Orissa Indland,
Indian flag of India


ORISSA
INDLAND

.

.

Utanríkisrnt.

Booking.com

Bhubaneshwar er höfuðborg fylkisins Orissa.  Hún er í 380 km suðvest-an Kalkutta í loftlínu, aðalmiðstöð Shiva-dýrkenda, biskupssetur og þekkt fyrir skrautleg musteri frá 8. til 13. aldar.  Hinn 39 m hái turn *Lingaraj-hofsins (um 1050) gnæfir yfir borgina.  Þetta hof er helgað guðnum Tribhuvaneswar (þriggjaheimaguðinn) og er eitt áhugaverðasta listaverk fylkisins.  Það er lokað öllum öðrum en hindúum en það er hægt að sjá ágætlega inn í það á nokkrum stöðum.  Hofið er hlaðið höggmyndum að utan.

U.þ.b. 1500 m norðan þess er litla Vaital-hofið.  Skreytingar þess minna helzt á víravirki.  Gáróttir turnar (Deul) eru einkennandi fyrir þetta landsvæði.  Þeir eru ílangir að grunnfleti með hálfhólklaga þaki og talið er að þessi stíll sé kominn úr suðri.  Mukteswar- og Rajranihofin er bæði opin gestum.

Borgarsafnið er líka áhugavert.

Bhubaneswar er nýleg borg.  Íbúðarhverfin, stjórnsýslubyggingar og markaðurinn tengja hefðbundinn og nútíma byggingarstíla.

Sjö km vestan borgarinnar eru hinir svonefndu Tvíburahólar Udayagiri og Khandagiri.  Þeir eru eins og býkúpur, sundurgrafnir af ríkulega skreyttum, náttúrulegum og manngerðum hellum.  Chota-Hathi-hellirinn í Udayagiri-hólnum er sérstaklega áhugaverður með plöntuhöggmyndum og tveggja hæða höll, Rani Nahar (Drottningarhöll), sem Kharavela konungur og andstæðingur Ashoka lét reisa fyrir drottningu sína.  Í Ganesh Gumpha eru átta mjög falleg en ofsafengin ástarmálverk.  Í Khandagiri-hólnum er Anantahellirinn hinn eini, sem er helgaður Búdda.  Flestir hinna eru jainahof eða skríni, sem hýsa samt líkneski af Búdda hugleiðslunnar.

*Ashoka-kletturinn er í grennd við bæinn Dhauli, u.þ.b. 8 km suðvestan Bhubaneshwar.  Hann er uppi á hæð hjá brú yfir Daya og í hann er höggvið lagasafn mikils drottnara, sem ríkti 257 f.Kr.  Fyrir ofan áletranirnar er lágmynd af fíl í fíngerðum stíl Maurja-tímans.  Yfir klettinum gnæfir stórt, japanskt friðarmusteri.

*Svarta pagódan í Konarak er í eyðimörk u.þ.b. 65 km suðaustan Bhubaneshwar og 3 km frá Bengalflóa.  Hún er í raun rústir sólarhofs, sem var reist á 13. öld, en telst til höfuðdjásna hindúískrar listar.  Hofið var teiknað sem hinn leyndardómsfulli vagn sólguðsins Surya, sem rann um himinhvolið á 24 skrautlegum hjólum.  Aðalturninn ('Deul'), sem var eitt sinn 60 m hár, er hruninn.  Skálinn Jagmohan með þrískiptu þaki hefur varðveitzt.  Uppi á þakinu eru gríðarmiklar höggmyndir af konum að leika á trommur og sembal.  Við austurhliðið (lokað með styrktarmúrum) sjást enn þá rústir af sjö hesta-höggmyndum með vagn í eftirdragi.  *Lágmyndir hofsins, sem lýsa daglegu lífi og ástarlífi, eru víðfrægar.

Þorpið Pipli er þekkt fyrir litríkan ísaum og gaman að sjá þorpsbúana við þá iðju sína.

Í borginni Puri við Bengalflóann er einn merkilegasti staðurinn Dantapura, þar sem tönn úr Búdda hefur verið varðveitt í 8 aldir.  **Jagannath-hofið, helgað alheimsguðnum, sem líkja má við Krishna og ber höfuð Vishnu.  Hofið var stofnað á síðari hluta 12. aldar.  Keilulagaður aðalturninn er 59 m hár og lagður ljósu kalklagi með fíngerðum lágmyndum.  Efst uppi er Vishnufáninn og dularfulla hjólið.  Fyrir aðalinnganginum, Ljónahliðinu, er 10 m hár einsteinungur, grár að lit og efst á honum er Garudah-fugl.  Þessi steinn stóð áður fyrir framan sólhofið í Konarak.  Inni í helgidómnum eru þrjár myndir, ein af Jagannath, önnur af bróður hans Balbhadra og hin þriðja af systur hans Subhadra.  Þetta eru kynlegar brjóstmyndir með risastórum andlitum.  Eftirmyndir þeirra í smækkaðri mynd eru fáanlegar á líflegum basörum borgarinnar.  Hofið er lokað öllum öðrum en hindúum, en staðarleiðsögumenn vísa fólki á staði, þaðan sem hægt er að sjá öll herlegheitin.  Í tilefni af *Rathyatra Car-hátíðinni (júní eða júlí) eru stóru stytturnar (hin stærsta 13,7 m há) bornar út í gegnum Ljónahliðið og hlaðið á stóra og sterka trévagna.  Þúsundir pílagríma fylgja vögnunum um aðalgötu bæjarins, Barland Road, að Gundiacha Bari, garðhúsi guðsins, sem er venjulega aðeins opið á meðan á hátíðinni stendur.

Auk borgarhótelsins í Puri er hægt að gista í smáhýsum við ströndina (Dak-Bungalows).  Við sólarupprás er hægt að fylgjast með íbúunum standandi í andakt í sjónum, þar sem þeir snúa álútir með spenntar greipar í austurátt.

Suðvestan Puri er Chilka-vatnið, stærsta stöðuvatn Indlands og vetur-setustaður villianda.  Þar er hægt að leigja smáhýsi í Balugaon eða Barkul.

Í norðvesturhluta Orissa er Hirakud-stíflan og 746 km² uppistöðulón.  Raforkuverið sér Hindustan-stálverksmiðjunni í nyrzta hluta fylkisins fyrir raforku.


.

 TIL BAKA     Ferðaheimur - Garðastræti 36 - 101 Reykjavik - info@nat.is - Heimildir            HEIM