akstur utan borgarinnar er 'Government Cottage
Industries Institute', þar sem ungir og aldnir listamenn iðka listir sínar
og selja listaverk sín. Vinsælust
eru teppin, lituð með litum úr jurtum, sem vaxa í norður- og
vesturhlutum fylkisins. Þar
eru líka til sölu húsgögn og aðrir munir úr tré, bambus og reyr
auk handofinna taskna, sjala og ábreiðna.
Neðst
í borginni er
**Institute of Tibetology, heimsþekkt rannsóknarstofnun
með skoðunarverðu listasafni og þriðja stærsta safni tíbetskra
handrita um Mahayana-búddatrúna.
Þar eru líka rúmlega 200 helgimyndir og tankas.
Umhverfis stofnunina er verndarsvæði með rúmlega 200 tegundum
orkidea, sem þrífast best á tempruðum og jaðarsvæðum fjallanna
(mestur blómi í apríl/maí, júlí/ágúst og okt./nóv.).
Frá
Tashi, sem er sérdeilis góður útsýnisstaður 10 km utan borgar, er
hvergi fegurra útsýni til Himalajafjalla á góðum degi.
Þaðan blasa við Khang-chenzonga og nokkur afskekkt klaustur í
Norður-Sikkim.
Rumtekklaustrið,
23 km vestan Gangtok, er tiltölulega nýbyggt í sama stíl og
Chhofuk í Tíbet.
Klaustrið
Pemayangtse (2084m; gisting í skála) var byggt árið 1705.
Það er í suðvesturhluta Sikkim og hið næstelzta í fylkinu.
Það tilheyrir tantríska trúarflokknum Nyingmapa.
Svæðið
umhverfis Dzongri
(4000m) í vesturhluta Sikkim var tiltölulega nýlega opnað hópum ferðamanna.
Þaðan er stórkostlegt útsýni til Khang-chenzonga.
Þar eru skipulagðar 10 daga gönguferðir með klausturheim-sóknum
(Pemayangtse, Tashiding, *Yuksam o.fl.).
Fyrsti konungur Sikkims var krýndur í Yuksam-klaustri á 17. öld.
Hann bar titilinn Dharmaraja. |