Indland samgöngur,
Indian flag of India


INDLAND
SAMGÖNGUR
.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Þótt vegakerfi Indlands sé meðal hinna stærstu í heimi, er það algerlega óviðunandi.  Samkvæmt opinberum upplýsingum er það 1,7 milljón km langt og 40% af því með bundnu slitlagi.  Þjóðvegirnir tengja stjórnsýslustöðvar um allt land.  Fjöldi farartækja, miðaður við höfðatölu, er einhver minnsti í heimi.  Dráttardýr eru mikilvæg, bæði í sveit og borg.  Umferð á götum og vegum og siglingar innanlands eru tiltölulega veigalitlir samgöngumöguleikar.  Alþjóðaflugvellirnir í Delí, Bombay, Kalkútta og Madras eru jafnframt aðalmiðstöðvar innanlandsflugs, sem er undantekningalaust í höndum Indian Airlines.  Flogið er til u.þ.b. 100 flugvalla víða um land.

Það er járnbrautarkerfið í Indlandi, sem gegnir veigamesta hlutverkinu í samgöngum landsins.  Það er mjög þétt og er meðal þess veigamesta, sem brezku nýlenduherrarnir skildu eftir sig í landinu.  Bretar lögðu mikla áherzlu á góðar samgöngur af pólitískum og hernaðarlegum ástæðum og lögðu sig alla fram við uppbyggingu þess.  Hinn 16. apríl 1953 ók fyrsta farþegalestin á milli Bombay Thana, 35 km leið.  Næstu áratugi byggðu indverskir höfðingjar sín eigin járnbrautarkerfi, sem hvergi voru skráð.  Fyrstu brautirnar voru breiðar (1676 mm) en síðar voru mjórri brautir (1000, 762, 610 mm) lagðar af sparnaðarástæðum.  Þannig voru lagðar bugðóttar og brattar brautir í lág-hlíðum Himalajafjalla, m.a. milli Darjeeling og Shiliguri og milli Kalka og Shimla (1300m hæðarmunur; allt að 33% halli; rúmlega 100 göng).  Árið 1872 var járnbrautakerfið orðið 8500 km langt, 1901 44.000 km og árið 1930 u.þ.b. 68.000 km (þar af 52.000 km í núverandi Indlandi).

Allt frá því, að sjálfstæði fékkst 1947, hafa indverskar ríkisstjórnir lagt áherzlu á að endurnýja hið úrelta járnbrautakerfi en hingað til hefur orðið að gera það í smáskömmtum.  Kerfið er orðið rúmlega 61.000 km langt, sem er hið lengsta í Asíu, þótt nokkur svæði, þ.á.m. vesturströndin (milli Bombay og Mangalore), hafi ekki fengið slíkar samgöngur enn þá.  Indverska járnbrautarfélagið (Indian Railway Board) er samsteypa tíu fyrirtækja um allt land og er þar með stærsta ríkisfyrirtæki landsins.  Það flytur rúmlega fjóra milljarða farþega og 250 milljónir tonna af varningi á ári og til þess notar það 10.000 dráttarvagna, 370.000 vöruvagna og 30.000 farþegavagna.  Fjórðungur vagnanna, að minnsta kosti, er haugamatur en er samt í notkun.  Samkvæmt áætlun á að endurnýja gömlu eimreiðarnar 6400 með nýjum, tölvuvæddum díselreiðum um aldamótin 2000.  Hingað til hafa aðeins 6000 km verið rafvæddir (m.a. milli höfuðborgarinnar Delí og Kalkútta).

Hvergi annars staðar en í Indlandi ferðast fólk meira með lestum og hvergi annars staðar er ódýrara að ferðast með þeim en þar.  Flestir eiga engra annarra úrkosta en að nýta lestirnar sem samgöngutæki, því flugið er of dýrt fyrir almenning.  Verðið miðast við ekna kílómetra.  Á fyrsta farrými (loftkælt) greiða farþegar um 3,50 ikr. fyrir hvern km og á öðru 0,90 ikr.  Alls eru fjögur farrými og ferðist fólk á því ódýrasta kostar ferðin milli fjarlægustu stöðva (Jammu Tawi, nyrzt, og Kanniyakumari, syðst; 3730 km) u.þ.b. 2,000,- ikr.  Þannig ferð er ævintýri líkust en mjög tímafrek.  Flestar lestir eru alltaf yfirfullar.  Þær eru gamlar og lúnar og mætti helzt lýsa þeim sem hreyfanlegum slysagildrum.  Óteljandi, fátækir Indverjar ferðast ólöglega á þökum þeirra og tröppuþrepum, því þeir eiga ekki fyrir farinu.  Brautarstöðvarnar eru eins og markaðir og eru afdrep fyrir heimilislausa, þannig að Indverska járnbrautarfélagið sinnir líka mikilvægu félagslegu hlutverki í landinu.

Þótt mörgu sé áfátt í uppbyggingu ferðaþjónustu í Indlandi, reyna yfirvöld stöðugt að fá fleiri til að heimsækja landið.  Í þessum tilgangi er lögð meiri áherzla á fagra náttúru landsins (þjóðgarða, verndarsvæði, baðstrendur o.fl.) en sögu, listir, byggingar og mannfræðileg atriði.  Árið 1987 kom tæplega ein milljón erlendra ferðamanna til landsins, Bretar 15%, Bandaríkjamenn 10%, Sri Lankabúar, Frakkar, Þjóðverjar o.fl.

Indland er ævintýraheimur, uppfullur af andstæðum, sem erfitt er að lýsa nema með lýsingarorðum í efsta stigi.  Þeir, sem eru á hraðferð, lenda  í miklum erfiðleikum vegna þess, hve mikið er að sjá og upplifa.  Þeir, sem gefa sér nægan tíma til að njóta stundar og staðar, finna stöðugt ný undrunarefni.  Saga landsins er enn þá lifandi, gamlir siðir og hefðir eru í hávegum hafðar.  Heilagar kýr vafra óáreittar um götur og stræti.  Spámenn og stjörnuspekingar sitja fyrir framan vísindastofnanir og bjóða þjónustu sína.  Tollverðir taka lífinu með ró og gefa sér tíma til að sinna hverjum farþega eins og þeir álíta nauðsynlegt, þótt flóðöldur ferðamanna ríði yfir þá úr stærstu flugvélum  heims.  Það er gaman og fróðlegt að kynna sér minjar frá brezka nýlendutímanum.  Þar er ekki einungis um áþreifanlega hluti eins og byggingar og önnur minnismerki að ræða, heldur líka hið óáþreifanlega eins og menninguna og stjórnmálin.

Indland er sjálfstætt og mjög sérstætt land, hvað framkvæmdum viðvíkur.  Allt tekur sinn langa tíma og fer eftir ákveðnum siðum og leiðum.  Þar er líklega dýrasta stjórnkerfi heims, sem krefst mikillar þolinmæði.  Þar er að finna, hlið við hlið, mestu hugsanlegu fátækt og ótrúlegasta ríkidæmi í heiminum.  Lífsskilyrði fjöldans eru Vesturlandabúum óskiljanleg.  Samt er þarna ekki að finna neina biturð á yfirborðinu í garð þeirra, sem lifa í allsnæktum, hvort sem þeir eru landar eða ferðamenn.  Indland er merkilegt dæmi um stórkostlega félagslega mismunun og nægjusama lífsgleði.  Þeir, sem heimsækja Indland ættu ekki að láta viðkvæmnina ná tökum á sér.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM